Iðjuþjálfinn - 2021, Side 8
1. tölublað 20218
almenna reynslu af starfinu. „Langflest verkefni sem við
höfðum eitthvað val um í skólanum gátu tengst dýrunum
hjá mér, dýravinklinum, en svo voru einnig önnur spennandi
rannsóknarverkefni, þannig að hundarnir voru svona aðeins
geymdir til hliðar á meðan ég var í náminu hér,“ rifjar hún upp.
„Ég hef alltaf verið mjög virk í hundasportinu, hef setið mörg
námskeið, alltaf í símenntun þar sem erlendir þjálfarar koma til
landsins og ein þeirra kom á laggirnar þessu námi út í Noregi
á háskólastigi. Þannig ég stefndi alltaf til hennar en vildi fyrst
fá reynslu sem iðjuþjálfi, þannig ég beið með það og réð mig á
Landspítalann, á BUGL, þegar við flytjum suður og langaði að fá
reynsluna af því að vera iðjuþjálfi án þess að mæta nýútskrifuð
og með hund líka. Þannig ég beið með framhaldsnámið, náði
mér í reynslu og skráði mig svo í námið í Noregi árið 2017“.
Einstakt nám í Noregi
Lina Sandsted er norskur hundaþjálfari og er í forsvari
fyrir stofnun í Noregi sem heitir International Center for
Antrozoology. Þangað fór Gunnhildur í framhaldsnámið. „Þetta
er stofnun sem er í samvinnu við
Landbúnaðarháskólann í Noregi
og hefur komið af stað þessu námi
á háskólastigi fyrir fagfólk til að
styðjast við dýr í meðferðum á hátt
sem að stuðlar að betri framförum
og ávinningi hennar. Þá er þetta
þannig að það er grunnnám í lotum.
Þar er skoðað hvernig styðjast
má við dýr eða náttúruna. Unnið
er með kenningu sem þeir nefna
Biofilia, það er sterkt í okkur að við
sækjum í náttúruna, sérstaklega
eftir því sem við eldumst, kjarninn
vill tengjast aftur í grunninn,“
bendir Gunnhildur á.
Samskipti við dýr skipa þar vitanlega stóran sess. „Við höfum
áhuga á dýrum, okkur finnst gaman að tala um þau, klappa
þeim og eiga í samskiptum við þau. Rannsóknir hafa sýnt fram
á að gæludýr geta verið mikilvæg heilsu fólks og lífsgæða.
Þau hafa jákvæð lífeðlisfræðileg áhrif á manninn og eru hvati í
leik og starfi. Þau geta ýtt undir samskipti, haft jákvæð áhrif á
sjálfsálit og ýtt undir samkennd og umhyggju. Á þessu byggist
grunnnámið, það er rosalega gagnlegt og farið um víðan völl, af
hverju unnið er með þessum hætti, öryggismál og hollustuhætti
og slíkt. Eftir þetta getur þú valið hvort þú tekur hundalínuna,
hestalínuna eða sveitabæjarlínuna, þá ertu að nota sveitaverkin
í íhlutun. Ég valdi hundalínuna, þannig að eina önn kláraði
ég grunninn og svo sérhæfði ég mig í hundum. Þar er nánar
farið í öryggis- og hollustuhætti, velferð dýra og hvernig þú
skipuleggur íhlutunina, þjálfunaraðferðir, námskenningar,
hvernig þú þjálfar dýr eftir viðurkenndum leiðum. Það fór ég í
og þetta er ótrúlega fjölbreytt,“ segir hún.
Þjónustuhundurinn Skotta fékk víðtæka þjálfun
Hundinn Skottu eignaðist Gunnhildur í Eyjafirðinum. „Skotta
er fædd hér á Íslandi, ég vel hana úr 12 hvolpa goti hér á landi.
Hún er semsagt minn þriðji hundur. Hún er 5 ára, hún er frá
sveitabæ hinum megin við þar sem ég bjó fyrir norðan, hinum
megin í firðinum. Ég valdi hana úr gotinu og var með ákveðna
eiginleika í huga varðandi skapgerð. Ég var að leita að hundi sem
var ekki feiminn, var félagslyndur og áhugasamur um umhverfi
sitt, gat tekist á við eitthvað nýtt.
Svo nýtti ég fyrsta árið í að byggja
upp samband milli mín og hennar.
Ég byrjaði ekki á því að taka hana
heim og kenna henni að setjast
eða leggjast, hún lærði það ekkert
fyrstu mánuðina. Ég var ekki með
hana í göngutúrum í hverfinu mínu
fyrsta árið. Ég var með hana heima
og við vorum mikið út í garði og úti
í náttúrunni. Þannig þú vinnur með
traustæfingar og tengsl, svolítið
eins og þegar við vinnum með
börnin okkar,“ lýsir Gunnhildur.
Þjálfun Skottu fór víða fram.
„Svo þegar hún var orðin eins
árs tók hún þátt á öllum hundasýningum því það er góð
umhverfisþjálfun í að vera í kringum aðra hunda í taum og ekki
fá að hitta þá. Þannig að fyrsta árið var svona umhverfisþjálfun.
Hún fékk ekki að hitta ókunnuga hunda, var ekki látin vera ein
í kringum krakka og maður vandaði sig til að ýta undir þessa
öruggu tík sem maður átti,“ heldur Gunnhildur áfram.