Bændablaðið - 21.07.2022, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 21. júlí 2022
FRÉTTASKÝRING
Vilmundur Hansen
vilmundur@bondi.is
Landbúnaður í stríðshrjáðu landi
– Úkraínski landbúnaðarblaðamaðurinn Iurri Mykhailov segir stöðuna í heimalandi sínu einkennast af fullkominni óvissu
Innrás Rússa í Úkraínu hófst 24.
febrúar síðastliðinn og ekki sér fyrir
endann á þeim átökum enn. Deilur
milli þjóðanna eiga sér langa sögu
sem meðal annars felst í því að Rússar
hernámu og innlimuðu Krímskaga
frá Úkraínu árið 2014. Úkraínski
landbúnaðarblaðamaðurinn Iurri
Mykhailov segir í samtali við
Bændablaðið að ástandið í Úkraínu
einkennist af algerri óvissu.
Úkraína var hluti af rússneska
keisaraveldinu og síðan Sovétríkjunum
þar til Sovétríkin liðuðust í sundur árið
1991. Fyrstu árin eftir að Úkraína hlaut
sjálfstæði var rík spilling í landinu og
tengsl stjórnvalda við Rússland mikil.
Það var ekki fyrr en eftir svonefnda
appelsínugulu byltingu, sem stóð frá
því í nóvember 2004 þar til í janúar
2005, til að mótmæla kosningasvikum
í landinu, að lýðræðisöfl óháð
Rússlandi náðu völdum í landinu.
Brauðkarfa Evrópu
Úkraína er annað stærsta landið í
Evrópu. Íbúar þess eru um 40 milljónir
og þar af búa 30% í sveit. Ræktarland
þar þykir vera eitt það besta í heimi og
talið að í landinu sé að finna um 30%
af allri svartri og bestu ræktunarmold
heimsins, um 42 milljónir hektara.
Úkraína er jafnframt talin vera ein af
vöggum akuryrkjumenningarinnar í
heiminum. Ræktanlegt land á íbúa er
hátt, eða 0,71 hektari, sem er þriðja
hæsta hlutfall í heimi.
Landið er stundum kallað
brauðkarfa Evrópu vegna mikillar
kornræktar. Ræktun á korni og
sólblómum er stórtæk í landinu
og flestir akrar á stærðarbilinu tíu
þúsund til hundrað þúsund hektarar
og umfangið því gríðarlegt. Stærstu
akrarnir eru í eigu stórra alþjóðlegra
landbúnaðarfyrirtækja og moldríkra
landbúnaðarólígarka.
Um það bil 10% af hagkerfi
Úkraínu grundvallast af landbúnaði og
um 30% af útflutningstekjum landsins
fengust fyrir landbúnaðarvörur fyrir
innrás Rússa. Þar af fengust rúm
21% af útflutningstekjunum fyrir
sólblómaolíu, 20% fyrir maís, 14%
fyrir hveiti og 5% fyrir repjufræ.
Ræktunarárið 2020/21 var
Úkraína í sjötta sæti yfir stærstu
útflytjendur hveitis í heiminum
með um 9% heimsframleiðslunnar.
Samkvæmt tölum matvæla- og
landbúnaðarráðuneytis Úkraínu var
heildar kornuppskera landsins á árinu
2021 83,8 milljón tonn. Inni í þeirri
tölu er 32,1 milljón tonn af hveiti
og 40 milljón tonn af korni. Auk
þess sem í landinu er ræktað mikið
af maís, byggi og sólblómum. Fyrir
innrás Rússa flutti landið út um 50%
heimsframleiðslunnar af sólblómaolíu.
Ómældar hörmungar
Auk mannfalls, tilfærslu milljóna
flóttamanna, ónefndra og ómældra
annarra hörmunga í Úkraínu, hefur
innrás Rússa í landið haft gríðarleg
áhrif út fyrir landsteinana, meðal
annars með hækkandi orku- og
matvælaverði um allan heim. Eitthvað
sem ekki hefur farið framhjá bændum
á Íslandi með hækkandi verði aðfanga
eins og áburði og fóðri, auk þess sem
neytendur finna fyrir hækkun orku- og
matvælaverðs.
Fullkomin óvissa
Úkraínski landbúnaðarblaða-
maðurinn Iurri Mykhailov, annar
af tveimur fulltrúum Úkraínu á
Alþjóðaþingi landbúnaðarblaðamanna
í Danmörku fyrir skömmu, segir í
samtali við Bændablaðið að best væri
að lýsa ástandinu í Úkraínu þannig að
það einkenndist af algerri óvissu.
