Morgunblaðið - 26.08.2021, Qupperneq 20
VIÐTAL
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Ég var bara mánaðargömul þeg-
ar Víetnamarnir komu og yfirtóku
borgina og við þurftum bara að
flýja,“ segir Danith Chan, sem
samkvæmt þjóðskráningu er eini
núverandi ríkisborgari Íslands
sem fæddur er í Kambódíu, en
hún kom í heiminn í höfuðborginni
Phnom Penh, í ógnarríki Pols Pots
og kommúnísku skæruliðahreyf-
ingarinnar Rauðu khmeranna, 6.
desember 1978, á lokametrum
veldis Pots, sem breytti tímatalinu
í árið núll við valdatöku khmer-
anna árið 1975, bannaði öll erlend
áhrif og erlend tungumál og bar
að lokum ábyrgð á dauða fjórð-
ungs kambódísku þjóðarinnar,
meðal annars á hinum alræmdu
„ökrum dauðans“, hrísgrjóna-
ökrum þar sem íbúum landsins
var þrælað út með skelfilegum af-
leiðingum.
Danith, sem við nefnum fornafni
hér að íslenskum sið, enda talar
hún lýtalausa íslensku og býr í
Mosfellsbæ, lifði nákvæmlega síð-
asta mánuðinn af valdatíma Rauðu
khmeranna áður en Víetnamar
réðust inn í Kambódíu á jóladag
1978 og nýttu sér þar styrk og
stuðning Sovétríkjanna sálugu.
Steyptu þeir Pol Pot af stóli í
byrjun nýs árs.
Stráfelldu Kambódíumenn
Sú innrás var svo blóðug, að
Danith segir hörmungar, sem fyr-
ir hafi verið skelfilegar, í raun
hafa orðið enn verri. „Phnom
Penh tæmdist bara, allir þurftu að
flýja. Fólk hljóp út úr borginni í
hópum, ég man auðvitað ekkert
eftir þessu,“ segir Danith, sem var
nýfædd þegar Víetnamar komu og
stráfelldu Kambódíumenn.
„Mamma var bara með mig í fang-
inu. Fólk forðaði sér inn í frum-
skóginn og margir urðu að henda
börnum sínum frá sér, inni í skóg-
inum mátti ekki heyrast barns-
grátur, þá komu Víetnamarnir og
murkuðu lífið úr öllum hópnum,
þar sem voru vopnlausir og ósjálf-
bjarga Kambódíumenn,“ segir hún
frá.
„Þetta var í raun bara landtaka,
sem lítið hefur verið fjallað um
síðan, enda voru það Víetnamarnir
sem skrifuðu söguna. Sumir náðu
að flýja til Malasíu á bátum, en
aðrir voru drepnir við ströndina
þar. Flestir flúðu til Taílands,
tóku lestir eða fóru hreinlega fót-
gangandi gegnum frumskóga og
fen, sem var erfitt og stór-
hættulegt ferðalag. Síðar byggð-
ust flóttamannabúðir upp í Suður-
Taílandi, en það tók tíma, alþjóða-
samfélagið var lengi að semja við
Taílendinga um að opna búðirnar.
Þetta varð til þess að hvort
tveggja Taílendingum og Víetnöm-
um gafst tími til að stráfella fólk,
sem var innikróað og hafði ekki til
annarra saka unnið en að vera
Kambódíumenn,“ segir Danith um
mánuðina eftir að Víetnamar tóku
Kambódíu.
Afi og amma hurfu sporlaust
Móðurforeldrar hennar voru
efnafólk, lyfjaframleiðendur og
lyfsalar í Kambódíu, áberandi í
þarlendu viðskiptalífi. Þau hurfu
sporlaust í stjórnartíð Pols Pots
ásamt yngstu dóttur sinni í kjölfar
þess að hafa verið svipt öllum
eignum sínum og fyrirtækjum.
„Hafði þá móðurafi minn komið
öllum öðrum börnum sínum fyrir
erlendis, þar með talið móður
minni. Sá tími var mjög sorglegur
og erfiður þar sem margir af ætt-
ingjum mínum dóu, hurfu og flúðu
land. Það hefur aldrei verið og
mun aldrei verða bætt,“ segir
Danith um grimmileg örlög afa
síns og ömmu og fleiri ættingja.
Föðurafi hennar var Chan Your-
an, hægri hönd Norodoms Sih-
anouks, konungs Kambódíu, og
gegndi stöðu sendiherra landsins.
„Afi minn var skipaður sendiherra
mjög ungur í Senegal. Þar ólst
faðir minn upp. Því er ég komin
úr stjórnmálafjölskyldu bæði í föð-
urætt og móðurætt, af fólki í við-
skiptum, sem tengdist beint at-
vinnulífi Kambódíu og víðar,“
segir hún frá.
