Fréttablaðið - 19.06.2021, Side 18

Fréttablaðið - 19.06.2021, Side 18
Andlátið var rann- sakað sem morð og lá eigin- maður hennar undir grun. Ragga Holm á aðeins eina minningu af blóðmóður sinni á lífi. Fíknivandi móður- innar erfðist milli kynslóða og glímdi Ragga við marga drauga áður en líf hennar komst á réttan kjöl. Tónlistarkonan og plötu-snúðurinn Ragnhildur Jónasdóttir, ætíð kölluð Ragga Holm, átti óhefð-bundna æsku. „Þegar ég fæddist voru foreldrar mínir ekki á þeim stað að geta hugsað um lítið barn,“ útskýrir Ragga. Föðuramma og -afi Röggu tóku hana í fóstur þegar hún var nokkurra mánaða gömul og ólu hana upp þar til hún byrjaði í grunnskóla. Sex ára gömul flutti hún til föður síns og Ellu, konu hans, sem hún hefur kallað mömmu frá því hún var þriggja ára. „Ég kynntist aldrei blóðmóður minni og hitti ekki móðurfjölskyld- una fyrr en í jarðarförinni hennar,“ segir Ragga. Móðir Röggu barðist alla tíð við mikla fíkn og lifði f lest sín ár á útjaðri samfélagsins. Blóðmóðir Röggu var aldrei í stakk búin til að geta alið upp barn, en áður en Ragga kom í heiminn eignaðist hún strák sem var einnig sendur í fóstur. „Hann var ekki jafn heppinn og ég. Hann fór í fóstur til annarrar fjölskyldu og var á milli fjölskyldna í einhvern tíma.“ Móðir hennar eignaðist síðar tvo aðra stráka sem ólust upp annars staðar. Einn dagur lifir í minningunni „Ég kynntist þessari mömmu aldrei en ég man að ég fékk að hitta hana þegar ég var sjö ára.“ Það er eina minningin sem Ragga á af móður sinni á lífi. „Ég hafði séð einhverjar myndir af okkur saman þegar hún lá inni á meðferðarheimili en var of lítil til að muna eftir því.“ Þessi eini dagur sem mæðgurnar eyddu saman er enn ljóslifandi í minningunni. „Við bökuðum saman skúffuköku og ég fékk að vera hjá henni í smá tíma,“ segir Ragga. Heimsóknin átti að vera upphaf að reglulegum mömmu- helgum en aldrei varð af því. „Ég fór heim eftir þennan dag og hitti hana síðan aldrei aftur.“ Tenging Röggu við móður sína hvarf þó ekki alfarið þennan dag, þar sem hún fékk árlega jólagjafir frá móðurfjölskyldu sinni á Höfn í Hornafirði. „Ég fékk gjafir frá þeim þar til ég var þrettán ára, en skildi í raun ekkert í því þar sem ég þekkti þetta fólk ekki neitt.“ Ragga kveðst aldrei hafa upplifað löngun til að hitta blóðmóður sína eða móðurfjölskylduna í æsku. „Ég var að einhverju leyti búin að gleyma að ég ætti blóðmóður einhvers staðar annars staðar, enda rosalega heppin með Ellu mömmu.“ Vinabeiðni frá mömmu Þegar Ragga var 24 ára reyndi blóð- móðir hennar að komast í samband við hana. „Árið 2011 fékk ég vina- beiðni á Facebook og þá var það hún.“ Geðshræring yfirtók Röggu þegar hún sá nafn móður sinnar og kveðst hún ekki hafa vitað hvernig hún ætti að bregðast við. Vina- beiðnin var því aldrei samþykkt. Tveimur vikum síðar gifti móðir hennar sig. „Ég sé fyrir mér að hún hafi verið að reyna að glæða lífi í samband okkar með því að bjóða mér í giftinguna.