Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 11

Ljósmæðrablaðið - 01.07.2021, Blaðsíða 11
11LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - JÚLÍ 2021 Key concepts: Anxiety, depression, female university students, psychological distress, service needs. INNGANGUR Kannanir benda til þess að andleg vanlíðan og streita fari vaxandi meðal ungs fólks á Íslandi, ekki síst meðal yngri kvenna (Embætti landlæknis, 2018, 2019). Árið 2018 voru 18.346 nemendur í háskólanámi á Íslandi þar af voru 11.874 konur eða um 63%. Flestir kvenstúdentar í háskólum landsins eru á barneignaraldri (Hagstofa Íslands, 2020). Það er verulegt áhyggjuefni hve geðraskanir eru algengar meðal þess hóps sem undir- býr sig undir framtíðarstörf, barneignir og fjölskyldulíf (Auerbach o.fl., 2018; Oswalt o.fl., 2020). Faraldsfræðilegar rannsóknir sýna að um einn fimmti háskólastúdenta hefur glímt við geðraskanir undanfarna 12 mánuði og að algengustu geðraskanirnar, eins og hjá almenningi, eru kvíði og þunglyndi og er hvort tveggja algengara meðal kvenna en karla (Auerbach o.fl., 2016; Kessler o.fl., 2005; Wittchen og Jacobi, 2005). Í skýrslu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins (2018) kemur fram að 17% íslenskra kvenstúdenta telja sig búa við andleg veikindi á móti 12% karla. Svipaðar niðurstöður hafa fengist í Bretlandi þar sem 17% fyrsta árs háskólanema töldu sig glíma við geðrænan vanda (UNITE, 2019). Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að samkvæmt faraldsfræði- legum rannsóknum hafa 75% geðraskana birst með vægum einkennum í byrjun, eða fyrir 24 ára aldurinn þegar margir eru í háskólanámi (Kessler o.fl., 2005; Kessler o.fl., 2007). Í þessari grein er sjónum beint að sálrænni vanlíðan með einkennum kvíða og/eða þunglyndis meðal kvenstúdenta. Sálræn vanlíðan er upplifuð á mismunandi stigum og getur sveiflast hjá sama einstaklingi sem viðbrögð við streituvaldi og mótlæti í lífinu. Sálræn vanlíðan er ekki geðröskun í sjálfu sér, en getur valdið töluverðri þjáningu og dregið úr lífsgæðum og virkni einstaklingsins (Alonso o.fl., 2018; Jenkins o.fl., 2020; Mirowsky og Ross, 2003). Langtíma rannsóknir á undanförnum árum, í Finnlandi og Noregi, hafa sýnt fram á vaxandi tíðni sálrænnar vanlíðunar meðal háskólastúdenta (Knapstad o.fl., 2019; Oksanen o.fl., 2017). Einnig hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að þunglyndis- og kvíða- einkenni séu tíðari meðal kvenstúdenta en karlstúdenta sem og meðal yngri námsmanna þó ekki sé það einhlítt eins og kom fram í finnskri rannsókn þar sem sálræn vanlíðan var tíðari meðal eldri stúdenta (Bewick o.fl., 2010; Jenkins o.fl., 2020; Oksanen o.fl., 2017). Fáar íslenskar rann- sóknir hafa verið birtar um tíðni þunglyndis- og kvíðaeinkenna meðal háskólastúdenta, en í meistaraverkefni Andra Hauksteins Oddssonar (2017) kom ekki fram marktækur munur á tíðni þessara einkenna á milli kynja. Hins vegar reyndust bæði kvíði og þunglyndi algengari meðal þeirra sem voru í fullu námi borið saman við þá sem voru í hlutanámi, sem og þeirra sem bjuggu í foreldrahúsum. Rannsókn Swift og félaga árið 2017 sýndi að um fjórðungur kvenstúdenta sem þátt tóku í rannsókn varðandi ákvarðanir um fæðingu, upplifðu alvarlegan kvíða og tæplega þriðjungur þeirra alvarlegt þunglyndi. Samkvæmt erlendum rannsóknum fær hins vegar aðeins lítill hluti háskólastúdenta með geðrænan vanda faglega aðstoð og sýna niðurstöður að þeir leita sér frekar aðstoðar eftir óformlegum leiðum (Auerbach o.fl., 2016; Bruffaerts o.fl., 2018; Eisenberg o.fl., 2011). Hvað varðar stöðu þessara mála hérlendis má benda á að stúdentar hafa sjálfir kallað eftir úrræðum vegna vaxandi geðheilsuvanda í sínum röðum (Kjarninn, 2018). Lífsbreytingar meðal háskólastúdenta Til þess að skilja aðstæður geðheilsuvandans er gagnlegt að líta til miðstigskenningar Meleis og fleiri (2000) um lífsbreytingar (e. Middle- -Range Theory). Henni má beita til að skilja eðli breytinga, áskorana og viðbragða háskólanema sem takast samhliða á við fullorðinsár og háskólanám. Að auki er kenningin vegvísir fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að styðja við stúdenta vegna þeirra vendipunkta sem eiga sér stað í lífi þeirra og veita þeim leiðsögn og aðrar íhlutanir sem miða að því að efla aðlögunarleiðir þeirra og sjálfsmynd (Mahmoud o.fl., 2012; Meleis o.fl., 2000). Lífsbreytingum má lýsa sem nokkurs konar umbreytingarferli sem kallar á aðlögun og viðbrögð þegar einhvers konar breyting eða röskun verður í lífi einstaklingsins, hvort sem hún er óvænt eða ekki. Lífsbreytingar eru af mismunandi uppruna og toga. Þær