Iðjuþjálfinn - 2021, Blaðsíða 31

Iðjuþjálfinn - 2021, Blaðsíða 31
1. tölublað 202131 Fjölmargir einstaklingar koma inn á Landakot til meðferðar og greiningar vegna jafnvægisvandamála enda er óstöð- ugleiki og byltur mjög algengt vandamál hjá öldruðum. Þriðji hver einstaklingur 65 ára og eldri dettur einu sinni eða oftar á ári. Hætta á byltum eykst enn frekar með hækkandi aldri. Fólk sem hefur dottið er oft hrætt við að detta aftur og hreyfir sig því minna. Smám saman minnkar líkamleg geta og um leið verður einstaklingurinn enn óstöðugri. Áverkar og brot í kjölfar byltna, sérstaklega mjaðmarbrot, valda oft miklum breytingum á lífi einstaklinga, skerða lífsgæði og hafa áhrif á athafnir daglegs lífs. Bylta er skilgreind sem atburður þar sem einstaklingur fellur óviljandi niður á gólf, jörð eða annan lágan flöt. Byltur geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga og þeim fylgir gríðarlegur kostnaður. Óraunhæft er að ætla að hægt sé að koma í veg fyrir allar byltur en erlendar rannsóknir sýna að með markvissum aðgerðum er hægt að fækka þeim umtals- vert og þar með draga úr þjáningum sjúklinga og kostnaði þeim samfara. Á Landakoti er starfrækt sérhæfð móttaka fyrir aldraða einstaklinga með sögu um jafnvægisskerðingu, byltur og/ eða beinbrot. Nefnist hún byltu- og beinverndar móttaka og var stofnuð árið 2001. Markmið hennar er að greina orsök og áhættuþætti byltna og finna úrræði sem draga úr eða koma í veg fyrir byltur. Við deildina starfar þverfaglegt teymi; öldrunarlæknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar. Beiðnir til móttökunnar berast frá frá slysa- og bráðamóttöku LSH, heimilislæknum og öðrum sérfræðingum. Orsakir og áhættuþættir byltna Áhættuþættir byltna eru margir og oft samverkandi. Gjarnan er talað um innri og ytri þætti sem valda byltum. Með innri Iðjuþjálfun í byltu- og beinverndarmóttöku þáttum er átt við atriði sem varða sjúklinginn sjálfan, með ytri þáttum er átt við umhverfis- og atferlisþætti. Eftir því sem fleiri áhættuþættir eru fyrir hendi því meiri verður byltuhættan. Meðal áhættuþátta má nefna sögu um fyrri byltur, óráð, hræðslu við byltur, jafnvægistruflun, minnkaðan vöðvastyrk, göngulagstruflun, réttstöðublóðþrýstingsfall, áfengi og lyf, vannæringu og of litla vökvainntöku, þvagleka, sjónskerðingu, hjarta- og geðlyf, hættur í umhverfi og skort á notkun stuðnings- og hjálpartækja. Iðjuþjálfun Iðjuþjálfi veitir ráðgjöf um byltuvarnir og aðlögun á umhverfi með tilliti til byltuvarna. Farið er í heimilisathugun ef þörf er á til að kanna hvernig einstaklingurinn tengist umhverfi sínu og iðju og öryggi metið. Hjálpartæki til varnar byltum eru pöntuð og leiðbeint um notkun þeirra. Öryggishnappur, handfang á rúm, salernishækkun og baðbretti/sturtustóll eru helstu hjálpartækin og síðan er mikilvægt að fjarlægja mottur og gera gangveg greiðan fyrir gönguhjálpartæki. Mikilvægt er að engin bleyta sé á gólfi eða jafnvel smáir hlutir sem hægt er að detta um. Góð lýsing þarf að vera á heimilinu og næturljós sem lýsa leiðina á baðherbergi er kostur. Byltur orsakast líka af því að fólk er að flýta sér að svara dyrabjöllu eða svara síma og einnig eru byltur úr tröppum sem stigið er á til að ná í hluti úr efri skápum þónokkrar. Mikilvægt er að standa rólega á fætur, en það á sérstaklega við um þá sem eiga á hættu að fá blóðþrýstingsfall eða svima og alltaf gott að hafa eitthvað til að styðjast við, bæði við rúm og eins stóla. Langflestir sem koma í byltu- og beinverndarmóttöku eru með gönguhjálpartæki og aðgengi að heimili þarf að vera gott. Best er ef gengið er beint inn af götu og rafdrifnar útihurðir til staðar því erfitt getur verið að koma göngugrindinni inn fyrir þungar útihurðir. Kristín Kristjánsdóttir, iðjuþjálfi Landspítala, Landakoti

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.