Þjóðmál - 01.06.2019, Page 84

Þjóðmál - 01.06.2019, Page 84
82 ÞJÓÐMÁL Sumar 2019 er hafist hafði síðla árs 1948, til að koma á norrænu varnarbandalagi. Þegar Norðmenn fitjuðu upp á því, að Íslendingar tækju þátt í viðræðunum á lokastigi þeirra, voru Svíar því mótfallnir, þar sem þeir töldu, að það myndi leiða til of mikilla umræðna um Norður- Atlantshafsbandalag. Raunar er ljóst, að slíkt þröngt bandalag hefði aldrei haft bolmagn til þess að tryggja hervarnir Íslands og því verið algjörlega óraunhæf lausn á vanda þess í öryggismálum. En þarna var um að ræða hugsanlegt bandalag frændríkja, sem reynt hefðu að standa utan stríðsátaka, og því eðlilegt og nauðsynlegt að kanna. hvort þau kæmust að tækri niðurstöðu. Tilraun skandinavísku ríkjanna þriggja fór út um þúfur í janúarlok 1949, einkum vegna þess, að Norðmenn vildu tryggja fyrirfram, að vopn fengjust frá Bandaríkjunum og skuld- binding um, að þau kæmu áður nefndum ríkjum til hjálpar, ef á þau yrði ráðist. En slík tengsl við Bandaríkin samræmdust ekki utan- ríkisstefnu Svíþjóðar. Þar með varð sýnt, að Norðmenn og Danir yrðu aðilar að stofnun Atlantshafsbandalagsins. Auðveldaði það Íslendingum að taka afstöðu til málsins, að fyrirsjáanlegt var þar samflot með tveimur öðrum Norðurlöndum. Sovétstjórnin hafði Varað norsku stjórnina við að ganga í hið vestræna bandalag. Í einkasamtali norska utanríkisráðherrans, Halvard Lange, við Bjarna Benediktsson þarna í janúarlok kom fram, að Norðmenn töldu jafnvel hættu á, að hinn voldugi ná granni í austri með landamæri að Noregi kynni að láta til skarar skríða gegn Norðmönnum, áður en tóm gæfist til að ganga frá stofnun hins vestræna bandalags. Líður að ákvörðun Hinn 29. janúar 1949 kom skeyti til íslensku ríkisstjórnarinnar frá Dean Acheson, utanríkis- ráðherra Bandaríkjanna, um að ekki væri vilji til að staðsetja her á Íslandi nema í brýnustu neyð. Þessi vitneskja varð án efa léttir þeim ráðamönnum, sem að málinu unnu. Lítið var þó sagt frá athugun málsins opinberlega að svo stöddu, enda þótti það enn ekki liggja nógu ljóst fyrir. Miklar umræður og illskeyttar deilur héldu hins vegar áfram um málið í blöðum og á fundum. Var því m.a. haldið fram af and- stæðingum hugsanlegrar aðildar, að í slíku bandalagi með stærri og voldugri þjóðum mundi íslenskt sjálfstæði verða að engu - verið væri að selja landið. Ísland væri að ánetjast hernaðarvél, sem væri með í undirbúningi hernaðarárás á Sovétríkin, og mundu Íslendingar þannig berast nauðugir viljugir með inn í stríðsátök. Enn heyrðust raddir um hlutleysi. Smám saman kom þó í ljós, að mikill meirihluti stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar mundi að meginstefnu til vera hlynntur þátttöku í hinu vestræna varnarsamstarfi, ef tekið yrði viðunandi tillit til sérstöðu Íslands. Málið nálgaðist nú ákvörðunarstig, en nauðsynlegt var að allar forsendur lægju sem skýrast fyrir. Utanríkisráðherrann gerði því tillögu um, að þrír ráðherrar, einn frá hverjum stjórnarflokki, færu til Washington, DC., í könnunarferð. Þetta var samþykkt, og varð förin lykilþáttur í lokaathugun málsins af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar. Til fararinnar völdust þeir Bjarni Benediktsson frá Sjálfstæðisflokknum, Emil Jónsson frá Alþýðuflokknum og Eysteinn Jónsson frá Framsóknarflokknum. Áttu þeir viðræður við fulltrúa Bandaríkjastjórnar dagana 14. - 17. mars. Mjög ýtarlega var farið yfir hina ýmsu þætti málsins, og komst íslenski utanríkis- ráðherrann svo að orði um sig í lokin, að hann hefði verið einna líkastur spænskum rannsóknardómara.

x

Þjóðmál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðmál
https://timarit.is/publication/1175

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.