Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 25

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 25
25LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021 hún vildi ekki hitta aðrar mæður með börn á brjósti en einnig mætti hún neikvæðu viðhorfi hjá almenningi gagnvart því að vera ekki með barnið á brjósti: „Það var alveg sagt við mig: „Hvað ertu ekki með barnið þitt á brjósti?“.“ Nauðsynlegt að fá aðstoð er annað undirþemað sem greint var en í viðtölunum kemur fram mikilvægi þess að konur fái góða hjálp fyrst eftir fæðinguna. Margar kvennanna töluðu um að hjálpin á deildinni fyrst eftir fæðinguna hafi ekki verið nógu góð og jafnvel gert þær hræddar við brjóstagjöfina. Ljósmæðurnar gripu of mikið fram í fyrir þeim og létu sjálfar barnið á brjóst og sumum fannst of fljótt eftir fæðinguna farið í einfaldar leiðir til að næra barnið. Frumbyrjur töluðu yfirleitt um að þær hafi ekkert vitað hvað þær voru að gera til að byrja með. Gerða lýsir hér sinni fyrstu brjóstagjöf með sitt fyrsta barn: „Þetta var bara eins og að keyra með lokuð augun, þar sem maður vissi einhvern veginn ekkert.“ Það voru ekki bara frumbyrjur sem þurftu aðstoð fyrst eftir fæðinguna. Fjölbyrjur þurftu margar hverjar aðstoð, sérstaklega eftir erfiða fæðingu eða þegar blætt hafði mikið. Þeim fannst skrítið þegar enginn kom inn til þeirra yfir heila vakt til að athuga með þær og aðstoða við brjóstagjöfina. Konurnar töluðu um hvað það væri erfitt að fá misvísandi skilaboð, bæði frá ljósmæðrum og öðrum í nærumhverfinu. Steinunn segir frá upplifun sinni þegar hún var hrædd um að barnið fengi ekki nóg fyrsta sólarhringinn eftir fæðinguna: ... svo sagði ein ljósmóðirin: „Nei, nei, hann er með fullt af næringu sinn fyrsta sólarhring, hann er allt í lagi.“ Þú veist, svo kannski kemur önnur ljósmóðir og segir: „Nei [...] hann situr ekki nógu vel á,“ og svo kemur næsta: „hann situr fínt á, þú hlýtur bara að mjólka ekki neitt“, svo kemur næsta og segir: „þú mjólkar fullt, þú ættir að prófa mexíkanahatt“ svo kom næsta á vakt og sagði: „Guð, ekki nota þennan mexíkanahatt, þá hættir hann alveg að sjúga brjóstið“. Það kom fyrir að ljósmæðurnar sýndu ekki faglega framkomu við konurnar fyrst eftir fæðinguna. Ein frumbyrja, Nanna, var búin að vera með barnið á brjósti nánast alla fyrstu nóttina, var orðin þreytt og reyndi að fá aðstoð: „Hún sagði bara að ég væri ekki búin að reyna nóg og ég ætti bara að reyna meira og gefa henni brjóst og já þetta myndi bara koma.“ Eftir erfiða fæðingu segir Sara frá samskiptum við ljósmóðurina sem tók á móti barninu hennar: ... Þá fór hún [barnið] strax svona og fann geirvörtuna og ég var svo glöð, þetta er að gerast, og þá kom ljósmóðirin inn, sem tók á móti og bara: „hvernig gengur“ „ég held hún sé bara að fara á brjóst“ og hún bara horfði svona á „hehehehe elskan mín, hún er sko ekki á brjósti“ og hló svona að mér og ég skammaðist mín svo mikið og mér leið svo illa að eftir þetta fór ég bara til baka [lyftir höndum] og þær [ljósmæðurnar] gerðu þetta bara fyrir mig, ég bara, mér leið eins og hálfvita. Þetta varð til þess að hana langaði ekki að gefa barninu brjóst og gat alls ekki hugsað sér að þessi ljósmóðir tæki á móti næsta barni sínu þrátt fyrir að hafa upplifað hana fína í fæðingunni sjálfri. Langflestar konurnar fóru heim af fæðingardeildinni í heimaþjón- ustu og voru mjög ánægðar með þjónustuna. Þær fengu meiri hjálp með vandamál og lýstu ljósmæðrum sem algjörum englum. Þeim þótti mikil- vægt að hafa samfellu í þjónustunni, þannig að það væri ljósmóðir sem þær höfðu kynnst áður í barneignarferlinu sem sinnti þeim. Makar kvennanna voru ekki síður mikilvægir til að veita aðstoð og stuðning. Þeim fannst nauðsynlegt að þeir tækju þátt í umönnuninni, minntu þær á að drekka nóg og að þeir sýndu þeim andlegan stuðning og skilning. Sérstaklega átti þetta við þegar brjóstagjöfin reyndi á þær líkamlega og andlega og þeim fannst mikilvægt að þær upplifðu þá sem hluta af teymi sem ynni að því að brjóstagjöfin gengi vel. Sumar voru sannfærðar um að það hefði verið helmingi erfiðara að vera með börnin á brjósti ef þær hefðu ekki haft góðan stuðning frá maka. Þriðja undirþemað, bindandi, lýsir því hversu bindandi konunum þótti brjóstagjöfin og þær hugsuðu jafnvel um hvað þær væru búnar að koma sér út í. Sérstaklega átti þetta við í upphafi brjóstagjafarinnar þegar börnin voru oft og lengi á brjósti í einu, en einnig ef börnin vöknuðu oft á næturnar til að drekka. Misjafnt