Tók lagið fyrir ráðherra
Fyrir valdatöku Rauðu khmer-
anna árið 1975 stundaði móðir
Danithar nám í París, þar sem afi
hennar hafði einnig á yngri árum
setið á skólabekk og áður en hann
var skipaður sendiherra. Youran
starfaði náið með Sihanouk kon-
ungi, hvort tveggja áður en honum
var steypt af stóli um 1979 og eft-
ir að hann tók við konungstign á
ný árið 1993. Afi Danithar fór þá
með stjórn samninganefndar, sem
hafði það hlutverk að semja um
krýningu Sihanouks er hann tók
við landinu öðru sinni.
Árið 1985 heimsótti Sihanouk
Ísland og hefur Danith skemmti-
lega sögu að segja af þeirri heim-
sókn. „Á sínum tíma fór Sihanouk
víða um heim til að berjast fyrir
sjálfstæði þjóðar sinnar og kom af
því tilefni til Íslands í september-
mánuði 1985. Hann tók þá meðal
annars lagið í Ráðherrabústaðnum
fyrir Ragnhildi Helgadóttur, þá
starfandi utanríkisráðherra, en
hún hélt þar veislu honum til heið-
urs. Í móttökunefndinni var meðal
annarra Ólafur Egilsson, sendi-
herra og góður fjölskylduvinur
okkar,“ segir Danith af konungs-
heimsókninni og færir sig yfir í
enn magnaðri frásögn.
Hittust í fyrsta sinn á flótta
„Í kringum mitt ár 1979 voru
fjölmargir Kambódíumenn komnir
í flóttamannabúðir í Taílandi. Árið
1982 var föðurafi minn á ferðalagi
sem sendiherra Kambódíu, þá með
aðsetur í Egyptalandi. Hann var í
Taílandi til að kanna aðstöðu fólks
í flóttamannabúðunum á landa-
mærum Kambódíu og Taílands. Á
þessum tímapunkti vissi hann ekki
að fyrsta barnabarn hans var í
þessum flóttamannabúðum og
þarna hittumst við ásamt móður
minni,“ segir Danith, en raunar
var það þó svo, í ringulreiðinni í
kjölfar innrásar Víetnama nokkr-
um árum fyrr, að afi hennar vissi
ekki enn þá af tilvist hennar yfir-
höfuð. Þau hittust í fyrsta skipti
fyrir tilviljun á flótta.
„Afi vissi ekki að ég væri til
fyrr en 1979, þá hittumst við í
fyrsta sinn í lestinni til Taílands
þegar við vorum að flýja Phnom
Penh. Þá fyrst komst hann að því
að hann væri orðinn afi þegar
hann hitti dóttur sína fyrir hreina
tilviljun í lest á flótta undan Víet-
nömum. Hann dó í fyrra, en rifjaði
þetta augnablik sífellt upp við
mig, hvernig hann gæti ekki
gleymt þessum fyrstu kynnum
okkar í lestinni,“ segir Danith.
Þegar hann svo rakst á barna-
barn sitt á nýjan leik í flótta-
mannabúðum í Taílandi árið 1982
tók hann þá skiljanlegu ákvörðun
að taka Danith með sér þaðan.
„Hann fór þá með mig til Egypta-
lands, foreldrar mínir voru þá
sendir í nám. Frá 1982 elst ég því
upp í Kaíró í Egyptalandi hjá
ömmu og afa,“ segir Danith af
tímanum eftir að hún losnaði úr
flóttamannabúðunum og föðurafi
hennar var orðinn sendiherra í
Egyptalandi.
Sihanouk eins og annar afi
„Þaðan á ég yndislegar minn-
ingar. Árið 2010 heimsótti ég
gamla sendiráðið þar með dætrum
mínum og fjölskyldu. Stuttu síðar
braust þar út borgarastyrjöld, en
það er önnur saga,“ bætir hún við.
Danith fylgdi afa sínum svo til
Peking í Kína þegar hann tók við
stöðu sendiherra þar. Hóf hún þar
nám í sex ára bekk í pakist-
önskum einkaskóla þar sem
kennslan fór fram á ensku. „Frá
1975 til 1985, þegar ég er að byrja
í skólanum, var Sihanouk í útlegð
í Kína, en Kínastjórn, hvort
tveggja Mao Zedong [leiðtogi Kín-
„Afi vissi ekki að ég væri til“
- Fæddist í ógnarríki Rauðu khmeranna í Kambódíu - Fólk þurfti að kasta börnum sínum frá sér í
skóginum - Hitti afa sinn í flóttamannabúðum í Taílandi - Feimnismál að byrja að tala íslenskuna
Víðförul Danith Chan hefur farið víða um ævina síðan hún kom í heiminn í Phnom Penh í valdatíð Pols Pots og Rauðu khmeranna á ofanverðu ári 1978.
20 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 26. ÁGÚST 2021