geta verið tengdar þroska einstaklingsins, breytingum á heilsufari og skipulags- breytingum ásamt breyttum kringumstæðum. Oft er talað um að háskóla- árin séu tími mikilla breytinga í lífi einstaklings sem er að fóta sig í námi, undirbúa framtíð sína og samþætta líf sitt öðrum verkefnum sem tilheyra fullorðinsárunum. Tilfinningaleg viðbrögð geta verið margs konar og augljóslega í samræmi við eðli og fjölda þeirra lífsbreytinga sem viðkomandi tekst á við hverju sinni. Viðbrögðin geta til að mynda birst í ráðaleysi, vanlíðan, pirringi, kvíða, þunglyndi og breytingum á sjálfs- mynd (Chick og Meleis, 2010). Samkvæmt millibilskenningu Meleis og fleiri (2000, 2010) er meginmarkmið með aðstoð við einstaklinga sem takast á við krefjandi lífsbreytingar, fyrst og fremst að styðja við jákvæða úrvinnslu breytingaferlisins og útkomu þess. Í ljósi ofangreindrar millibilskenningar eru háskólastúdentar taldir geta verið í heilsufarslegri áhættu vegna þess að þeir eru meðal annars að takast á við breytingar í þroska og aðstæðum og þurfa að tileinka sér nýja færni til að takast á við mikilvæg atriði í aðlögunarferlinu. Ýmislegt innra með einstaklingnum, í nærumhverfi hans eða í samfélaginu sjálfu getur haft áhrif á hvernig honum farnast í þeim breytingum sem eiga sér stað í lífi hans. Streita af mismunandi uppruna er talin algeng í þessum hópi og tengist meðal annars áhyggjum af námsárangri, frammistöðu, fram- tíðarhorfum ásamt fjárhagsáhyggjum (Beiter o.fl., 2015; Karyotaki o.fl,. 2020). Ástæður breytinganna geta verið samfélagslegar svo sem þegar staða eða aðstæður ungs fólks í samfélaginu breytast. Breytingarnar geta einnig verið lífsskeiðstengdar, þegar einstaklingur fer af einu skeiði ævinnar á annað og tekur að sér ný hlutverk og verkefni. Enn aðrar breytingar geta verið persónubundnar þegar einstaklingur á tilteknu lífs- skeiði verður fyrir einstaklingsbundinni áskorun eða mótlæti. Í þessari rannsókn er leitað svara við eftirfarandi spurningum: 1. Er marktækur munur á þunglyndis- og kvíðaeinkennum meðal 19-45 ára kvenstúdenta við Háskóla Íslands á árunum 2007 og 2018? 2. Hefur orðið marktæk breyting á þörf stúdentanna fyrir þjónustu frá fagaðilum að þeirra eigin mati á árunum 2007 og 2018? 3. Er marktækur munur á kvíða- og þunglyndisstigum kvenstúdenta meðal þeirra sem: i) töldu sig ekki þarfnast faglegrar aðstoðar, ii) töldu sig þarfnast þjónustu en fengu hana ekki og iii) þeim sem töldu sig þarfnast þjónustu og fengu hana? 4. Hvað kemur í veg fyrir að kvenstúdentar fái aðstoð vegna sálrænnar vanlíðunar? AÐFERÐ Rannsóknarsnið Gagnagreiningin byggði á þversniðskönnun frá árinu 2018 þar sem upplýsinga var aflað með spurningalista sem sendur var út á netinu. Tekið var slembiúrtak meðal 19-45 ára kvenstúdenta sem stunduðu nám við Háskóla Íslands. Undanskildir voru þeir sem höfðu afþakkað fjölda- pósta og erlendir skiptinemar. Litið var svo á að ef spurningalista var svarað jafngilti það samþykki fyrir þátttöku í rannsókninni. Leyfi fyrir rannsókninni var fengið frá rektor Háskóla Íslands og Vísindasiðanefnd 5. desember, 2017 (VSN-17-220). Til samanburðar og til að svara fyrstu tveimur rannsóknaspurningunum voru niðurstöður frá 2018 bornar saman við niðurstöður sams konar þversniðskönnunar meðal kvenstúdenta frá árinu 2015 (Rúnar Vilhjálmsson, 2015). Spurningalistinn í báðum ofan- greindum könnunum byggði á tveimur undirkvörðum Symptom Check- list-90 (SCL-90), það er þunglyndis- og kvíðakvarðanum, ásamt lýðfræði- legum breytum. Dæmi um þær eru: Aldur, hjúskaparstaða, foreldrastaða, námsstig, og vinna með námi. Kvíðakvarði SCL-90 einkennalistinn inniheldur 10 spurningar en þunglyndiskvarðinn 13 spurningar. Þátttak- endur voru beðnir að svara að hve miklu leyti þeir hefðu upplifað tiltekin einkenni síðastliðna sjö daga á Likert skala sem var á bilinu 0-4. Dæmi um einkenni í kvíðakvarða eru: Skyndileg hræðsla án nokkurrar ástæðu, þungur eða hraður hjartsláttur og þú varst svo eirðarlaus að þú gast ekki setið kyrr. Dæmi um einkenni í þunglyndiskvarðanum eru: Þú varst döpur, þú hafðir engan áhuga á hlutunum og þér fannst allt erfitt. Þátttakandi sem hafði ekki upplifað viðkomandi einkenni fékk gildið 0, en ef upplifun hans á einkenninu var mjög mikil fékk hann gildið 4 (Derogatis o.fl., 1973). Rúnar Vilhjámsson þýddi og forprófaði kvíða- og þunglyndiskvarð- ana, sem eru undirkvarðar SCL-90 einkennalistans (Derogatis o.fl.,1973; Rúnar Vilhjálmsson, 2015). SCL-90 einkennakvarðinn hefur víða verið notaður til að skima fyrir sálrænum einkennum bæði meðal almennings

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.