Læknablaðið - 01.04.2022, Síða 19
L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 183
R A N N S Ó K N
annarra sjúkdóma og sér ekki enn fyrir endann á því. Markmið
viðbragðanna hérlendis hefur verið að lágmarka skaða vegna
farsóttarinnar en á sama tíma að leitast við að gæta meðalhófs
í takmörkunum með hliðsjón af stöðu faraldursins hverju sinni
(mynd 1). Sýkingar geta haft ýmsar ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
Þannig helst árstíðasveifla inflúensu í hendur við árstíðasveiflu
lungnabólgu, bráðs hjartadreps og heilaáfalla.4 Nýlegri rann-
sóknir hafa sýnt að staðfest sýking með inflúensu og sumum
öðrum öndunarfæraveirum eykur verulega hættu á bráðu hjarta-
drepi og heilaáföllum og er sú hætta mest fyrst eftir greiningu
smits.5,6 Jafnframt hefur verið sýnt fram á að bólusetning gegn
inflúensu getur dregið úr hættu á bráðu hjartadrepi um 36% í
há-áhættusjúklingum.7,8
Markmið þessarar rannsóknar var að skoða áhrif heimsfar-
aldurs COVID-19 árið 2020 og viðbragða vegna hans á greiningar
hjartadreps og sýkinga með mismunandi meingerð og smitleið-
ir. Í þessu skyni voru rannsakaðar greiningar og nýgengistölur
lungnabólgu og blóðsýkingar af völdum gram-neikvæðra Enter
obacterales-tegunda. Þá var fjöldi greiningarrannsókna á inflúensu,
HIV og klamydíu árið 2020 borinn saman á landsvísu við árin
2016-2019.
Efni og aðferðir
Skilgreining þýðis, sjúkdómsgreiningar og leyfi
Rannsóknin var afturskyggn. Viðföng voru allir 18 ára og eldri
sem lögðust inn á Landspítala árabilið 2016-2020 og voru sjúk-
dómsgreindir með lungnabólgu, brátt hjartadrep eða COVID-19.
Kennitölur þeirra sem uppfylltu skilyrði rannsóknarinnar voru
fengnar úr sjúkraskrárkerfi Landspítala af kerfisfræðingi. ICD-
10 (International Classification of Diseases, eða alþjóðleg flokkun
sjúkdóma) kóðar fyrir lungnabólgu (J12-J18), COVID-19 (U07.1) og
brátt hjartadrep (I21.0-I21.9) voru notaðir. Upplýsingar um fjölda
og ábendingar hjartaþræðinga á árunum 2016-2020 voru fengn-
ar úr SCAAR (The Swedish Coronary Angiography and Angi-
oplasty Registry) gagnagrunninum frá hjartadeild Landspítala.
Rannsóknin var samþykkt af siðanefnd heilbrigðisrannsókna á
Landspítala (1/2021).
Sýklafræðilegar greiningar
Fengin voru ópersónugreinanleg gögn frá sýkla- og veirufræði-
deild Landspítala um fjölda sýna sem tekin voru á árunum 2016-
2020 og send til greiningar á Chlamydia trachomatis, HIV og in-
flúensu, ásamt fjölda jákvæðra sýna fyrir sama tímabil. Einnig
fengust persónugreinanleg gögn um fjölda jákvæðra blóðrækt-
anna af völdum Enterobacterales-tegunda (E. coli, Klebsiella spp. og
skyldar tegundir). Þá fengust upplýsingar frá rannsóknastofunni
Sameind um fjölda HIV-prófa á sama tíma. Chlamydia trachomatis
sýni sem tekin voru frá augum, endaþarmi og hálsi voru tekin út
úr gagnasafni, en yfirleitt er um aukasýni að ræða og því hætta á
tvítalningu ef þau hefðu verið talin með.
Tölfræði
Gögnin voru unnin í tölvuforritinu Excel og tölfræðiforritinu
Rstudio ásamt myndum og töflum. Aldursstaðlað nýgengishlut-
fall og 95% öryggisbil var reiknað í tölfræðiforritinu Rstudio.
Fengnar voru mannfjöldatölur frá Hagstofu Íslands fyrir árin
2016-2020. Þýðinu var skipt í aldurshópa með 5 ára millibili, fyrir
utan yngsta aldurshópinn sem náði yfir einstaklinga 18-19 ára. Við
aldursstöðlunina var notuð óbein stöðlun, en meðaltöl mannfjölda
í hverjum aldurshópi voru reiknuð fyrir árin 2016-2019 og meðaltal
nýgengis þessara ára var einnig reiknað. Staðlað nýgengishlutfall
(standardized incidence ratio, SIR) hvers sjúkdóms árið 2020 var
því reiknað miðað við óbeinu stöðlunina fyrir árin 2016-2019.
Myndrænn samanburður var auk þess gerður á aldursbundnu
nýgengi sjúkdóma rannsóknarinnar árið 2020 við meðaltöl áranna
2016-2019, reiknað sem tilfelli á 1000 íbúa innan hvers aldurshóps
fyrir sig. Við útreikninga á aldursstöðluðu nýgengishlutfalli bráðra
hjartaþræðinga var miðað við sama nýgengi í hverjum aldurshópi
og í innlögnum vegna bráðs hjartadreps. Var þetta gert vegna
þess að tölur yfir kransæðaþræðingar voru ópersónugreinanlegar
en gert var ráð fyrir svipaðri aldursdreifingu og í innlagnatölum
bráðs hjartadreps. Notað var tilgátupróf fyrir tvö hlutföll, eða
„Two-proportions Z-test“, til að kanna mun á fjölda innlagna, in-
flúensu-sýna, HIV-sýna og fjölda sýna fyrir Chlamydia trachomatis
árið 2020 samanborið við meðaltal 2016-2019 í Rstudio. Tvíhliða
tilgátupróf með marktækni við p<0,05 voru notuð.
Mynd 1. Tímalína sóttvarnaað
gerða á Íslandi og fjöldi í einangr
un með SARS CoV2 smit eftir
mánuðum 2020.1,2
Tímalína COVID-19-sóttvarnaaðgerða á Íslandi
jan feb mar apr maí jún júl ágú sep okt nóv des
Fj
öl
di
í
ei
na
ng
ru
n