Lögmannablaðið - 2022, Page 28
28 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/22
allar starfsaðferðir dómstólsins. Þökk sé þeim endurbótum
sem hafa verið gerðar hefur kærumálum fækkað um allt
að 90-100.000. Nú bíða um 71.000 kærumál úrlausnar.
Á þessu sama tímabili var einnig sett upp forgangskerfi
til að flýta meðferð og úrlausn þeirra mála sem eru hvað
þýðingarmest, alvarlegust og mest áríðandi. Samkvæmt
þessu forgangskerfi greinast mál í sjö flokka, frá þeim
teljast mest áríðandi (flokkur I), s.s. mál er varða réttinn
til lífs, bannið við pyndingum eða annarri illri meðferð
eða mál þar sem kærandi er frelsissviptur, til þeirra minnst
mikilvægu (flokkur VII). Mál sem falla í flokka I til III eru að
meginstefnu til afgreidd með dómum eða ákvörðunum sjö
dómara deildar. Mál sem eru samkynja eða eðlislík öðrum
málum sem MDE hefur afgreitt og eru augljóslega ekki tæk
til efnismeðferðar falla í flokka V til VII. Þau eru afgreidd
hratt í gegnum tiltekna síunarferla (filtering mechanisms),
þökk sé starfsaðferðum sem teknar voru upp í Interlaken-
ferlinu. Í dag er ætlunin að beita þessum aðferðum áfram
og jafnframt að gera þær afkastameiri og markvissari.
Hið nýja kerfi „áhrifamála“
Í dag, rúmum áratug eftir að Interlaken-ferlið hófst,
er aðal áhyggjuefnið ekki lengur fjöldi nýrra kærumála
fyrir dómstólnum eða uppsafnaður fjöldi mála sem bíða
afgreiðslu. Lögsaga MDE nær til allt að 820 milljón manns
í 47 aðildarríkjum. Í slíku kerfi verður heildarmálafjöldinn
ávallt umtalsverður, þar sem réttur kæranda til að bera mál
undir dómstólinn er verulega ríkur. Ekki er því lengur
talin þörf á að endurskoða kerfið í grundvallaratriðum;
sjónarhornið hefur breyst. Mælikvarðinn á árangur dóm-
stólsins er nú ekki aðeins sá fjöldi mála sem afgreidd eru,
heldur einnig og jafnvel fremur sá hvernig dómstóllinn
tekur á mikilvægustu málunum. Vitaskuld þarf stöðugt að
halda áfram að leita nýrra leiða til að minnka málahallann
en á sama tíma þarf dómstóllinn að tryggja að hann sé í
stakk búinn til að takast á við mikilvægustu málin innan
hæfilegs tíma.
Stór flokkur mikilvægra kærumála passar ekki inn í neinn
af forgangsflokkunum (I til III). Þar er um að ræða mál
sem alla jafna eru tæk til efnismeðferðar og eru sérstaklega
mikilvæg fyrir viðkomandi kæranda eða aðildarríki, eða
fyrir þróun sáttmálakerfisins, en teljast ekki strangt tiltekið
til efstu forgangsmála í gildandi kerfi. Slík mál hafa til þessa
fallið saman undir forgangsflokk IV, en þau eru nú um
19.000 talsins. Flest mál sem rata fyrir yfirdeild dómstólsins
eru mál sem í upphafi eru skráð í þennan flokk (IV). Þá má
sem dæmi nefna að flest þau íslensku mál sem dæmd hafa
verið af sjö manna deild á undanförnum árum hafa verið
skráð upphaflega í flokk IV, fyrir utan Landsréttarmálið
svokallaða sem var þegar skráð í forgangsflokk II við móttöku
kærunnar og hlaut auk þess flýtimeðferð á grundvelli 41. gr.
málsmeðferðarreglna MDE (Guðmundur Andri Ástráðsson
gegn Íslandi [GC], nr. 26374/18, 1. desember 2020).
Meðal málsmeðferðartími kærumála í flokki IV sem lokið
hefur verið með dómi eða ákvörðun sjö manna deildar,
eftir að greinargerð hefur verið óskað frá aðildarríki
(communication), hefur verið 5-6 ár. Slík staða er ekki
ásættanleg. Af þeim sökum hefur dómstóllinn nú sett á
laggirnar nýtt málsmeðferðarkerfi, frá og með 1. janúar
2021, þar sem kærumál sem falla í flokk IV við skráningu
eru sérstaklega skoðuð með það í huga hvort þau teljist
svokölluð „áhrifamál“ (impact case). Ef svo er, sæta þau
sjálfvirkri flýtimeðferð. Um 600 kærumál hafa nú þegar
verið skilgreind sem áhrifamál, þar á meðal nokkur íslensk
mál. Skilyrði þau sem lögð eru til grundvallar við mat á því
hvort kærumál falli í þennan flokk verða ekki tæmandi
talin. Til dæmis verður litið til þess hvort úrlausn máls
geti orðið til þess að þörf sé á breytingum á lögum eða
framkvæmd laga innan aðildarríkis eða á alþjóðavettvangi.
Þá geta verið uppi spurningar um samfélagsmálefni eða um
tækninýjungar sem dómstóllinn hefur aldrei tekist á við.
Í öðrum tilfellum eru uppi á teningnum nýjar og áleitnar
spurningar um mannréttindi, svo sem í málum á sviði
umhverfismála, málum er varða afleiðingar farsóttarinnar
eða málum þar sem reynir á grunnreglur réttarríkisins,
eins og um sjálfstæði dómstóla.
Þetta nýja málsmeðferðarkerfi MDE stefnir að tveimur
nátengdum markmiðum
Í fyrsta lagi stefnir það að því að hin hefðbundnu forgangs-
mál, í flokkum I til III, og hin nýju áhrifamál, fái meðferð
og úrlausn enn hraðar en nú er. Greina þarf áhrifamál
eins fljótt og auðið er við skráningu og fylgja meðferð
þeirra vel eftir innan dómstólsins. Snögg greining slíkra
mála mun sömuleiðis hafa í för með sér að fyrr verði óskað
greinargerðar af hálfu aðildarríkja sem í hlut eiga. Það
hefur í för með sér stífari eftirfylgni, sem verður að hefjast
um leið og dómstóllinn fær mál til meðferðar. Sá tími sem
líður frá því að mál berst dómstólnum og þar til aðildarríkið
sem í hlut á er beðið um að skila greinargerð verður þannig
styttur eins mikið og mögulegt er. Þegar málsmeðferð milli
aðila hefur hafist og greinargerðum hefur verið skilað verða
málin tekin til umfjöllunar annað hvort af sjö dómara deild
eða af þriggja dómara nefnd. Nefndir verða áfram notaðar
af dómstólnum í einfaldari málum og þær munu beita þeirri