Rit Landbúnaðardeildar : A-flokkur - 01.10.1955, Side 61
59
fremur mildur. Var því lítill klaki í jörð, þegar voraði. Jarðvinnslustörf
hófust með fyrsta móti. Vorið var í meðallagi hlýtt, góðviðrasamt, og kom
gróður fljótt. Sumarið fram að september var óvenju hagstætt, og hið
sama má segja um september, þótt kaldur væri. Haustið og fram að nýjári
var tíð rysjótt og fremur óhagstæð útiverkum. Árið má því telja með bezta
tíðarfari gagnvart allri framleiðslu í sveitum.
2. Tihraunastarfsemin.
Bæði árin hefur tilraunum verið haldið í líku horfi og áður. Nokkrum
tilraunum hefur verið bætt við með tilbúinn áburð, skjólsáð fyrir gras,
sláttutíma, fræblöndur og tilraunir með grastegundir og stofna af þeim í
hreinrækt, þ. e. hverri tegund og stofni verið sáð einni út af fyrir sig. Þá
hafa verið gerðar tilraunir með kartöfluafbrigði og áburð, svo og tilraunir
með innlendar grastegundir til fræræktar. Eru þetta stofnar af íslenzku
fræi af háliðagrasi, rýgresi, hávingli, vallarsveifgrasi, snarrót og túnvingli.
Var sáð sl. vor hverjum stofni út af fyrir sig til gróðursetningar vorið 1955.
Er hugmyndin að afla þannig fræs til framhaldsræktunar fræs af fyrr-
greindum tegundum. En hvort fræ af þessum tegundum verður ræktað
hér á landi eða sent til annarra landa til fræframleiðslu, er ennþá óráðið.
Svo eigi þurfi að gera grein fyrir fyrirkomulagi þeirra tilrauna, sem
hér fara á eftir, skal tekið fram í eitt skipti fyrir öll, að við allar tilraunir
eru hafðir 3—5 samreitir eftir tegundum tilrauna, og reitastærð 10—50 m2
(grasstofnstilraun 10 m2). Áburðartilr. 7.07 X 7.07 m áburðarreitir, en
uppskerureitir 5 X 5 m = 25 m2.Hkg/hey af ha í grastilraunum öllum
grundvallast á þeim 2 kg grassýnishorna, sem tekin eru sem meðalsýnis-
horn af hverjum tilraunalið. Sýnishorn þessi eru svo þurrkuð inni í fín-
gerðum netpokum.
Þá hafa verið gerðar athuganir á fræþroska vallarfoxgrass sl. sumar.
Reyndist svo, að þessi tegund náði góðum fræþroska þegar fræspildan var
500 m2 og stærri, en sérstætt í smáreitum náði það lélegum þroska. Eru
það sennilega frjóvgunarskilyrðin, sem skapa þennan mun. Verður þetta
nánar athugað áfram.
Þá hafa sem að undanförnu verið gerðar rannsóknir á fræi og korni,
heymjölsgerð og skógrækt. Einnig verið gerðar veðurathuganir eins og
undanfarið. Fer hér á eftir yfirlit um árangur þeirra tilrauna, sem gerðar
hafa verið árin 1953 og 1954, svo og meðaltöl fyrri ára, ef tilraunin hefur
staðið lengur en þessi tvö sl. ár. Verður fylgt sömu reglu og í síðustu
skýrslu, og koma tilraunirnar í þeirri röð, sem þær birtust áður.