Morgunblaðið - 18.11.2021, Page 4
4 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 18. NÓVEMBER 2021
ÚRVAL ÚTSÝN HLÍÐASMÁRI 19, 201 KÓPAVOGUR SÍMI 585-4000 INFO@UU.IS
01. - 20. DESEMEBER
VERÐ FRÁ:96.500 KR.
á mann m.v. tvo fullorðna og tvö börn
Verð frá 152.500 kr. á mann m.v. 2 fullorðna
SÓLARFERÐIR
SENDU OKKUR PÓST Á
INFO@UU.IS OG FÁÐU
AÐSTOÐ VIÐ AÐ BÓKA
FRÍIÐ ÞITT
VETRARSÓL Á KANARÍ
BEINT Í SÓL RÉTT FYRIR JÓL
Íslendingar hafa sótt í dásamlegar strendur
Gran Canaria áratugum saman og hefur eyjan
verið einn vinsælasti áfangastaður Úrval
Útsýn í gegnum árin.
Betri stað í sólarfrí er erfitt að finna, fyrir alla.
Stöðugt hitastig, þægilegt loftslag, hreinar
strendur og stórbrotið landslag er eitthvað
sem heillar alla!
FLUG EINGÖNGU
BEINT TIL KANARÍ
49.900 KR.FLUG BÁÐAR LEIÐIR
Mikil þörf er á uppbyggingu við
Seljalandsfoss til að tryggja öryggi
ferðamanna. Þá er bæði þörf á að
byggja upp stígakerfi, útsýnispalla og
handrið en einnig að byggja upp
varnir gegn grjóthruni. Úrbóta er
einnig þörf við fossinn Gljúfrabúa,
sem er skammt frá Seljalandsfossi.
Þetta er meðal þess sem fram kem-
ur í hættumati á ferðamannastöðum í
Rangárþingi eystra. Skýrslan var
unnin af Guðrúnu Guðjónsdóttur,
nema í umhverfisfræðum við Land-
búnaðarháskóla Íslands. Verkefnið
var styrkt af Nýsköpunarsjóði náms-
manna og unnið í samvinnu við sveit-
arfélagið. Fjallað er um Skógafoss,
Seljalandsfoss, Gljúfrabúa, Glugga-
foss og Landeyjasand, en fyrstnefndu
staðirnir eru meðal mest sóttu ferða-
mannastaða á landinu.
Ekki tilkynnt um grjóthrun
Vinsælt er að ganga á bak við
Seljalandsfoss og segir í skýrslunni
að ætla megi að þeir gestir sem gangi
á bak við fossinn geri sér á engan hátt
grein fyrir þeirri hættu sem er á
grjóthruni úr bergveggnum. „Þrátt
fyrir að staðkunnugir hafi vitneskju
um að grjóthrun sé nokkuð algengt
við Seljalandsfoss er það almennt
ekki tilkynnt formlega,“ segir í
skýrslunni.
Meðal tillagna til úrbóta má nefna
skilti sem bendi á hættur, varanlegar
tröppur og bætt aðgengi með betri
göngustígum, útsýnispalla, ábend-
ingar um grjóthrunshættu, reipi eða
keðjur til stuðnings, aðgerðir til að
verja fólk gegn hruni úr bergveggn-
um og að hindra för fólks um efri
brún fossins vegna hættu sem skap-
ast fyrir fólk sem er fyrir neðan.
Síðastliðinn áratug hefur tæplega
20 milljónum verið varið úr Fram-
kvæmdasjóði ferðamanna til upp-
byggingar innviða við Skógafoss.
Þessar framkvæmdir hafa leitt til
þess að dregið hefur verulega úr
hættu þar. aij@mbl.is
Gera sér ekki grein
fyrir hættunni
- Vinsælt að
ganga á bak við
Seljalandsfoss
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Vinsæll Fjöldi ferðamanna skoðar
Seljalandsfoss á hverju ári.
