Iðjuþjálfinn - 2021, Side 23
1. tölublað 202123
Í lok árs 2020 voru gerðar skipulagsbreytingar innanhúss
í Skógarlundi. Þær urðu í kjölfar ráðningar á nýjum
forstöðumanni, Ragnheiði Júlíusdóttur. Ragnheiður er
þroskaþjálfi og kynntist hugmyndafræði TEACCH snemma á
sínum starfsferli. Hún hefur brennandi áhuga á óhefðbundnum
tjáskiptaleiðum og þeim mannréttindum að geta tjáð sig.
Hennar fyrsta verk var því að koma inn myndrænu skipulagi
til að efla boðskipti, auka sjálfstæði og koma í veg fyrir kvíða
og óöryggi þeirra sem hingað koma. Mikil vinna hefur farið í að
kynna breytta starfsemi og er þessi grein liður í því.
Skógarlundur er staðsettur á Akureyri. Þar er boðið upp á
þjónustu fyrir fatlaða einstaklinga 20 ára og eldri. Hún er í
formi virkni og hæfingar, samkvæmt lögum um málefni fatlaðs
fólks (nr. 59/1992). Eins og er sækja tæplega 50 einstaklingar
þjónustu í Skógarlund þar sem boðið er upp á virkni og
hæfingu hálfan daginn, annaðhvort fyrir eða eftir hádegi.
Þeir einstaklingar sem hingað koma hafa allir gengist undir
færnimat varðandi vinnugetu sem gert er af iðjuþjálfa á vegum
Akureyrarbæjar. Til að sækja um þjónustu í Skógarlundi þarf
vinnugetan að vera undir 30%.
Í Skógarlundi eru 16 stöðugildi en þar starfa iðjuþjálfar,
þroskaþjálfar, íþróttafræðingur, félagsliðar og almennir
starfsmenn með ólíkan bakgrunn. Hlutverk starfsfólks er að
veita stuðning, leiðsögn, umönnun og aðstoð við ýmsa iðju.
Þarfir og færni hvers og eins eru ólíkar og því þarf að aðlaga
umhverfið og verkefnin eftir því. Mikilvægt er að einstaklingar
sem sækja þjónustu í Skógarlund upplifi öruggi og líði vel.
Með því að bjóða upp á fjölbreytt tækifæri til upplifunar og
hæfingar náum við að stuðla að meiri virkni og áhuga.
Skógarlundur,
miðstöð virkni og hæfingar
Markmið Skógarlundar eru:
• Að einstaklingar upplifi öryggi og vellíðan
• Að efla alhliða þroska og sjálfstæði
• Að viðhalda og auka færni til að takast á við athafnir
daglegs lífs
• Að bjóða upp á fjölbreytt tækifæri til hæfingar og virkni
fyrir alla
• Að efla möguleika á tjáskiptum með öllum mögulegum
boðskiptaleiðum
Skógarlundur tilheyrir Velferðarsviði Akureyrarbæjar og lagt
er upp með að öll þjónusta á þeirra vegum vinni eftir hug-
myndafræði valdeflingar og þjónandi leiðsagnar. Skógar-
lundur nýtir óhefðbundnar tjáskiptaleiðir líkt og tákn með
tali. Einnig er unnið eftir hugmyndafræði TEACCH sem er
skammstöfun fyrir meðferð og kennslu barna með einhverfu
og skyldar boðskiptatruflanir (e. Treatment and Education of
Autistic and related Communications Handicapped Children).
Valdefling
Hugmyndafræði valdeflingar styrkir og eflir getu einstaklinga
til sjálfstæðs lífs. Lögð er áhersla á að einstaklingar taki stjórn
á eigin lífi, efli sjálfmynd sína og sjálftraust, taki sjálfstæðar
ákvarðanir og þekki sín réttindi til að öðlast þau lífsgæði
sem þeir eiga rétt á. Mikilvægt er að einstaklingar séu virkir
þátttakendur í sínu eigin lífi. Þessi nálgun hentar því vel þegar
kemur að þjónustu með fötluðu fólki þar sem nærvera þeirra,
þekking og reynsla er nýtt sem auðlind (Akureyrarbær, 2021).
Þjónandi leiðsögn
Hugmyndafræði þjónandi leiðsagnar hefur verið þungamiðja
allrar þjónustu sem Akureyrarbær veitir einstaklingum með
fötlun (Akureyrarbær, 2017). Grunnstoðir þjónandi leiðsagnar
eru fjórar. Fyrsta grunnstoðin er að upplifa öryggi, þ.e. að
einstaklingurinn upplifi sig öruggan í návist starfsmanna og
í umhverfinu. Næsta grunnstoð felur í sér að starfsmenn gefi
Helga Sif Pétursdóttir,
iðjuþjálfi í Skógarlundi, miðstöð virkni og hæfingar
Sigríður Ingibjörg Stefánsdóttir,
iðjuþjálfi í Skógarlundi, miðstöð virkni og hæfingar,
meistaranemi í hnattrænum fræðum við Háskóla Íslands