Þjóðmál - 01.03.2016, Page 85
Ef við lítum aftur til þess tíma þegar
viðræður um lcesave-kröfuna áttu sér stað
þá er augljóst að margir töldu nauðsynlegt
að semja. Sæti í samfélagi þjóðanna væri í
húfi og öðruvísi yrði efnahagur landsins ekki
endurreistur. Reyndar er athyglisvert að það
voru fremur hagfræðingar sem töluðu fyrir
samningum á meðan lögfræðingar virtust
telja dómstólaleiðina allt eins farsæla. Af
hverju skyldi það vera? Jú, svo virðist sem
margir hagfræðingar hafi tengt samninga
við Evrópusambandsumsóknina og að í raun
væri um að ræða tvær hliðar á sama peningn-
um. Að með því að ýta þessu deilumáli til
hliðaryrði aðild auðsóttari. Og með tilstyrk
ESB yrði síðan auðveldara að takast á við
klyfjar samningsins. En það voru ekki einu
röksemdirnar sem hafðar voru uppi. Það var
skoðun margra að samningar myndu hafa í
för með sér hraðari endurreisn og styrkingu
krónunnar.
Vonin um að samningur leiddi
til skjótrar endurreisnar
Þetta mátti meðal annars lesa í áliti meiri-
hluta Efnahags- og skattanefndar (Fylgiskjal I)
frá 19. ágúst 2009. Þá lá fyrir skrifleg umsögn
Seðlabanka íslands um lcesave-samningana
og áhrif þeirra á erlenda skuldastöðu þjóðar-
búsins, sem bankinn taldi að gæti farið
talsvert yfir 200% af VLF árið eftir (2010).
Meirihlutinn sá stöðuna með þessum hætti:
„Ríkissjóður á hins vegar hvorki tiltækt
erlent lausafé né ákveðnar tekjur til að
mæta lcesave-ábyrgðinni og þess vegna er
það verkefni næstu 15 ára að afla ríkissjóði
tekna til að mæta þessu. Til lengri tíma litið
eru áhrif samninga af þessari stærðargráðu
þau að veikja gengi krónunnar frá því sem
annars hefði orðið og getur sú þróun haft
áhrif á vaxtastig til hækkunar fremur en
lækkunar. Um leið verður að hafa í huga að
verði frumvarpið ekki samþykkt verður lce-
save-málið ekki úr sögunni og óvissan sem
því fylgir getur haft afdrifaríkar afleiðingar
fyrir gengis- og vaxtaþróun."
Undir þetta skrifuðu Guðbjartur Hannes-
son, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar
Daðason, Bjarkey Gunnarsdóttir, Oddný G.
Harðardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og
Þór Saari (með fyrirvara).
Að hluta var þingmönnum vorkunn. Margir
áhrifamenn í samfélaginu kröfðust samn-
inga, helst sem fyrst. Tveimur dögum áður
en áðurnefnt meirihlutaálit var skrifað hafði
Viðskiptablaðið eftir Vilhjálmi Egilssyni, fram-
kvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), að
lcesave málið hefði tafið alla framþróun hér á
landi of lengi og þess vegna þyrfti að ganga
frá því sem fyrst. Og Vilhjálmur bætti við:
„Þetta hefur haft áhrif á svo margt, s.s. lána-
greiðslur, lánshæfismat, endurfjármögnun
bankakerfisins, fyrirhugaðar virkjanir og allt
atvinnulífið í heild."
Um leið hafði blaðið eftir Vilhjálmi að hann
vonaðist til þess að frágangur málsins yrði til
þess að hjólin gætu byrjað að snúast á ný.
Sama dag ræddi Viðskiptablaðið við Gylfa
Arnbjörnsson, formann ASÍ. Hann taldi
nauðsynlegt að Evrópusambandið lagaði
þá ágalla sem kynnu að vera á lögum um
innstæðutryggingar og að samningsleiðin
væri nauðsynleg:
„Við getum ekki hætt á það að
lánamarkaðir lokist, það er einfaldlega ekki
valkostur. Burtséð frá því hvort við teljum
að það sé illa komið fram við okkur eða
ekki þá verður íslenskt atvinnulíf að hafa
aðgang að fjármagni."
Sviðsmyndin sem ekki rættist
Vitaskuld voru þeir Vilhjálmur og Gylfi að
endurvarpa skoðunum margra í atvinnu-
lífinu og háskólasamfélaginu. Þekktust
eru líklega ummæli Þórólfs Matthíassonar
hagfræðiprófessors í fréttum Stöðvar 2,31.
júlí 2009:
„Við erum búin að fá ítrekun á greiðslur
eins og á lcesave og við sinnum þeim ekki
og þá gerist það náttúrlega að lánveit-
endur okkar vilja ekki láta meira fé af hendi
rakna ... og þá hrynur krónan. Hún fer niður
fyrir allt sem við höfum nokkurn tíma þekkt.
Og lífskjör hrynja gjörsamlega. Atvinnu-
leysi eykst. Þannig að við erum að horfa
VORHEFTI2016 83