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Suðurland Endurtaka þarf ferli
sameiningar og kjósa aftur.
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Takmarkaður áhugi virðist vera hjá
þeim sveitarstjórnum á Suðurlandi
þar sem íbúarnir samþykktu sam-
einingu í haust að fara í nýjar sam-
einingarkosningar. Frumkvæðið nú
kemur frá sveitarstjórn Skaftár-
hrepps en þar var fyrri sameining-
artillagan samþykkt með yfirgnæf-
andi meirihluta atkvæða. Sveitar-
stjórn Rangárþings ytra er að kanna
vilja íbúa til sameiningar og þá
hvernig sameiningu þeir vilja skoða.
Tillaga um sameiningu fimm sveit-
arfélaga á Suðurlandi var samþykkt
af meirihluta íbúa í fjórum sveitar-
félögum en felld í einu. 75% íbúa
Skaftárhrepps sögðu já og sömuleið-
is 51-52% íbúa Rangárþings ytra,
Rangárþings eystra og Mýrdals-
hrepps. Aftur á móti sögðu 80%
þeirra íbúa Ásahrepps sem þátt tóku
nei.
Þarf nýja umferð
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum
hefði sveitarstjórnunum fjórum þar
sem sameiningartillaga var sam-
þykkt verið heimilt að ákveða sam-
einingu, án Ásahrepps. Allar sveit-
arstjórnirnar höfðu hins vegar lýst
því yfir fyrir atkvæðagreiðsluna að
þær myndu ekki nýta þessa heimild.
Þurfa því nýjar sameiningarviðræð-
ur og eftir atvikum ný atkvæða-
greiðsla að fara fram. Sveitarstjórn
Skaftárhrepps vildi láta reyna á það.
Bjarki Guðnason, oddviti Skaftár-
hrepps, segir að aðalástæðan fyrir
frumkvæði sveitarstjórnarinnar sé
sá afgerandi vilji sem íbúar þar
sýndu til sameiningar. Hins vegar
virðist takmarkaður áhugi hjá hinum
sveitarstjórnunum og telur hann
ólíklegt að gengið verði til nýrra
sameiningarviðræðna í vetur. Stutt
sé til kosninga til sveitarstjórna.
Sveitarstjórn Rangárþings ytra
ákvað að fresta afgreiðslu erindis
Skaftárhrepps á meðan fram færi
könnun á afstöðu íbúa sveitarfé-
lagsins til sameiningar. Spurt verður
hvort íbúar vilji skoða umrædda
sameiningu, sameiningu með Rang-
árþingi eystra eða láta staðar numið
í sameiningarmálum.
Þegar erindi Skaftárhrepps var
tekið fyrir í sveitarstjórn Mýrdals-
hrepps var bókuð sú afstaða að eðli-
legt væri að bíða með frekari við-
ræður að svo stöddu og þess í stað
lögð áhersla á framgang verkefnis-
ins Stafrænt Suðurland. Markmið
þess er að móta eins konar stafrænt
ráðhús og þjónustuver fyrir sveitar-
félögin.
Lítill áhugi á nýjum kosningum
- Enn rætt um sameiningu á Suðurlandi - Sveitarstjórn Mýrdalshrepps hafnar erindi Skaftárhrepps
um nýjar viðræður - Sveitarstjórn Rangárþings ytra kannar vilja íbúa með formlegum hætti
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Hundruð ef ekki þúsundir græn-
lenskra rjúpna komu til landsins í
haust. Greiningar á vængjum
veiddra rjúpna staðfesta þetta, að
sögn Ólafs Karls Nielsen, rjúpnasér-
fræðings og vistfræðings hjá Nátt-
úrufræðistofnun Íslands. Hann hvet-
ur rjúpnaskyttur til að skila öðrum
vængnum af veiddum rjúpum til
Náttúrufræðistofnunar vegna ald-
ursgreininga á íslenskum rjúpum og
eins til að sjá hve víða grænlensku
rjúpurnar fóru.