var hversu lengi þetta tímabil varði. Nanna gat ekkert vikið sér frá barninu og sjálf borðaði hún með barnið í fanginu: Alveg fyrstu vikurnar, alveg frekar lengi þá gat ég eiginlega bara ekkert lagt hana frá mér, þú veist hún bara sofnaði út frá brjóstinu, svaf bara ef ég hélt á henni og vaknaði um leið og ég lagði hana frá mér. Bella upplifði brjóstagjöfina sem ákveðna frelsissviptingu og hugsaði með sér: Já ókey, ég á alltaf eftir að vera hér að eilífu, ég mun aldrei aftur geta gert neitt, [hlær] það var bara þannig, mér leið þannig. En bara svona: Ég mun aldrei geta farið neitt, ég mun aldrei geta gert neitt ein, ég mun bara alltaf vera hér að gefa brjóst, alltaf. Brjóstagjöfin var henni pínu tilfinningalegur skellur þar sem hún hafði upplifað fæðinguna vel. Sumum kvennanna fannst það ekki vera fyrr en barnið fór að borða fasta fæðu sem þær gátu farið eitthvað og upplifðu ekki þessa miklu bindingu. Fjórða undirþemað var greint: Ég get ekki nært barnið mitt en það lýsir reynslu kvennanna af þeim erfiðleikum sem þær upplifðu þegar barnið fékk ekki næga næringu hjá þeim. Allar höfðu konurnar einhverjar áhyggjur af því að hafa ekki nóg handa börnunum sínum, jafnvel þó börnin þyngdust vel og væru feit og pattaraleg. Sunna telur að það sé í eðli kvenna að hafa þessar áhyggjur. Margar þeirra lýstu álagi og streitu sem fylgdi í kjölfarið, en einnig lýstu þær samskiptum sínum við ljósmæður og hjúkrunarfræðinga í ungbarnaverndinni og þeim ráðleggingum sem þær fengu, sem stundum voru gagnlegar en alls ekki alltaf. Konurnar fengu yfirleitt þau ráð að leggja börnin oftar á brjóst og helst ekki gefa ábót, þrátt fyrir að þær lýstu því að börnin væru þegar mjög mikið á brjósti. Rut lýsir líðan sinni þegar hjúkrunar- fræðingur í ungbarnaverndinni sagði að hún þyrfti að vefja sig í bómull og leggja barnið örar á brjóst: „Ég er að því en við bara grátum bæði hérna og hann fær ekki mjólk og ég gef enga mjólk [þögn] þetta var svo mikil pressa.“ Nanna hefði viljað fá önnur ráð en að leggja barnið oftar á brjóst: „Ég var alltaf að bíða eftir öðru svari.“ Konurnar upplifðu það yfirleitt sem ákveðinn ósigur að byrja að gefa ábót og það reyndist þeim mikil áskorun og hafði áhrif á sjálfs- mynd þeirra. Bella upplifði ákveðna skömm tengdri því að þurfa að gefa ábót og upplifði sig misheppnaða, samt hafði hún þær hugmyndir á meðgöngunni að það væri ekkert að því að næra barnið með öðrum leiðum en á brjósti: Þá þegar ég byrjaði síðan að gefa henni pela þá, algerlega án þess að ég bara myndi ráða nokkuð við það, þá upplifði ég [þögn] að ég væri einhvern veginn hálfpartinn svona mislukkuð, að ég gæti ekki bara haft barnið mitt á brjósti. Þrátt fyrir erfiðleika við að taka ákvörðun um ábót upplifðu konurnar það mikinn létti þegar barnið fór að sofa betur og þær fengu meiri hvíld. Fimmta og síðast undirþemað sem greint var, barnið sjálft, snýr að barninu sjálfu, líðan þess og hvernig það hagar sér við brjóstið. Konurnar lýstu því að það hefði áhrif á brjóstagjöfina hvernig þau tóku brjóstið, hversu áhugasöm þau voru að sjúga, hversu mikið þau ældu og hvort þau væru vær á milli gjafa. Barn Söru ældi mikið en þyngdist samt sem áður vel en þetta reyndi á hana engu að síður: „ Það er annað sem er búið að vera erfitt, hún ælir svo skuggalega mikið og gerði sérstaklega, það bara sprautaðist út úr henni.“ Fjölbyrjurnar töluðu um það að börnin þeirra hefðu verið ólík að því leiti að sum tóku vel brjóst og sugu af áfergju, sugu sig föst við brjóstið, en önnur voru áhugalaus og sogið ekki kröftugt. Þeim fannst auðveldara að vera með ákveðnu börnin á brjósti en þau áhugalausu. Sumar konurnar voru stöðugt með í huga að þær hefðu borðað eitthvað sem börnin þoldu ekki ef þau voru óvær. Aðrar konur fengu þau skila- boð að börnin þyldu ekki mjólkina þeirra ef þau ældu mikið. Þetta olli þeim hugarangri og fékk þær til að efast um sjálfa sig. Sara lýsir þessu: „Það voru allir að segja: „Hún þolir ekki mjólkina þína.“ Fólk sem veit ekki neitt sko.“ Gleðin sem fylgir sátt við brjóstagjöfina eins og hún er Síðasta aðalþemað, gleðin sem fylgir sátt við brjóstagjöfina eins og hún er, lýsir reynslu kvennanna þegar mestu erfiðleikarnir voru liðnir hjá. Þegar þær fóru að njóta brjóstagjafarinnar, áhrifum umhverfisins á upplifun þeirra og því þakklæti sem þær fundu fyrir að hafa getað verið með börnin á brjósti. Þrátt fyrir að það hafi ekki endilega verið eins og

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.