Morgunblaðið - 30.12.2021, Qupperneq 31
Embætti ríkislögmanns
laust til umsóknar
Forsætisráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti
ríkislögmanns sem forsætisráðherra skipar í til fimm ára í senn.
Ríkislögmaður fer með rekstur dómsmála fyrir ríkið og stofnanir þess. Er þar einkum um að
ræða vörn einkamála fyrir dómstólum og eftir atvikum gerðardómum. Ríkislögmaður annast
einnig sókn þeirra mála sem ríkið höfðar og uppgjör bótakrafna sem beint er að ríkinu.
Embættið sinnir einnig málflutningi fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og EFTA-dómstólnum. Þá
geta ráðherrar óskað lögfræðilegs álits embættisins um einstök málefni og aðstoðar þess við
vandasama samningagerð. Um embættið fer samkvæmt lögum um ríkislögmann, nr. 51/1985.
Ríkislögmaður ber ábyrgð á að embættið starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli,
að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma embættisins sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir
séu nýttir á árangursríkan hátt. Ríkislögmaður skal fullnægja lagaskilyrðum til skipunar í
dómaraembætti í Hæstarétti og enn fremur hafa réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti.
Leitað er að einstaklingi með yfirgripsmikla og farsæla reynslu af málflutningi, sem hefur
góða samskipta- og leiðtogahæfileika. Reynsla af stjórnun, stefnumótun og rekstri er æskileg.
Í stjórnendastefnu ríkisins kemur fram að stjórnendur þurfi að búa yfir hæfni og þekkingu
til að geta brugðist við og haft frumkvæði að breytingum í samfélaginu og sífellt flóknara
starfsumhverfi. Við ráðningu í embætti ríkislögmanns verður horft til þátta sem skilgreindir
hafa verið í stjórnendastefnunni sem eru heilindi, leiðtogahæfni, árangursmiðuð stjórnun og
samskiptahæfni.
Skipað verður í embættið frá 1. mars 2022. Um laun og önnur kjör ríkislögmanns fer skv. 39. gr.
laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.
Einstaklingar eru hvattir til að sækja um starfið óháð kyni.
Umsóknarfrestur er til og með 15. janúar 2022. Með umsókn skal fylgja ítarleg starfsferilskrá
og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og hvernig viðkomandi
uppfylli hæfniskröfur fyrir starfið. Umsóknir skulu sendar til forsætisráðuneytisins,
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, 101 Reykjavík eða á netfangið for@for.is.
Nánari upplýsingar veitir Bryndís Hlöðversdóttir,
ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu;
bryndis.hlodversdottir@for.is