Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 13

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 13
13LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021 okkar (Knapstad o.fl., 2019; Oksanen o.fl., 2017). Jafnframt sýna niður- stöðurnar að þörf kvenstúdentanna fyrir faglega aðstoð fer vaxandi, eins og raunar víðar (Oswalt o.fl., 2020). Ekki hefur verið gefin nein einhlít skýring á þessum breytingum þó oft sé vísað til aukinnar streitu meðal háskólastúdenta (Beiter o.fl., 2015; Karyotaki o.fl., 2020). Rannsóknir hafa sýnt að helstu áhyggjur stúdenta snúast um námstengdar kröfur og fjárhag ásamt því að takast á við krefjandi háskólanám og samþætta það við aðrar skyldur eins og vinnu með námi, náin sambönd og fjölskyldulíf (Brzezinski o.fl., 2017; Palmer og Puri, 2006). Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að milli áranna 2007 og 2018 hefur þeim kvenstúdentum fjölgað umtalsvert sem telja sig hafa þörf fyrir þjónustu, eða úr tæpum þriðjungi í liðlega helming, og er sú aukn- ing tölfræðilega marktæk. Þeim kvenstúdentum sem telja sig hafa þörf fyrir faglega aðstoð vegna andlegrar vanlíðunar, en fá hana ekki, hefur einnig marktækt fjölgað úr 18% í 28% milli áranna. Sé litið til fjölda kvenstúdenta á Íslandi árið 2018 mætti leiða að því líkur að hér gæti verið um rúmlega 3000 konur að ræða (Hagstofa Íslands, 2020). Þessar niður- stöður eru samhljóða erlendum rannsóknum sem benda til að hér sé um fjölþjóðlegt vandamál að ræða (Oswalt o.fl., 2020). Ekki er ósennilegt að vaxandi þörf fyrir faglega þjónustu að mati þátttakenda tengist þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur meðal almennings um gildi geðheilsu sem hluta af almennri heilsu. Opnari umræða í fjölmiðlum þar sem kallað er eftir ódýrari og aðgengilegri geðheilbrigðisþjónustu er einnig líkleg til að hafa sömu áhrif. Jafnframt er mikilvægt að hafa í huga að 35% kvenstúdentanna í þessari rannsókn eru mæður, sem bendir til þess að margir íslenskir kvenstúdentar eignast börn á námstíma og eru þar af leið- andi í umtalsverðum samskiptum við ljósmæður og hjúkrunarfræðinga. Í því sambandi má hafa í huga að íslensk rannsókn sýndi að konur í námi voru líklegri en konur á vinnumarkaði til að skilgreina fæðingarreynslu sína sem erfiða. Jafnframt kom í ljós að stuðningur ljósmæðra fyrir barns- hafandi konur hefur marktæk áhrif á reynslu kvennanna af fæðingunni (Sigurdardottir o.fl. 2017). Þegar sálræn líðan þátttakenda í rannsókninni árið 2018 er skoðuð eftir faglegri aðstoð kemur í ljós að líðanin er verst meðal þeirra sem fá ekki aðstoðina. Þessar niðurstöður vekja óneitanlega spurningar um tengsl sálrænnar vanlíðunar og faglegrar aðstoðar en rannsókn meðal háskólastúdenta benti til að námsmenn með hærri þunglyndisstig hefðu neikvæðari viðhorf til þess að leita sér faglegrar aðstoðar (Chang, 2007). Í okkar rannsókn var kvíði þeirra sem þurftu aðstoð svipaður hvort sem þeir höfðu fengið aðstoð eða ekki. Hins vegar kom fram að þeir sem fengu faglega aðstoð höfðu marktækt lægra meðaltal á þunglyndiskvarð- anum en aðrir. Það bendir til þess að faglega aðstoðin beri árangur að því er varðar þunglyndi meðal kvenstúdenta. Rannsóknir á árangri hugrænnar atferlismeðferðar meðal íslenskra kvenstúdenta hafa einmitt sýnt góðan árangur er varðar kvíða og þunglyndi (Bernhardsdottir o.fl., 2013b; Bern- hardsdottir o.fl., 2014). Eins og fyrr segir er það sérstakt áhyggjuefni að tæplega þriðjungur kvenstúdenta fær ekki faglega aðstoð þrátt fyrir sýnilega þörf fyrir þjón- ustu. Því er eðlilegt að spyrja hvað komi í veg fyrir að svo stór hluti kvenstúdenta fái slíka aðstoð, en rannsóknir sýna að nemendur leita oftast til vina, foreldra og kærasta/kærustu eftir aðstoð en í fjórða sæti er aðstoð frá geðheilbrigðisstarfsfólki (Goodwin o.fl., 2016). Í þessari rannsókn var lang algengasta ástæða þess að nemendur fengu ekki faglega aðstoð sú að um of mikinn kostnað væri að ræða, en fleiri rannsóknir hafa einmitt sýnt að stúdentar sem eru lakar staddir samfélagslega og fjárhagslega leita sér síður faglegrar aðstoðar (Cullinan o.fl., 2020). Einnig hefur komið fram í rannsóknum að stúdentar telja sig eiga að takast á við vandann upp á eigin spýtur eins og kom einnig fram í þessari rannsókn í opnum svörum þátt- takenda (Ebert o.fl., 2019; Eisenberg o.fl., 2011; Karyotaki o.fl,. 2020; UNITE, 2019). Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að fordómar í eigin garð geta hindrað stúdenta í að leita sér faglegrar aðstoðar ásamt tilhneigingu til að forðast að kafa dýpra í vandann, eins og kom einnig fram í þessari rannsókn (Cage o.fl., 2018; Eisenberg o.fl., 2012). Hér má á ný líta til millibilskenningar Meleis og félaga (2000) um lífsbreytingar og nauðsyn þess að hafa í huga persónulega afstöðu einstaklingsins til lífsbreytinganna, áhrif nærumhverfisins til dæmis í formi stuðnings og fyrirmynda. Þetta er einnig í samræmi við sýn og hugmyndafræði ljósmæðra er varðar barneignarferlið. Í þeirra nálgun er lögð áhersla á að stuðla að eðlilegu barneignarferli og að mæta konum þar sem þær eru staddar og veita heildræna umönnun á þeirra forsendum og fjölskyldunnar (Olafsdottir o.fl., 2018). Auk þess er vert að hafa í huga ríkjandi gildi í samfélags inu svo sem viðhorf til geðrænna vandamála, áhrif samfélagsmiðla og félags- og fjárhagsstöðu einstaklingsins. Nefna má að í þessari rannsókn er meðalaldur íslensku kvenstúdentanna hærri (28,5 ár) en almennt gerist meðal evrópskra stúdenta. Einnig er algengara að íslenskir kvenstúdentar séu mæður, en það átti við um 35% kvennanna í þessari rannsókn. Í nýlegri skýrslu Mennta- og menningarmálaráðuneyt- isins (2018) kemur fram að liðlega 40% barna íslenskra háskólastúdenta eru undir þriggja ára aldri sem felur að jafnaði í sér mikla umönnunar- þörf foreldranna. Auk þessa virðast íslenskir stúdentar vinna talsvert meira með námi en evrópskir nemendur, eða rúmlega 70% á móti 50% evrópskra nemenda (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2018). Með hliðsjón af millibilskenningu Meleis og fleiri (2000) um lífsbreytingar virðast því margir íslenskir kvenstúdentar takast á við krefjandi verkefni samhliða háskólanámi. Augljóslega geta þessi verkefni togast á og skapað upplifun tímaskorts en tímaskortur var einmitt talinn upp sem næst algengasta ástæða þess að kvenstúdentarnir fengu ekki faglega aðstoð. FRAMTÍÐARRANNSÓKNIR Styrkleikar þessarar rannsóknar felast meðal annars í notkun áreið- anlegra matstækja til að meta kvíða og þunglyndi, auk þess sem úrtök beggja kannana endurspegla vel þýðið með tilliti til aldurs og námsstigs. Svarhlutfall árið 2007 var tæp fjörutíu prósent en tæp sextíu prósent árið 2018. Gæta þarf varkárni þegar dregnar eru ályktanir út frá úrtakinu, en niðurstöður þessarar rannsóknar gefa sterkar vísbendingar sem vert er að fylgja eftir í frekari rannsóknum á þessum hópi. Sérstaklega mikilvægt verður að greina þann hóp kvenstúdenta sem upplifir hvað mestu sálrænu vanlíðunina en fær ekki faglega þjónustu þrátt fyrir eigið mat á slíkri þörf. Jafnframt áætla höfundar áframhaldandi greiningu á sálrænni vanlíðan kvenstúdenta sem eru mæður í samanburði við þær sem eiga ekki börn. GILDI FYRIR STÖRF LJÓSMÆÐRA OG HJÚKRUNARFRÆÐINGA Sálræn vanlíðan er algeng meðal kvenstúdenta á barneignaraldri bæði hérlendis og erlendis og getur að líkindum tengst krefjandi lífsbreytingum og viðbrögðum þeim tengdum. Það er hins vegar áhyggjuefni að nærri þriðjungur þeirra sem telja sig þarfnast faglegrar aðstoðar fá hana ekki. Niðurstöður þessar undirstrika mikilvægi þess að gripið sé til markvissra aðgerða af heilbrigðis- og háskólayfirvöldum með áherslu á þverfaglegt samstarf til að takast á við þennan vanda. Það er ljóst að ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hafa oftast beint og milliliðalaust aðgengi að skjól- stæðingum til dæmis vegna meðgöngu, fæðinga eða í störfum sínum við heilsugæslu svo sem í ungbarnavernd og skólahjúkrun. Reynsla þessara stétta, menntun og faglegur undirbúningur er dýrmætur og mætti nýta enn betur til að meta sálræna líðan og veita fræðslu og faglegan stuðn- ing til kvenstúdenta sem taldir eru í heilsufarslegri áhættu (Swift o.fl., 2017). Þetta er ekki síst mikilvægt þar sem rannsóknir sýna að sálræn vanlíðan hefur neikvæð áhrif á námsframvindu og lífshætti stúdenta svo sem reykingar og áfengisnotkun sem og veikindi almennt (Auerbach o.fl., 2016; Geisner o.fl., 2012; Kenney og Holahan, 2008; Rawson o.fl., 83% 45% 34% 15% 11% 8% 7% 4% 15% 0% 10% 20% 30% 40% 50% 60% 70% 80% 90% Of mikill kostnaður Tímaskortur Veit ekki hvert ég á að leita Óttast að fá þjónustu sem ég kæri mig ekki um Bið eftir tíma hjá meðferðaraðila Fordómar Hef ekki heimilislækni/heilsugæslu til að leita til Treysti ekki á trúnað meðferðaraðila/ráðgjafa Annað Mynd 3. Þættir sem koma í veg fyrir að kvenstúdentar (n=253) fái aðstoð vegna andlegrar heilsu árið 2018.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.