Þjóðmál - 01.06.2019, Page 97
ÞJÓÐMÁL Sumar 2019 95
Tilkynningar þeirra Ágústs Ólafs og Báru
Huldar voru látnar nægja í umfjöllun um málið.
Athygli vekur að Bára Huld hélt áfram að birta
fréttir er vörðuðu stjórnmálavafstur Ágústs
Ólafs í Kjarnanum, eftir atvikið og fram að því
að hann fór í leyfi. Augljóst var þó að Bára Huld
var ekki ánægð með hvernig tekið hafði verið á
máli hennar.“
Ýmsar fullyrðingar Sigurðar Más í þessum
hluta eru rangar. Afstaða Kjarnans er þessi:
Það er alltaf þolenda að ákveða í hvaða
farveg brot gegn þeim fara. Fyrirtæki, eða
stjórnendur fyrirtækis, geta aldrei tekið þá
ákvörðun fyrir þolendur sem hjá þeim starfa.
Það sem stjórnendur fyrirtækja þolenda sem
verða fyrir áreitni eða annars konar ofbeldi
geta og eiga að gera er hins vegar að styðja
þá þolendur að öllu leyti.
Það hefur Kjarninn gert í einu og öllu. Hér er
til að mynda yfirlýsing stjórnar og stjórnenda
Kjarnans vegna málsins sem birt var eftir að
þolandinn ákvað, sjálf með okkar stuðningi,
að svara yfirlýsingu gerandans í málinu
opinberlega. Þar segir m.a. „Hegðun hans
var niðrandi, óboðleg og hafði víðtækar
afleiðingar fyrir þann sem varð fyrir henni.
Afleiðingar sem eru bæði persónulegar og
faglegar. Stjórn og stjórnendur Kjarnans
gerðu þolanda ljóst frá upphafi að hann réði
ferðinni í þessu máli og til hvaða aðgerða
hann taldi réttast að grípa.“
Fullyrðing Sigurðar Más um að „litlar fréttir
hafa verið fluttar af viðbrögðum stjórnenda
Kjarnans við atvikinu“ er því augljóslega röng
og hann hefði getað komist hjá því að setja
hana fram með því að tengjast internetinu
og nýta sér leitarvél.
Fullyrðing Sigurður Már um að þolandinn í
málinu sé ekki ánægð með hvernig tekið hafi
verið á máli hennar innan Kjarnans er einnig
röng. Sigurður Már spurði hana ekki hvort svo
væri áður en að hann fór að gera henni upp
skoðanir. Samstarfsmenn, sem starfa með
þolanda á hverjum degi, geta hins vegar
staðfest að hún er ekki óánægð með hvernig
tekið var á máli hennar innan Kjarnans. Þær
upplýsingar fengust með því að spyrja þolanda.
Fullyrðing Sigurðar Más um að Bára Huld
hafi haldið áfram að birta fréttir er „vörðuðu
stjórnmálavafstur Ágústs Ólafs í Kjarnanum,
eftir atvikið og fram að því að hann fór í leyfi“
er röng og á sér engan stað í raunveruleika-
num. Bára Huld skrifaði ekki eina frétt um
téðan Ágúst Ólaf eftir að umrætt atvik átti sér
stað.
—
Aths. ritsj.:
Rétt er að taka fram að forsvarsmenn
Kjarnans kærðu skrif Sigurðar Más tvisvar
til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands,
sem í bæði skiptin vísaði kærunum frá og
tók þær ekki til efnislegrar meðferðar enda
taldi siðanefndin, með réttu, að um skoðana-
grein væri að ræða. Greinin sem um ræðir
var merkt höfundi líkt og flest allar greinar
sem birtast í Þjóðmálum. Það er ritstjórnar-
ákvörðun Þjóðmála hvaða efni er tækt til
birtingar á síðum þess. Þó að menn kunni að
greina á um þær skoðanir, sem settar voru
fram í fyrrnefndri grein, þá var ekkert í henni
sem kallaði á afskipti ritstjóra og það er ekki
á hans valdi að „leiðrétta“ skoðanir annarra.
Aftur á móti er bæði rétt og sanngjarnt að
birta þær athugasemdir sem nefndar eru hér
fyrir ofan.