Iðjuþjálfinn - 2021, Blaðsíða 20

Iðjuþjálfinn - 2021, Blaðsíða 20
1. tölublað 202120 því að gera okkur kleift að útbúa tilgátur eða eyðileggjandi með því að ramma inn rangar fullyrðingar á þann hátt að þær virðist sannar (Patten, 2015). Sífellt fleiri ritrýndar greinar skora á ráðandi ofurtrú á verkun og réttmæti geðlyfja, hvort heldur sem litið er til megindlegra rannsókna eða eigindlegra gagna frá einstaklingum með persónulega reynslu af notkun geðlyfja (Cipriani o.fl., 2016; Le Noury o.fl., 2015; Tyrer og Kendall, 2009; Wunderink o.fl., 2014). Höfundur þessarar greinar vill ítreka að hér er engan veginn verið að gera lítið úr þjáningunni sem fólk upplifir né heldur að einhverjum einstaklingum geti hentað að taka lyf, í mismiklu magni og í mislangan tíma. Geðlyf geta verið einn af mörgum valmöguleikum sem standa fólki til boða, en þá þurfa ýmsir kostir að vera boðnir og upplýst samþykki og upplýsingagjöf til staðar. Upplýst samþykki, aukaverkanir og óafturkræfur skaði Upplýst samþykki í geðheilbrigðisþjónustu ætti að fylgja sömu grundvallarreglum og upplýsingagjöf tengd annarri heilbrigðisþjónustu. Fagfólkinu ber að veita allar nauðsynlegar upplýsingar svo að einstaklingurinn geti sjálfur tekið upplýsta ákvörðun um næstu skref og valið milli ólíkra aðferða. Þessi skýlausa krafa gerir það að verkum að fagfólk þarf að sleppa tökum á lífi einstaklingsins og leggja forræðishyggju á hilluna. Fagfólki ber að upplýsa viðkomandi um alla mögulega fylgikvilla meðferðarinnar og viðurkenna að henni geti fylgt hætta. Upplýst samþykki í geðheilbrigðismálum varðar siðferði fagfólks rétt eins og í annarri meðferð (Blease o.fl., 2016). Upplýsingarnar sem fagaðilum ber að veita eru meðal annars um þróun lyfsins, verkan þess, algengar aukaverkanir og alvarleg atvik sem gætu komið upp við notkun lyfsins (Kavanagh o.fl., 2017). Einstaklingar bregðast á afar ólíkan hátt við geðlyfjum og þola þau misvel, áhrif lyfjanna geta breyst ef fleiri en eitt lyf er tekið í einu og alvarlegustu áhrif geðlyfjanotkunar geta skilið einstaklinginn eftir með óafturkræfa skerðingu eða jafnvel dregið viðkomandi til dauða (Gardner, 2014). Kerfisbundin greining á rúmlega 400 ritrýndum fræðigreinum leiddi í ljós að einstaklingar sem höfðu uppfyllt greiningarskilmála fyrir einhvers konar „geðsjúkdóm“ höfðu umtalsvert skemmri lífslíkur en jafnaldrar þeirra. Ekki er vitað af hverju þetta stafar en reikna má með að einstaklingur með greiningu á „geðsjúkdómi“ lifi 10-20 árum skemur en ella (Chesney o.fl., 2014). Greinarhöfundur veltir fyrir sér hvort ráðandi starfshættir og notkun geðlyfja eigi þátt í þessum skertu lífslíkum og hvort við sem samfélag séum sátt við að taka þá áhættu, ef svo er. Til að veita upplýst samþykki varðandi geðlyfjanotkun þarf að vera búið að ræða við hvaða einkennum lyfið kann að vera hjálplegt, hvernig það virkar, hvernig ætti að taka það og algengar aukaverkanir lyfsins (Kavanagh o.fl., 2017). Eigindleg rannsókn Morrison o.fl. (2015) dró fram raunveruleika einstaklinga sem höfðu kosið að lifa með aukaverkunum af geðlyfjanotkun sinni. Algengast var að einstaklingarnir fyndu fyrir doða og liði eins og uppvakningum. Önnur dæmi um aukaverkanir þátttakendanna voru meðal annars ósjálfráðar hreyfingar, eirðarleysi, munnþurrkur, aukin líkamsþyngd, óskýr sjón, erfiðleikar með einbeitingu, læstur kjálki, stífleiki í vöðvum, ógleði, hægðatregða, minnistruflanir, getuleysi og málmbragð í munni. Hver og einn þátttakandi í rannsókninni fann fyrir að meðaltali um sex til sjö aukaverkunum sem gjarnan voru umtalsverðar og höfðu truflandi áhrif á líf þeirra. Algengasta bjargráð einstaklinganna til að takast á við aukaverkanir lyfjanna var að breyta lyfjaskammtinum, nota önnur lyf til að meðhöndla aukaverkanirnar og dreifa huganum með ýmiss konar slökunaraðferðum. Fylgifiskar geðlyfjanotkunar geta jafnvel verið til staðar löngu eftir að lyfjanotkuninni lýkur. Ný sjúkdómsgreining hefur litið dagsins ljós og felur í sér kyndeyfð af völdum þunglyndislyfja sem varir þrátt fyrir að geðlyfjanotkun sé hætt (e. post-SSRI sexual dysfunction). Slík tilfelli voru til að mynda rannsökuð í 37 löndum og áttu þau sameiginleg einkenni um kynfæradoða, veikar fullnægingar, skort á kynhvöt og getuleysi. Einkennin setja aukið álag á ástarsambönd einstaklinganna og minnka lífsgæði (Healy o.fl., 2018). Vel þekkt er að langtímanotkun geðrofslyfja getur orsakað alvarlegan og stundum óaftur- kræfan taugasjúkdóm (e. tardive dyskinesia) sem felst í ósjálfráðum taugakippum um líkamann allan (Lanning o.fl., 2016). Svo virðist sem langvarandi notkun þunglyndislyfja geti í raun ýtt undir og viðhaldið þunglyndi hjá sumum einstaklingum (e. tardive dysphoria), þvert á tilgang lyfsins. Þessi óheppilegu áhrif þunglyndislyfjanna geta aukið upplifun einstaklingsins af þunglyndi, varað þrátt fyrir að viðkomandi hætti að taka geðlyfin og eru mögulega óafturkræfur skaði (El-Mallakh o.fl., 2011).

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.