„Við vitum ekki hvenær stríðinu
lýkur, hver útkoma þess verður eða
hversu mikla skemmdirnar og skaði
verður í kjölfar þess.“
Verð fyrir land lágt
Fjöldi býla er mikill í Úkraínu og
stærð þeirra er mjög breytileg. „Til
lítilla búa teljast býli sem eru um 100
hektarar að stærð en svo eru jarðir í
eigu stórra landbúnaðarfyrirtækja
nokkur hundruð þúsund hektarar að
stærð. Auk korns rækta sum þessara
stóru fyrirtækja sólblóm og framleiða
sína eigin sólblómaolíu og eru með
gríðarlega stóra korngeymslur.
Verð fyrir land í Úkraínu hefur lengi
verið lágt miðað við land í Evrópu og
mikið um að stór landbúnaðarfyrirtæki
hafi keypt upp stór svæði og hafið
ræktum á sólblómum og korni þar.“
Birgðir af korni
Mykhailov segir að ef horft sé til áhrifa
stríðsins á landbúnað í Úkraínu þá sitji
þjóðin uppi með rúmlega 20 milljón
tonn af korni af uppskeru síðasta árs
sem ætlað var til útflutnings. „Við
eðlilegar aðstæður er 95% af öllu korni
flutt út sjóleiðina en vegna þess að
Rússar hafa lokað höfnunum er það
ekki hægt.“ Hann segir að reynt sé
eftir megni að flytja það sem hægt er af
korninu út með lestum og vörubílum til
Evrópu en flutningageta sé takmörkuð.
„Breiddin milli öxla úkraínskra
járnbrautalesta er önnur en í löndum
Evrópusambandsins og því ekki
hægt að aka úkraínskum lestum yfir
landamærin og áfram á evrópskum
lestarteinum. Annaðhvort verður því
að flytja kornið á milli lesta eða skipta
um öxla undir lestunum. Skiljanlega
veldur þetta miklum töfum á flutningi á
korninu, um allt að þremur mánuðum,
sem er skelfilegt. Í dag er afkastageta
lestanna um 1,5 til 2 milljón tonn á
mánuði sem er fjórum sinnum minna
en hægt er að flytja út með skipum við
eðlilegar aðstæður,“ segir Mykhailov
Hvað flutninga með vörubílum
varðar er ástandi ekki skárra.
„Samkvæmt lögum Evrópu-
sambandsins þurfa allir vörubílar sem
notaðir eru til flutninga innan þess að
fá vottun á þriggja ára fresti en slíkar
reglur gilda ekki um vöruflutningabíla
í Úkraínu. Fjöldi kornflutningabíla og
bílstjóra í landinu er heldur ekki nægur
til að flytja allt þetta korn. Reglur
Evrópusambandsins gera einnig ráð
fyrir að í hverjum flutningabíl sem
ekur yfir ákveðna vegalengd þurfi að
vera tveir bílstjórar með réttindi og
að þeir geti tjáð sig á að minnsta kosti
einu evrópsku tungumáli.
Auk þess sem hverjum bíl þurfa að
fylgja ýmiss konar vottorð. Afgreiðsla
bílanna er líka hæg, raðir langar og
biðin til að komast yfir landamærin
allt að tvær vikur.“
Ný uppskera
Að sögn Mykhailov er uppskera korns
þessa árs hafin í Úkraínu og búist er
við að hún verði yfir meðallagi og
einhvers staðar á bilinu 60 til 70
milljón tonn.
„Geymslugeta í landinu er ekki
næg til að taka á móti öllu því magni til
viðbótar við þau 20 milljón tonn sem
fyrir eru. Ástandið er því þannig að
Úkraínumenn vita ekki hvað þeir eiga
að gera við uppskeruna á meðan ekki
er hægt að flytja hana úr landi. Til að
Landbúnaður á stríðstímum. 10% af hagkerfi Úkraínu grundvallast af landbúnaði og 30% af útflutningi landsins eru landbúnaðarvörur. Mynd / inthesetimes.com
Úkraínski landbúnaðarblaða-
maðurinn Iurri Mykhailov. Mynd / VH
Rússar hafa víða komið fyrir jarðsprengjum á korn- og sólblómaökrum og
bændur því hræddir við að vinna og uppskera á ökrunum og víða hefur verið
hætt við að uppskera á svæðum þar sem vitað er um jarðsprengjur.
Mynd /The stadte emergenscy of Ukraine.
Jarðsprengjuvari á hveitiakri. Mynd / Genya Savilow