Bjarmi - 01.10.2018, Side 23
Uppáhalds bibliuversið miii
VILBORG R. SCHRAM
Þegar ég var beðin um að skrifa nokkur
orð um uppáhaldsbiblíuversið mitt, kom
strax ákveðið vers upp í hugann.
Þegar maður hefur gengið með Guði
í áratugi, þá eru óneitanlega mörg vers
sem manni hefur þótt vænt um í gegnum
tíðina og sem hafa talað til manns við
mismunandi kringumstæður, verið til
uppörvunar, hvatningar og huggunar, eftir
því sem maður hefur þurft á að halda
hverju sinni.
En það vers sem kom mér nú í hug er
í Róm. 8.38-39; Því ég er þess fullviss, að
hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki
hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki
kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað
skapað muni geta gert oss viðskila við
kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú
Drottni vorum.
Ástæðan fyrir því að þetta hefur
lengi verið uppáhaldsvers hjá mér er
sú, að móðir mín greindist með alvarlegt
krabbamein þegar hún var 68 ára gömul.
Hún hafði alla tíð verið mjög heilsugóð
og kom þetta því eins og reiðarslag inn í
líf fjölskyldunnar. Læknar gerðu það sem
þeir gátu og höfðu kunnáttu til. Við svona
kringumstæður er gott að eiga góða vini
sem hægt er að leita til með fyrirbænir og
það voru margir sem báðu með okkur
til Guðs, um lækningu fyrir hana. En allt
kom fyrir ekki, mamma dó hálfu ári eftir að
hún greindist með krabbameinið. Á þessu
tímabili varð þetta vers mér mikil huggun.
Ég fann að Guð hafði ekki misst stjórn á
hlutunum, hann var enn sá sami og ég
var örugg í hendi hans. Ég fann líka vel
að bænir vina okkar gerðu lífið léttbærara,
það var eins og þær héldu mér uppi. Eitt
er víst að við munum öll deyja og þá skiptir
mestu máli að eiga frið Guðs í hjarta sínu,
en hann átti mamma mín. En sú fullvissa,
að hvað sem kemur fyrir í lífi okkar, þá
verður ekkert til að gera okkur viðskila við
kærleika Krists, sú fullvissa verður manni
haldreipi. Jesús gefur okkur líka styrk til að
mæta öllum kringumstæðum og kjark til að
halda áfram. Við komumst ekki hjá því að
mæta ýmsu á lífsgöngu okkar, sem reynist
okkur erfitt eða andsnúið. Margir spyrja þá:
Hvers vegna, Guð? Við fáum ekki alltaf
svör við því, hvers vegna erfiðir hlutir henda
okkur og kannski þurfum við ekki alltaf að
fá þau. Við getum einfaldlega treyst því að
allt okkar líf er í hendi Guðs.
Það er ekkert í þessum heimi sem er
þess megnugt að draga úr kærleika Krists
til okkar, ekki hið yfirstandandi né hið
ókomna, engir kraftar né ógnir. Við þurfum
aðeins að treysta Jesú, halda okkur í
nærveru hans og láta Orð hans leiðbeina
okkur. Þess vegna eru þessi vers mér svo
mikils virði. Guð gefi að þau geti einnig
orðið þér til uppörvunar og blessunar.