Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 4

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 4
4 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021 Ljósmæður koma víða við í lífi fólks og þó áherslan sé mest á meðgöngu, fæðingu barns og fyrstu vikurnar á eftir, þá eykst áherslan á kynheilbrigði. Efling kynheilbrigðis- og barneignarþjónustu er mikilvæg fyrir alla hópa, þeirra sem á einhvern hátt minna mega sín, eiga við fíkni- eða andleg vandamál stríða, þau sem eru af erlendum uppruna, eru Íslendingar eða að sækja um íslenskan borg- ararétt eða á flótta frá hræðilegum aðstæðum í heimalandi sínu og leita skjóls og verndar hjá okkur. Eins og alltaf þegar ritnefnd byrjar að undirbúa næsta blað er farið yfir hvernig til tókst með síðasta blað og hvað varð út undan. Hvert blað hefur í raun sitt þema sem þó er sveigjanlegt og fjölbreytt, rétt eins og starf og samskipti ljósmæðra eru við fólk, umheiminn og lífið. Síðasta blað var tileinkað ári ljós- mæðra og hjúkrunarfræðinga 2020 og kom út í hátíðarútgáfu í sérstöku broti. Þetta blað er aftur í hefðbundnara formi og eins og áður er áherslan á efni sem endurspeglar fjölbreytt viðfangsefni og ólíka hópa sem ljósmæður sinna í sínu starfi. Hópa með ólíkan bakgrunn sem eru allir sérstakir og eiga að fá bestu þjónustu „sem völ er á“. Ánægjulegt var að þetta árið tókst Ljósmæðrafélaginu að halda ráðstefnu á netinu í tilefni 5. maí, alþjóðadags ljósmæðra. Dagskráin bar þess merki að íslenskar ljósmæður eru framtakssamar og sýna dug víða um heim í að sinna skjólstæðingum sem allra best á tímum COVID-19. Einnig koma þær af stað nýjum verkefnum, stofna fyrir- tæki og bjóða upp á aukna og fjölbreyttari þjónustu á ýmsum sviðum innan og utan starfsins - af hugsjón og með myndarskap. Má þar t.d. nefna Urðarbrunn, heimili sem styður viðkvæmar fjölskyldur við barn- eignarferlið, sem ljósmóðirin Elísabet Ósk Vigfúsdóttir stendur að, en hún hefur sinnt þessum fjölskyldum á göngudeild meðgönguverndar á Landspítala um áraskeið. Starfsvettvangur ljósmæðra í heilbrigðiskerfinu er um land allt, heima, innan heilsugæslu eða á sjúkrahúsi. Það getur verið snemma á ævinni, jafnvel fyrir meðgöngu eða seinna eftir fæðinguna, við kynþroska, á breytingaskeiði, þegar við kveðjum lífið eða þegar við fögnum því og tökum á móti. Menntunin hefur aukist í samræmi við þarfir samfélagsins og hópa með ólíkan bakgrunn. Nú eru 25 ár síðan ljósmæðranám fluttist á háskólastig en nú er svo komið að allar ljós- mæður hljóta meistaragráðu til starfsréttinda. Fyrsti hópurinn úr því námi útskrifast í vor og yfirlit lokaverkefna og mynd af ljósmæðrum 2021 er á sínum stað. Ljósmæður veita gagnreynda heilbrigðisþjónustu, byggja fræðslu á faglegri þekkingu og stunda rannsóknir í auknum mæli. Merki þess sjást í samtals sex greinum, bæði ritrýndum og öðrum um ólík efni s.s. um andlega líðan kvenna á barneignaraldri, mikilvægi joðneyslu á meðgöngu, hvernig sé að fylgja eftir leiðbeiningum um meðgöngu- sykursýki, reynslu af brjóstagjöf, áhrif lyfjagjafar á framköllun fæðinga og svo er spurningunni um hvers vegna konur kjósa að fæða barn án aðstoðar velt upp. Síðasta áratuginn hafa ljósmæður séð um sýnatöku og krabba- meinsleit í leghálsi, fyrst hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og nú innan heilsugæslunnar, eins og Anna Guðný Hallgrímsdóttir ljósmóðir segir okkur frá. Enn fremur