Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 43

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 43
43LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021 Við Ási, eða Ásvaldur Kristjánsson, kvikmyndatökumaður spítalans fórum bara markvisst að reyna að skrásetja starfið. Vegna þess að við vissum að það væri náttúrulega sögulega mikilvægt, við vissum að það væri mikilvægt af öllum þessum ástæðum sem ég nefndi áðan, að eiga þetta til. Akkúrat þessi mynd, eða þessi sería, er af kvöldvakt á covid-deildunum í Fossvogi sem eru A6 og A7, minnir mig að hafi verið. Í rauninni er ég bara að fylgjast með starfinu sem þarna á sér stað og maður áttar sig á því að þetta er geysilega erfitt starf sem þetta fólk er að vinna - þessar konur. Þetta eru mikið til konur sem eru að vinna í umönnunarstörf- unum sjálfum, flestir sjúkraliðarnir og hjúkrunarfræðingarnir eru konur. Auðvitað voru læknar þarna líka en ekki svo mikið á kvöldvaktinni. Þær náttúrulega eru að vinna með þessar óþægilegu grímur, í þessum óþægi- legu búningum, við þessar hættulegu aðstæður. Þetta er mjög aðdáunarvert starf og mjög athyglisvert að fá að fylgjast með því, bæði hvernig þær héldu og halda vel utan um hvor aðra, sem sagt faglega og líka persónulega; svona að þétta hópinn. Ég skynjaði að það væri góður andi á milli þeirra en mjög faglegt andrúmsloft og ég reikna með að í hita leiksins geti fólk ekkert verið að hugsa endilega um alvarleika allra hluta. En svo kemur kannski stund þar sem bráir aðeins af þér. Ég horfi oft eftir því hvernig fólk hegðar sér; ég er alltaf að horfa á fólk, reyna að átta mig á því hvernig það hugsar, hvað það er að fara að gera, hvernig það hreyfir sig og alla þessa hluti. Og þegar ég tók þessa mynd, sá ég að það var eins og hún dytti aðeins út, hún varð svona fjar- ræn og mér fannst svona kannski eins og hún væri í reflecting. Hvað segir maður á íslensku? Hún var svona eins og að fá einhverja smá speglun á það sem var búið að gerast. Þarna var náttúrulega fárveikt fólk. Fólk sem vissi ekki hvort það mundi lifa eða deyja og allt það. Þetta var mjög snemma í faraldrinum og auðvitað hefur þetta áhrif á alla sem koma nálægt þessu, eins og þið ljósmæður þekkið í ykkar starfi. Þær fóru inn í hópum, voru inni í ákveðinn tíma í búningunum og komu síðan út og hvíldu sig aðeins og næsta holl fór inn. Þær gátu náttúrulega ekki verið í búningunum í átta klukkustundir samfellt, það er ekki hægt. Þannig að þessi mynd, verður bara til þarna, ég sé allt í einu, hún verður svona fjarræn og ég negli….smelli af. En covid-myndatökurnar, þær voru svolítið sérstakar að því leitinu til að þú þurftir sjálfur að vera í búning og að setja myndavélina í plast- poka og vera með öryggisgleraugu og grímu. Þegar þú ert kominn með allt þetta þá ertu hættur að sjá í gegnum myndavélina, þú ert kominn með ákveðna fjarlægð frá myndavélinni. Svo er plast yfir myndavélina og þú sérð ekkert í gegnum myndavélina, þú þarft bara að giska á það sem þú ert að gera. Þú þarft þá að þekkja myndavélina sem þú ert að vinna með mjög vel. Þetta var svolítið skrautlegt og ég vissi aldrei fyrr en eftir á hvort það hefði eitthvað komið út úr þessari myndatöku. Þetta var svolítið eins og gamli filmutíminn, þegar verið var að taka og svo varð að framkalla, sjá hvort þetta væri nú í fókus og svona, hvort þetta væri rétt lýst. En það var allt í lagi, ég er gamall refur og þetta var bara svona upprifjun á gömlum tíma. ERFIÐ VERKEFNI Á KVENNASVIÐI Eitt af verkefnum Þorkels er þjónusta við fæðingarvaktina og meðgöngu- og sængurlegudeild. Þangað kemur hann m.a. til að taka myndir fyrir foreldra af börnum sem fæðast andvana. Þorkell hefur verið mjög liðlegur í þeirri þjónustu og kemur hann hiklaust inn á frídögum til að taka myndir, sem standa svo foreldrum til boða að eiga. Ég spurði Þorkel hvað hann hefði að leiðarljósi við þær mynda- tökur. Já, það eru náttúrulega myndatökur sem eru í eðli sínu afskaplega dapurlegar og það eru andvana fædd börn, eða börn sem deyja þarna mjög snemma, fyrstu dagana, meðan þau eru hjá ykkur. Ég hef litið þannig á að þær myndir, þær myndatökur, þjóni tvenns konar tilgangi. Annars vegar til þess að foreldrarnir eigi minningu um barnið sem þeir voru að missa. Hins vegar hef ég það að leiðarljósi að myndirnar sem ég er að taka séu þess eðlis að þær veki tilfinningaleg hrif og ég reyni að lýsa þær þannig og taka þær þannig að þær eigi að hleypa út tilf- inningum. Ég vil helst að foreldrar sem sjái þessar myndir geti farið að gráta og ég held að það sé, ég veit það ekki, en ég held að það sé gott fyrir þig í þessum aðstæðum að ná að hleypa sorginni út. Mín hugsun er að myndirnar, vonandi, geti eitthvað hjálpað til, í þessu hörmulega ferli sem verður þegar fólk missir börnin sín svona. Við sitjum um stund í þögninni. Þarna er greinilega réttur maður á réttum stað. Við endum þetta með orðum Þorkels: Ég er bara mjög ánægður í starfi og bara þakklátur fyrir að koma að gagni, ég held að það sé mesta gæfa hvers manns að hafa tilfinningu fyrir því að það sé eitthvað gagn í því eða að einhverjum nýtist það að einhverju leiti. Ljósmyndaseria ársins 2020 Ljósmynd ársins 2020

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.