Iðjuþjálfinn - 2021, Qupperneq 5
1. tölublað 20215
Norrænn formannafundur er haldinn árlega þar sem formenn
og varaformenn iðjuþjálfafélaga á Norðurlöndum hittast.
Fundurinn var 11. október og rafrænn á TEAMS. Danir höfðu
veg og vanda að undirbúningi og framkvæmd annað árið í röð.
Það er alltaf jafn áhugavert að upplifa hversu mikill samhljómur
er í þeim málefnum sem iðjuþjálfar á Norðurlöndunum setja
á oddinn. Má þar nefna aðgengi fólks að þjónustu iðjuþjálfa,
öldrunarmál, endurhæfingu og geðheilbrigðismál.
Á formannafundinum voru fyrstu niðurstöður danskrar rann-
sóknar á heilsu og líðan þeirra sem glíma við eftirstöðvar
COVID kynntar, en Danir fylgja þessum hópi eftir með mark-
vissri endurhæfingu og eftirfylgd á landsvísu. Mikill meirihluti
skjólstæðinga nýtur þjónustu iðjuþjálfa í endurhæfingarferlinu.
Fram kom að yfir 80% þeirra sem glíma við hamlandi eftirköst
COVID sýkingar eru menntaðar konur með lítil börn. Þetta
vekur upp spurningar um það hvort álagsþættir í lífsaðstæðum
kvenna séu almennt fleiri en hjá körlum og að þær nái því síður
heilsu eftir veikindi. Mig grunar að þessar niðurstöður rími við
aðrar rannsóknir sem sýna að afleiðingar heimsfaraldursins
hafa bitnað mun verr á konum en körlum.
SJOT með hæsta skor
Ársfundur SJOT (Scandinavian Journal of Occupational
Therapy) fór einnig fram í október. Fram kom á fundinum að
SJOT er með „Impact Factor“ upp á 2,611 stig og er það mesti
stigafjöldi fyrir ritrýnd fagblöð um iðjuþjálfun á heimsvísu.
Niðurhal efnis sem birst hefur í SJOT jókst um 40% á síðasta ári.
Einstaklingar frá Ástralíu og Bandaríkjunum hlaða mest niður.
Sem stendur er um 20% af efni SJOT opið og gjaldfrjálst. Ráðgert
er að ritið verði alfarið með opinn aðgang innan skamms og
umbreytingaferlið er langt komið. SJOT verður fyrsta fræðiritið
innan iðjuþjálfunarfagsins sem innleiðir opinn aðgang fyrir
lesendur. Á fundinum kom einnig fram að fjölmargar greinar bíða
birtingar og er það fagnaðarefni hversu eftirsótt það er að birta
efni í SJOT. Fulltrúi Íslands í ritstjórn SJOT er Björg Þórðardóttir
og í ritnefnd eiga sæti þær Snæfríður Þóra Egilson og Guðrún
Árnadóttir iðjuþjálfar ásamt öðru fræðafólki á alþjóðavísu. Við
þökkum þeim kærlega fyrir þeirra framlag.
Fyrsta útskrift úr nýrri námsleið
Í júní síðastliðnum útskrifuðust 10 kandídatar með viðbót-
ardiplóma á meistarastigi til starfsréttinda í iðjuþjálfun og er
það fyrsti hópurinn sem lýkur slíku námi frá Háskólanum á
Akureyri. Það er sannarlega gleðilegt að fá öflugan liðsauka
í félagið og við óskum þeim hjartanlega til hamingju með
áfangann. Geta má þess að það var einmitt í júní 2001 eða
fyrir 20 árum að fyrstu kandídatarnir brautskráðust sem iðju-
þjálfar. Þótt háskólahátíðin væri að mestu rafræn þá var hún
afar hátíðleg og hlýða mátti á mörg áhugaverð erindi. Fram
kom meðal annars hversu mikilvægt það er að stefna að starfi
sem gefur gleði og lífsfyllingu. Kandídatar voru hvattir til þess
að setja markið hátt og vera glöð í vinnunni. Andrea Björt
Ólafsdóttir hlaut viðurkenningu frá IÞÍ fyrir hæstu einkunn í
starfsréttindanáminu og Sigfríður Arna Pálmarsdóttir hlaut
viðurkenningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, Kristnesi fyrir
hæstu meðaleinkunn í iðjuþjálfun í grunnnáminu.
Er ekki best að taka nema?
Mikil eftirspurn er eftir starfskröftum iðjuþjálfa hér á landi líkt
og í öðrum löndum. Heilbrigðisþing 2020 fjallaði um mönnun
og menntun heilbrigðisstétta. Þar kom fram að skortur er á
iðjuþjálfum og því talið brýnt að mennta fleiri á næstu árum
og áratugum. Góðu fréttirnar eru að fjöldi þeirra sem skráir
sig í nám í iðjuþjálfun við HA hefur aukist verulega síðastliðin
þrjú ár. Á árlegum starfsþróunardegi kennara við námsbraut
í iðjuþjálfun og stjórnar IÞÍ, sem haldinn var fyrr í haust kom
fram að plássum í vettvangsnámi hefur ekki fjölgað að ráði frá
upphafsárum námsbrautarinnar. Erfitt er að fá námspláss fyrir
alla nemendur og ljóst að gera þarf átak í þeim efnum. Vakin
var athygli á því að leiðbeinendur fá aðgang að námsefni þar
á meðal ýmis konar matstækjum sem gagnast geta þeim og
vinnustaðnum. Það má því segja að með því að taka að sér
nema fái iðjuþjálfar gott sí- og endurmenntunartækifæri upp í
hendurnar og ferlið sé ávinningur fyrir báða aðila. Ég vil hvetja
starfandi iðjuþjálfa til þess að gerast vettvangsleiðbeinendur
og taka að sér nema eins oft og kostur er. Við verðum að taka
höndum saman og fjölga nemaplássum til muna!