Bændablaðið - 21.07.2022, Blaðsíða 10
10 Bændablaðið | Fimmtudagur 21. júlí 2022
FRÉTTIR
Landbúnaðartæki, björgunartæki og búnaður
Svansson ehf
Sími : 697-4900 ● sala@svansson.is ● www.svansson.is
ZipWake er bylting í stöðugleikabúnaði fyrir báta.
Búnaðurinn sjálfvirkur og virkar 5 til 10 sinnum hraðar en
hefðbundnir flapsar og er með innbyggðum gíró og GPS.
Samstarf Nova og Ljósleiðarans:
Aðgengi að ljósleiðara aukið
Nova og Ljósleiðarinn hafa
undirritað samning um nýtingu
ljósleiðara á landsvísu, sem mun
flýta fyrir uppbyggingu 5G.
Uppbyggingunni verður
sérstaklega hraðað á Vestfjörðum
og Norðausturlandi. Þá hafa 65
sendar þegar verið settir upp í öllum
landshlutum og er áætlað að þeir
verði orðnir 200 árið 2024.
„5G Nova er nú þegar komið
upp í öllum landshlutum og mun
eflast hratt á næstu mánuðum þar
sem samstarf félaganna gegnir
lykilhlutverki. Fleiri og öflugri
sendar auka öryggi landsmanna.
Nova hefur fjárfest umtalsvert
í innviðum sínum á síðustu árum
sem hefur gert félaginu kleift að
stíga mikilvæg skref sem þessi
og halda áfram að vera leiðandi
og í fremstu röð í innleiðingu
5G á Íslandi,“ segir Margrét
Tryggvadóttir, forstjóri Nova.
99,9% þjóðarinnar
með aðgengi að ljósleiðara
Samstarf Nova og Ljósleiðarans
ýtir enn frekar undir það markmið
stjórnvalda að fyrir árslok 2025 verði
99,9% þjóðarinnar með aðgengi
að ljósleiðara.
„Aðgengi heimila, fyrirtækja og
stofnana að öruggum fjarskiptum
er mikilvægt í nútímasamfélagi.
Uppbygging þessara innviða gegnir
mikilvægu hlutverki í aukinni
samkeppni á fjarskiptamarkaði
og ekki síst fyrir heildsölu- og
stórnotendur á landsbyggðinni,“
bætir Margrét við.
„Við ætlum að leggja ljósleiðara-
kerfi, sem getur borið yfir 1.000
þræði um allt land og með því
fá allir landsmenn betra aðgengi
og öruggari fjarskiptaþjónustu,“
segir Erling Freyr Guðmundsson,
framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
Að sögn hefur Nova verið í
fararbroddi í innleiðingu nýjustu
tækni og er komið lengst í
uppbyggingu 5G á Íslandi.
Ljósleiðarinn samdi nýverið við
utanríkisráðuneytið um afnot af
tveimur af átta ljósleiðaraþráðum í
ljósleiðarastreng NATO. Sá strengur
liggur hringinn í kringum Ísland og
til Vestfjarða. /MHH
Erling Freyr Guðmundsson frá Ljósleiðaranum (t.v.), ásamt Margréti
Tryggvadóttur og Benedikt Ragnarssyni frá Nova. Mynd/Gunnar Svanberg
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið:
Hringrásarhagkerfi
Íslands styrkt
Umhverfis-, orku- og loftslags-
ráðuneytið úthlutaði fyrir
skömmu 230 milljónum króna til
22 verkefna sem ætlað er að efla
hringrásarhagkerfið á Íslandi.
Hæstu styrkir sem veittir eru
til einstakra verkefna eru 20
milljónir króna.
Hringrásarhagkerfi er flokkað
sem hagkerfi þar sem vörur, hlutir
og efni halda verðmæti sínu og
notagildi eins lengi og mögulegt
er. Innan kerfisins er hönnun og
framleiðslu vöru þannig háttað að
hún endist lengi og auðvelt er að
gera við hana og endurvinna og
er deiliþjónusta nýtt og neytendur
endurnota vörur. Verði vara að
úrgangi innan kerfisins tekur
við skilvirk flokkun, söfnun
og endurvinnsla sem heldur
hráefnum í hringrás. Markmið
hringrásarkerfisins er að draga
úr auðlindanotkun, auka líftíma
auðlinda og koma í veg fyrir að
efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu
sem úrgangur.
Fjölbreytt verkefni
Verkefnin sem hlutu styrk að þessu
sinni eru af margvíslegum toga
og til marks um mikinn áhuga á
hringrásarhagkerfinu um allt land.
Heildarstyrkupphæðin var 230
milljónir króna, þar af er 141 milljón
veitt vegna nýsköpunarverkefna
og 89 milljónir vegna annarra
verkefna.
