Iðjuþjálfinn - 2021, Blaðsíða 10
1. tölublað 202110
Ferlið heldur áfram, bæði hjá Skottu og Gunnhildi og áhugi hefur
kviknað víða. „Ég er náttúrulega sjálf að læra, við byrjuðum
haustið 2020 að vinna saman og þetta er búið að vera þvílíkur
lærdómur hjá okkur. Ég er enn að sjá eitthvað nýtt og held því
örugglega áfram. Ég vissi að þetta myndi vekja áhuga en það
er búið að vera virkilega mikill áhugi á þessu. Það er svo gaman
þegar aðrir eru með áhuga á því sem maður er með áhuga á.
Kannski er gott að sýna vinnuna sem er á bak við þetta, þá gerir
fólk sér kannski grein fyrir alvörunni þegar það fer að pæla í
þessu eða lætur verða af þessu.“
Varfærin skref tekin
í viðtölum
„Skotta er ekki viðstödd fyrsta
viðtalið en ég læt vita að það sé
hundur reglulega í þessu húsnæði
og spyr hvort það sé einhver
hindrun. Það hefur ekki komið
upp ótti eða bráðaofnæmi, enda
slíkt mjög sjaldgæft ofnæmi,“ lýsir
Gunnhildur.
Hún safnar upplýsingum í upphafi
og byrjar að kortleggja næstu
skref. „Hver er iðjuvandinn, og á
meðan hugsa ég hvort að Skotta
gæti komið að gagni. Þegar það er
komið á hreint hvað skal vinna að
og ef ég sé not af henni, þá ber ég
það undir foreldra. Þá upplýsi ég
um mína menntun og að hún hafi staðist skapgerðarmat, sé
prófuð og vottuð og sérþjálfuð í þetta verkefni og hvort þau
séu opin fyrir því að við myndum vinna með henni og hvort
þau telji að það muni gagnast.“
Gunnhildur nýtir sér fimm hundareglur varðandi samskipti
barnanna og Skottu. „Þegar barnið kemur til mín þá er Skotta
þarna, hún liggur á sinni mottu, er bara kyrr þar og þau krakkarnir
geta virt hana fyrir sér og ég segi þeim frá henni og sýni þeim
það sem snýr að henni og svo spyr ég hvort þau vilji að hún
verði með. Þá förum við yfir hundareglur sem eru einskonar
umgengnisreglur og þau skrifa undir samstarfssamning um að
þau ætli að fylgja þessum reglum. Þar stendur að ef hún er á
mottunni eða er sofandi þá má ekki trufla hana, að hún sé lifandi
vera en ekki dót þannig það þarf að koma fram við hana af
virðingu. Það má klappa henni og leika við hana, en það þurfi að
spyrja Gunnhildi um leyfi fyrst,“ útskýrir hún.
Skotta er ekki með öllum börnum, enda hitti ég ekki öll börn
í húsnæði Æfingastöðvarinnar heldur fer til þeirra í þeirra
umhverfi. En hjá þeim börnum sem ég hef boðið hennar
nærveru þá hafa þau öll hafa viljað hafa hana með. „Öll vilja
það, hingað til er enginn sem hefur ekki viljað hafa hana
inni. Nokkur sýna henni mjög lítinn áhuga en þau eru svo
umburðarlynd að hún má liggja og sofa. Stundum kannski
kíkja þau á eða hún kannski stendur upp og hristir sig og þeim
finnst það dálítið fyndið. Hún er bara þarna og skiptir ekki
máli. Stundum vilja þau kannski
ekki endilega klappa henni en vilja
koma og fá að sjá hana, þannig
þau sýna henni meiri áhuga en
ekki mikil samskipti og benda
kannski á að nefið sé blautt, þetta
er loðið, það er sjampólykt af
henni og það getur líka gefið mér
dýrmætar upplýsingar.“
Aðspurð um hvort Gunnhildur
viti til þess að fleiri iðjuþjálfar séu
með dýr í vinnunni segir hún svo
vera, en líklega engan sem hefur
gengið í gegnum þetta formlega
ferli eins og þær. „Meirihluti hunda
eru frábærir en alls ekki allir henta
í þetta verkefni. Það kom mér hvað mest á óvart í náminu er
að með því að setja hund í nærveru ókunnugrar manneskju er
eitt af því mest streituvaldandi sem hundur upplifir. Því er mjög
mikilvægt að hann hafi hlotið góðan grunn og það sé vitað að
hann hafi eiginleika til að takast á við verkefnið, að fá einhvern
annan til að votta hana því maður er ekki alltaf dómbær á dýrin
sín eða börnin sín. Svo þarf stjórnandinn að búa yfir þekkingu
í að lesa hundinn og skapa honum aðstæður sem hann ræður
við,“ útskýrir hún.
En með þessum undirbúningi og sérþjálfun þá get ég/hún veitt
skipulagða og markvissa íhlutun og athyglin mín er á barninu