Rannsakar holdafar rjúpna
Ólafur er nýkominn úr leiðangri í
Þingeyjarsýslur þar sem hann fékk
að láni frá veiðimönnum 207 ný-
veiddar rjúpur og voru þær vigtaðar
og mældar. Tilgangurinn er að meta
holdafar fuglanna samanborið við
fyrri ár. Mögulega eru tengsl á milli
heilbrigðis fuglanna að hausti og
vetraraffalla. Niðurstöður mæling-
anna 2021 liggja ekki fyrir. „Það
voru ágætis fuglar þarna innan um,
stórir og miklir,“ sagði Ólafur. Hann
sagði að í haust hefði frést að rjúpur
sem örugglega voru grænlenskar
hefðu sest á skip norðan við Ísland.
Einnig kom rjúpnahópur til Gríms-
eyjar í lok september. Allir þessir
fuglar voru alhvítir. Grænlenskar
rjúpur verða alhvítar snemma í sept-
ember en þær íslensku í lok október
eða fyrrihluta nóvember.
„Við fundum eina grænlenska
rjúpu í þessu safni sem við skoðuðum
fyrir norðan og var hún skotin í
Öxarfirði. Svo fengum við poka með
vængjum níu fugla sem voru skotnir
í Ólafsfjarðarmúla og þeir voru allir
grænlenskir,“ sagði Ólafur.
Útlitsmunur á rjúpunum
Hægt er að greina grænlenskar
rjúpur frá íslenskum vegna litamun-
ar. Fjaðurstafir handflugfjaðranna
eru mun ljósari á þeim grænlensku
en þeim íslensku. Eins er minna lit-
arefni í fönum flugfjaðra græn-
lensku rjúpnanna en þeirra íslensku.
Grænlenskar rjúpur eru líka með
áberandi stærri vængi en þær ís-
lensku. Þær grænlensku eru auk
þess miklu loðnari um tærnar en ís-
lenskar rjúpur og nöglin ljósari á
þeim grænlensku.
Ólafur segir að grænlenska rjúpan
sé farfugl innan Grænlands og ferð-
ist milli norðurhéraða landsins og
suðurhlutans vor og haust. Væntan-
lega hreki fugla af leið í farfluginu og
komi þeir þannig til Íslands endrum
og sinnum.
Ólafur segir að Finnur heitinn
Guðmundsson fuglafræðingur hafi
leitað að grænlenskum rjúpum í
rjúpnakippum á Vestfjörðum á 7.
áratug síðustu aldar eftir að rjúpur
höfðu sést setjast á skip. Svo virðist
að þegar það gerist nái æði margar
hingað til lands.
Merktar hafa verið um 10.000
rjúpur á Íslandi frá upphafi. Hátt í
2.000 þeirra endurheimtust, allar
hér á landi.
Verndaráætlun í smíðum
Rjúpnaveiðar eru leyfðar 22 daga í
nóvember, það er alla daga nema
miðvikudaga og fimmtudaga og frá
hádegi hvern dag. Nú er ráðlögð
veiði rétt yfir 20.000 fuglar eða 4-5
fuglar á mann miðað við að 4-5 þús-
und veiðimenn gangi til rjúpna.
Umhverfisstofnun vinnur nú í
samvinnu við Náttúrufræðistofnun
Íslands að gerð stjórnunar- og
verndaráætlunar fyrir rjúpur.
Grænlenskar rjúpur komu í haust
Ljósmynd/Ólafur Karl Nielsen
Fullorðinn karri Myndin var tekin á Norðausturlandi í maí í vor.
- Hundruð ef ekki þúsundir rjúpna til landsins - Settust á skip og komu til Grímseyjar - Hafa m.a.
veiðst í Öxarfirði og Ólafsfjarðarmúla - Veiðimenn hvattir til að skila vængjum til að kanna útbreiðslu