Meðal verkefna sem ráðu neytið
styrkir sem hluta af hringrásar-
hagkerfinu eru: Græn efnavara
úr úrgangi og útblæstri, Notkun
plastúrgangs í stað kola í kísilmálms-
og málmblendiframleiðslu,
Endur-vinnsla á sláturúrgangi,
Endurnýting byggingarefna á
Íslandi og Blöndun kjötmjöls og
mykju við áburðardreifingu.
Innleiðing hringrásarhagkerfis
mikilvæg
Í tilkynningu vegna úthlutunar
styrkjanna er haft eftir Guðlaugi
Þór Þórðarsyni umhverfis-, orku-
og loftslagsráðherra að innleiðing
hringrásarhagkerfis sé mikilvægur
liður í að Ísland nái markmiðum
sínum í loftslagsmálum.
„Það er því ánægjulegt og veitir
tilefni til bjartsýni að skynja hversu
mikill áhugi er á þessum málaflokki
og verður áhugavert að fylgjast með
framþróun þeirra verkefna sem hér
hljóta styrk.“ /VH
Hringrásarhagkerfi er flokkað sem
hagkerfi þar sem vörur, hlutir og efni
halda verðmæti sínu og notagildi
eins lengi og mögulegt er.
Mynd / www.ssne.is
Kemur næst út
25. ágúst
Landgræðslan vill fá almenning í lið með sér:
Sjálfboðaliðar vakta landið
Landvöktun – Lykillinn að betra
landi er nýtt verkefni sem var hleypt
af stokkunum í síðasta mánuði á
vegum Landgræðslunnar.
Því er ætlað að virkja almenning
í því að vakta og safna gögnum
um ástand lands. Vonast þau til
að öll þau sem hafa áhuga á eða
nýta náttúruleg svæði á einn eða
annan hátt leggi fram krafta sína í
gagnaöflun. Með þessu er stefnt að
því að safna nægum gögnum til þess
að auka sjálfvirkni og áreiðanleika
tölvukerfa sem meta ástand lands
út frá gervihnattamyndum. Þetta
kemur fram í fréttatilkynningu frá
Landgræðslunni.
Hluti af GróLind
Við framkvæmd og skipulagningu
verkefnisins er unnið eftir
hugmyndafræði lýðvísinda
(e. citizen science). Þannig
getur almenningur með hjálp
snjalltækninnar safnað miklu magni
af gögnum með litlum tilkostnaði.
Notast er við smáforritið Survey123
til þess að vakta árlega svæði sem
er 50 metrar í þvermál. Þátttakendur
merkja miðju vöktunarsvæðisins
með staur frá Landgræðslunni og
fylgja aðferðarfræði sem auðvelt er
að læra.
Þetta verkefni er hluti af
verkefninu GróLind sem Land-
græðslan hefur unnið að undanfarin
ár. Í því verkefni er notast við
fjölbreyttar aðferðir við gagnaöflun
til þess að meta ástand lands og eru
lýðvísindi ein aðferð af nokkrum.
Aðrar aðferðir eru til að mynda
varanlegir vöktunarreitir sem
starfsfólk Landgræðslunnar kannar á
fimm ára fresti og notkun loftmynda
ýmist frá gervitunglum eða drónum.
Landgræðslan vonast til
þess að sem flestir taki þátt í
þessari gagnaöflun, en þetta er
sérstaklega viðeigandi fyrir bændur,
landeigendur, ferðafólk og landverði.
Skilyrði er að vöktunarsvæðið
sé einsleitt og náttúrulegt. Með
einsleitni er átt við að svæðið sé
ekki á mörkum tveggja vistgerða.
Skógrækt, tún, akrar og græn svæði í
byggð falla ekki undir skilgreiningu
Landgræðslunnar um náttúruleg
svæði.
Fylgjast með og hafa áhrif
„Þarna er komið tækifæri fyrir
fólk til að fylgjast með landinu
sínu með skipulögðum hætti, sjá
árangur af uppgræðslu, glöggva
sig á þróun gróðurfars og hafa
bein áhrif á þá þekkingu sem við
erum að skapa á hverjum degi,“
segir Jóhann Helgi Stefánsson,
umhverfis- og auðlindafræðingur
hjá Landgræðslunni sem stjórnar
verkefninu.
Áhugasömum er bent á að
skoða kynningarmyndbönd sem
Landgræðslan hefur sett á youtube.
com, en þau er hægt að finna með
því að nota leitarorðið „landvöktun“.
Einnig er hægt að hafa samband við
Jóhann Helga sem stýrir verkefninu í
síma 866-7119 eða með því að senda
póst á netfangið johannhelgi@land.
is. /ÁL
Jóhann Helgi Stefánsson.
Almenningur getur með hjálp snjalltækninnar safnað miklu magni af gögnum án mikils tilkostnaðar.