Heilsuvernd - 01.03.1991, Blaðsíða 40

Heilsuvernd - 01.03.1991, Blaðsíða 40
„Senn munu glókollar vorsins í varpanum skína, velkomin, fífill og sóley, í stofuna mína” Ú N F í F I (Taraxacum officinale) EFTIR ÓLAF GUÐMUNDSSON LYFJAFRÆÐING T Svo segir í nýlegri vorvísu og víst er um það að frá aldaöðli hefur fífill í varpa og sóley í túni flutt vetrarþreyttri þjóð vonina um „betri tíð með blóm í haga, sæta, langa sumardaga". Meðal annara en barna, skálda og einstöku hrifnæmra sálna hefur túnfífillinn þó aldrei verið vinsæll hér á landi. Ekki þótti hann bæta töðuna né drýgja, svo að bændur fussuðu við honum, og ekki er hann vinsæll í görðum manna, heldur talinn illgresi hið versta (reyndar af frændum okkar Dönum nefndur „fandens mælkebötte" eða mjólkurtrog skrattansl). Margir hafa enn horn í síðu túnfífilsins og telja hann í flestu til óþurftar, meðan aðrir lofa hann og prísa, segja hann ekki aðeins meðal fegurstu jurta heldur einnig meðal þeirra gagnlegustu. Þannig hafa ýmsar þjóðir t.d. Frakkar, tekið ástfóstri við túnfífilinn sem matjurt og rækta hann mikið. Þykir hann þar í landi mesta lostæti, einkum í hrásalöt af ýmsu tagi. Þetta hef ég sjálfur sannreynt. Remmubragðið af fíflamjólkinni gefur salatinu ferskan, villtan keim. Ég var reyndar í fyrstu ekki alveg öruggur að franski fífillinn, sem þeir kalla „dent de lion" eða Ijónstönn, væri sömu tegundar og túnfífillinn okkar, svo að ég varð mér úti um poka af þessu matjurtafíflafræi frá París. En þar er það selt í öllum fræverslunum. Jú, jú, þetta reyndist svo sem allt vera ein og sama tegundin, hvort sem hann hét túnfífill, „fandens mælkebötte", „dent de lion" eða Dandelion (sem er enska nafnið og auðvitað bara afbökun á því franskal). Það eru blöðin sem notuð eru í salat, og þau skal týna ung, áður en plönturnar blómstra. Vilji menn milda bragð blaðanna má fjarlægja miðtaugina, sem er bragðsterkust. Ræturnar voru reyndar einnig notaðar, annaðhvort steiktar eða etnar með smjöri, eða soðnar í vatni (til að ná burt remmunni) og síðan í mjólk. Þurrkaðar rætur voru malaðar og notaðar í brauð með mjöli. Einnig voru þær brenndar og malaðar og notaðar til að drýgja kaffi (kaffibætir). Eitthvað munu íslendingar hafa kynnst þessum fíflanytjum, t.d. af því að horfa upp á franska duggukarla ráfa um haga og draga upp fífla, en ekki mun almenningur þó hafa tekið þá alvarlega. Þetta voru algjörir villimenn, sem átu alls konar óþverra sem úti frýs, svo sem fífla, krabba og skeljar og jafnvel gorkúlur. Svei attan! Nokkrir góðir menn svo sem Eggert Ólafsson, Björn gamli séra í Sauðlauksdal, höfðu þó reynt að benda á gagnsemi fífilsins og talið upp margvísleg not, sem af honum mætti hafa, bæði til matar og lyfja. I bók sinni „Grasnytjar" frá 1783 nefnir Björn margt af því sem hér hefur L L verið nefnt og segir auk þess: „Sé klútur, vættur í legi þessarar urtar, lagdur sídan vid heimakomu, edr adra bólgu linar of hita í henni. ...Seydi af urtinni giörir andlit vel litat þótt madr hafi ádr verid blackleitr og döckleitr... Miolkursaft þessarar urtar, eda lögr hennar, sosar vörtur af holldi manns; skírir líka augu, þegar sú saft er í þaug borin. (Þessu man ég vel eftir frá bernskuárum mínum, að fíflamjólk var borin á vörtur). ...Blödin, sem salat brúkud, sefa blódshita brádlyndra manna, og eru gód vid svefnleysi ad quölldi etin, mýkja vallgang. Þaug eru einkar gód ungum mönnum, sem í einlífi lifa, Þaug dempa losta og endurnæra þó; gefa góda melting matar, bædi hrá og sodin. Matbúin sem kál, eru þaug mjúkasti matr fyri þá menn sem eru sóttlera, edr hafa solltid úr hófi svo at þeir þola ei almennan mat". Margt fleira gott hafði séra Björn um túnfífilinn að segja en allt kom fyrir 40

x

Heilsuvernd

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heilsuvernd
https://timarit.is/publication/1615

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.