fá ljósmæður nú eftir útskrift leyfi frá Landlæknisembættinu til að ávísa getnað- arvarnarlyfjum. Þó eru enn tæknileg vanda- mál til staðar fyrir konur að fá þau afgreidd í apótekum landsins. Ætlunin er að fjalla um þessar breytingar á þjónustu í boði ljósmæðra og reynsluna af henni í næsta Ljósmæðrablaði. Í takt við tímann breytast störfin t.d. vegna möguleika læknavísinda til að mæta þörfum hinsegin fólks, trans-kvenna og karla sem koma út, samkynja para og annarra hinsegin para sem eignast börn með mannlegri og tæknilegri hjálp. Nýlega voru samþykkt ný lög frá Alþingi um kynrænt sjálfræði fólks, rétt þess á því að skil- greina sjálft kyn sitt og breyta skráningu þess í þjóðskrá, einnig að hafa kynskráningu sína hlutlausa. Það er því rétt að huga að því hvort heilbrigðiskerfið sé undirbúið og hvort við ljós- mæður séum tilbúnar til að taka við þessum breytingum og sinna einstaklingum af öllum kynjum og hinsegin fólki í barneignar- og kynheilbrigðisþjónustunni af faglegri alúð. Íslenskan er kynjað tungumál og málvenjur okkar geta sært hinsegin skjól- stæðinga okkar. Hvernig við orðum hlutina skiptir máli og gott að fá ráðgjöf frá þeim sem hafa reynsluna, temja sér kynhlutleysi, skoða og leggja af karllægar málvenjur eins og fjallað er um í fróðlegum pistli Sólveigar Daðadóttur, og einnig í viðtali ljósmæðranna Rutar Guðmundsdóttur og Steinunnar H. Blöndal við Henrý Stein sem var lagður af stað í kynleiðréttingarferli þegar hann uppgötvaði að hann gekk með barn. En eins og þær skrifa þá hafa reynslusögur kvenna skipt ljósmæður miklu máli og hafa í gegnum aldirnar haft mótandi áhrif á ljósmóðurþekkingu. „Nú þurfum við að víkka sjóndeildar- hringinn og vera tilbúin að hlusta á sögur fleiri kynja og bæta þannig við þekkinguna sem fyrir er og opna umræðuna upp á gátt“. Aðstæður á Landspítala hafa verið í þjóðfélagsumræðunni, ekki síst vegna COVID-19 og nú síðast vegna fjölgunar fæðinga. Mynd ársins 2020 tók Þorkell Þorkelsson ljósmyndari Landspítala og fékk hann verðlaun fyrir myndaröð ársins. Í viðtali Guðlaugar Erlu Vilhjálms- dóttur segir Þorkell frá starfi sínu sem ljósmæður á kvenna- og barnasviði þekkja vel en hér fáum við að skyggnast inn í hugarheim og baksvið mynda hans. Emma Marie Swift ljósmóðir á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítala og lektor við Háskólann skrifaði á dögunum kröftuga grein í Morgunblaðið sem við endurbirtum. Hún fjallaði m.a. um væntanlega fjölgun fæðinga á þessu ári, aðstöðuleysi á Landspítala og skorar á heilbrigðisyfirvöld að gera bragarbót. Ljóst sé að ekki er hægt að halda áfram á gleðinni og hugsjóninni einni saman og að þetta endi með þeim afleiðingum að starfsfólk verði úrvinda og í hættu á því að fá kulnun eða verða veikt vegna álags og streitu. Að lokum hvetur Katrín Sif Sigurgeirsdóttir okkur ljósmæður til samstöðu með stolti og kærleik. Hún lítur til baka og fer yfir breytingar í ljósmóðurstarfi síðustu áratugina og framþróun sem kallar á breytingar sem við eigum að vanda okkur við. Hennar orð eru samhljóma ávarpi nýs formanns Ljósmæðrafélagsins, Unnar Berg- lindar Friðriksdóttur, um að við ljósmæður munum – „standa föstum fótum, allar sem ein og vera einhuga í að hlúa að stéttinni okkar“. LJÓSMÆÐUR VÍKKA SJÓNDEILDARHRINGINN R I T S T J Ó R N A R P I S T I L L Ólöf Ásta Ólafsdóttir, ritstjóri

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.