“ Skömmu eftir brúðkaupið fékk Ragga símtal frá hálfbróður sínum, sem greindi henni frá því að móðir þeirra væri í dái á gjörgæsludeild. „Ég man að ég spurði ekki hvað hefði komið fyrir og fann engar tilfinn- ingar þegar ég fékk þessar fréttir.“ Ótal spurningar hafi þó vaknað við símtalið. „Ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera eða hvað myndi taka við, hvort þetta væri tækifæri til að kveðja hana á spítalanum eða hefja samtal á ný.“ Að lokum treysti Ragga sér ekki til að taka skrefið. Andlát móðurinnar rannsakað sem morðmál Ragga Holm átti óhefðbunda æsku og einkenndist lífið seinna af neyslu og geðhvarfasýki. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI Daginn eftir fékk hún símtal um að móðir hennar væri látin, aðeins 43 ára að aldri. Rannsakað sem morð Andlátið var rannsakað sem morð og lá eiginmaður hennar undir grun. Fjallað var um málið í öllum fjölmiðlum og í kjölfarið voru fleiri ástríðuglæpir sem framdir hafa verið á landinu rifjaðir upp á forsíðum blaðanna. „Eiginmaður hennar var í þannig ástandi að hann gat ekki með góðu móti gefið skýrslu um málið. Ég veit ekki hvort hann hafi verið í sjokki eða hvort hann hafi ekki munað hvað hafði gerst.“ Hjónin voru bæði fíklar en Ragga kveðst ekki vita á hvaða braut þau voru á þessu stigi lífs síns. „Við krufn- ingu kom síðan í ljós að hún hefði látist af höfuðhöggi sem væri ekki af völdum barsmíða.“ Í seinni tíð fór Ragga að grennslast fyrir um æviskeið blóðmóður sinnar á netinu. „Þar sá ég að þegar hún var á mínum aldri, rúmlega þrítug, bjó hún í stórskemmdri Mözdu.“ Það hafi verið átakanlegt að sjá svart á hvítu hversu erfið ævi blóðmóður hennar hafi verið. Fyrirfór sér þegar æskuástin fór Blóðmóður Röggu var fylgt til grafar á Höfn og þáði Ragga boð í jarðar- förina. „Ég fór með mömmu Ellu og þar hitti ég móðurfjölskyldu mína í fyrsta skipti svo ég muni eftir.“ Í jarðarförinni tók Ragga eftir að eiginmaður blóðmóður hennar var hvergi sjáanlegur. „Ég spyr mig hvort það hafi verið af skömm eða of mik- illi sorg.“ Enn hafi verið mikill hiti yfir því hvort andlátið hefði átt sér stað með saknæmum hætti. Rúmum mánuði eftir jarðarför- ina fyrirfór eiginmaður blóðmóður hennar sér. „Þetta hefur bara verið of mikið fyrir hann. Þetta var æsku- ástin og þau voru nýsameinuð aftur en svo deyr hún og þá hafði hann engan tilgang til að lifa lengur.“ Minnti á móður sína Haldin var sérstök kistulagning fyrir Röggu og hálfbróður hennar til að þau gætu séð móður sína. „Þetta var allt mjög óraunverulegt, ég var að horfa á móður mína dána eftir að hafa ekki séð hana í nærri tvo áratugi.“ Það hafi komið á óvart hve líkar mæðgurnar voru í útliti. „Ég fór ekki að gráta og var mjög yfirveguð og tilbúin í jarðarförina,“ lýsir Ragga. „Eða ég var það þar til mamma hennar, eða amma mín, labbar upp að mér og spyr hágrát- andi hvort ég viti hver hún sé.“ Þá hafi flóðgáttirnar opnast. „Ég fattaði að hún hefði verið að missa dóttur sína og sjá mig í fyrsta skipti síðan ég var smábarn.“ Það hafi loksins runnið upp fyrir henni hve tengd hún væri fólkinu á staðnum. „Það var svolítið yfirþyrmandi að vera orðin svona mikil dóttir henn- ar þegar hún dó.“ Fólk hafi leitað til hennar og vottað samúð sína. „Mér fannst ég eiginlega ekki eiga rétt á því af því að ég hafði aldrei verið tengd henni. En svo sá ég alveg hvað fólk sá, þau sáu einu dóttur hennar, hvað ég var lík henni og hversu mikið hún átti í mér.“ Villtist í neyslu Ragga erfði þó fleira en útlit móður sinnar. „Það er alltaf sagt að maður fái sitt lítið af hverju af genum for- eldra sinna og ég kenndi alltaf mömmu um hvernig áfengi og annað hafði áhrif á mig.“ Á tímabili fór Ragga að drekka mikið og illa. „Neyslan hafði ekki mikil áhrif á mitt daglega amstur, ég mætti enn þá í vinnuna og sinnti mínum skyldum.“ Það fór þó að bera á brestum og fljótt fór lífsstíllinn að taka sinn toll. Um vorið 2015 varð Ragga fyrir alvarlegri líkamsárás af hendi manns sem hún kannaðist við. „Ég var heima hjá fyrrverandi kærustu hans og hann ræðst á mig í öfund- sýki vegna þess að hann grunar að það sé eitthvað í gangi okkar á milli.“ Árásarmaðurinn hrinti henni á ofn og sparkaði í höfuð hennar liggjandi. „Ég fékk í kjölfarið stórt ör á andlitið, sem ég horfi á á hverjum einasta degi í spegli og er minnt á hvaðan það kom.“ Maðurinn neitaði að hringja í sjúkrabíl svo leigubíll keyrði Röggu og vinkonu hennar á sjúkrahús. Kæran felld niður Á sjúkrahúsinu hringdi Ragga í vinkonu sína og tilkynnti að botn- inum hefði verið náð. „Vinkona mín hringdi á Vog og degi seinna er ég flutt til hennar og fór svo í með- ferð.“ Dvölin á Vogi varði í tíu daga. „Ég þurfti að átta mig á aðstæðum og finna drifkraftinn til að hætta að drekka.“ Þá þegar tók hún ákvörðun um að lenda aldrei aftur í álíka aðstæðum. „Ég náði að sjálfsögðu að kenna sjálfri mér um að hafa orðið fyrir líkamsárás og fannst ég vera veik- burða.“ Eftir að hafa útskrifast af Vogi kærði Ragga árásina, en kæran var felld niður með þeirri útskýringu að um væri að ræða orð gegn orði. „Það skildi mig eftir í molum að hann hefði ekki þurft að bera ábyrgð á neinu og að vinkona mín hafi ekki þorað að bera vitni gegn honum.“ Í kjölfar árásarinnar var Ragga greind með áfallastreituröskun sem hún hefur unnið í síðan. Endurskrifaði námsbækurnar Þetta sama ár útskrifaðist Ragga úr tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands með 9,8 í einkunn fyrir lokaverkefni, þrátt fyrir að skólaganga hafi ávallt verið henni erfið. „Það hrjáði mig mikið að vera ofvirk og með athyglisbrest í grunn- skóla og menntaskóla,“ segir Ragga, sem skildi ekki hvers vegna hún gat hvorki lært né munað neitt. „Ég get þakkað Ellu mömmu fyrir að hafa dröslað mér í gegnum þetta nám, annars hefði ég aldrei orðið stúdent.“ Ella lagði blátt bann við að Ragga hætti í menntaskóla þegar hún var ári á eftir jafnöldrum sínum. „Hún vildi ekki að ég gerði sömu mistök og hún en mér fannst þetta vera dauðadæmt.“ Ella lagði mikið á sig til að koma Röggu í gegnum námið og las allar námsbækurnar hennar og endur- skrifaði þær á mannamáli í stíla- Kristlín Dís Ingilínardóttir kristlin @frettabladid.is 18 Helgin 19. júní 2021 LAUGARDAGUR

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.