Fréttablaðið - 23.02.2023, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 23.02.2023, Blaðsíða 12
 Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgar- stjórn Reykjavíkur Nýlega er afstaðinn fundur með ungmennaráðum í borgarstjórn sem er árlegur viðburður. Í annað sinn á stuttum tíma leggur ung- mennaráð fram tillögu um að aðgengi að sálfræðingum verði stórbætt. Flokkur fólksins hefur margsinnis sl. 5 ár lagt fram sam- bærilegar tillögur og þá bent á hvað þurfi að gera til að aðgengi barna að fagþjónustu skóla verði bætt. Biðlisti barna í grunnskólum Reykjavíkur eftir þjónustu einna helst sálfræðinga og talmeinafræð- inga er nú 2.291 sem bíða eftir fyrstu og frekari þjónustu frá fagfólki skólanna. Árið 2018 biðu um 400 börn. Hægt er að fylgjast með bið- listatölum á vef Reykjavíkurborgar (velstad). Fyrir tveimur vikum var þessi tala 2.049 börn. Okkur  í Flokki fólksins finnst það átakanlegt að hlusta á kall barnanna sem því miður kalla bara út í tómið. Ég sem sálfræðingur til meira en 30 ára og skólasálfræð- ingur um 10 ára skeið vil sjá sál- fræðingana vera hluta af menningu skólanna, með aðsetur í skólum og að börnin, foreldrar og kennarar hafi auðvelt aðgengi að þeim. Með því að hafa sálfræðingana staðsetta á Miðstöðvum hefur myndast gjá á milli barna og sál- fræðiþjónustu og hana þarf að brúa. Ef aðsetur allra sálfræðinga væru í skólunum sjálfum gætu þeir betur sinnt ráðgjöf við kennara og starfs- fólk og verið til taks komi upp erfið mál. Tími sálfræðinganna myndi nýtast betur og fjármagn sparast. Sem borgarfulltrúi stóð ég í þeirri meiningu að þegar verkefnið Betri borg fyrir börn var sett á laggirnar, fyrst í Breiðholti, ætti að færa sér- fræðiþjónustu meira út í skólana enda hafa skólastjórnendur kallað eftir því í mörg ár. Hlutverk sálfræðinga eins og það gagnast börnum best Hlutverk skólasálfræðinga ætti að vera fyrst og fremst að vera nálægt börnunum: Þeir ættu reglulega að ganga í bekkina í for- varnarskyni, ræða við börnin um einelti og bjóða foreldrum einnig upp á reglulega fræðslu. Starf skólasálfræðinga er afar marg- breytilegt en felur í megindráttum í sér ráðgjafarviðtöl, skimun, grein- ingu, fræðslu, og stuðning, eftirfylgd með málum og aðra aðkomu vegna vanda barna í leik- og grunnskólum. Horfa verður á þá staðreynd að vanlíðan og óhamingja barna hefur verið að aukast síðustu miss- eri og hefur það verið staðfest með fjölda rannsókna m.a. frá Embætti landlæknis og Velferðarvaktinni sem hefur gert reglulegar kann- anir. Nýlega kom út ársskýrsla vel- ferðarsviðs. Í skýrslunni eru birtar upplýsingar um algengustu ástæður tilvísana eftir faglegri þjónustu fyrir börn og af hverju unglingar leita eftir viðtölum við sálfræðinga. Langmesta aukningin milli ára er vegna tilfinninga- og félagslegs vanda eða um 63%, og vegna mál- þroskavanda, 62%. Börnum með hamlandi einbeitingarvanda hefur fjölgað frá 280 í 456 börn. Fjölgun tilvísana/beiðna vegna vitsmuna- þroskavanda hefur einnig aukist t.d. vegna lesskilningsvanda. Börn í vanda og vanlíðan þurfa aðstoð sálfræðinga. Birtingar- myndir vanlíðanar barna og ungl- inga er kvíði, þunglyndi, skóla- forðun og sjálfsskaði en sjálfsskaði hefur færst í vöxt meðal barna. Börn sem stunda sjálfsskaða fela atferlið iðulega fyrir foreldrum eins og þau geta. Nýjustu rannsóknir sýna að um 18% unglinga stunda sjálfs- skaða. Vandinn hverfur ekki þótt hunsaður Ef tilfinninga-, vitsmuna- og/eða félagslegur vandi barna er huns- aður, hverfur hann ekki. Því lengur sem börn bíða án nauðsynlegrar þjónustu vegna sálræns vanda aukast líkur á að vandinn versni og verður þá enn flóknari og erfiðari viðureignar. Ef barn fær ekki hjálp við hæfi er hætta á að sjálfsmyndin bíði hnekki. Verið er að leika sér að eldinum með því að láta börn bíða eftir viðeigandi aðstoð við sál- rænum vanda sem og öðrum vanda að sjálfsögðu. Biðin er foreldrunum ekki síður erfið og óvissan með öllu óþolandi. Fjölmörg dæmi eru um að börn hafa beðið í allt að 2 ár á biðlista eftir sálfræðiaðstoð skólanna sem er lögbundin þjónusta. Mörg hafa útskrifast án þess að fá faglega þjónustu eða jafnvel fyrstu hjálp. Efnaminni foreldrar hafa ekki ráð á að kaupa þjónustu sjálfstætt starf- andi sálfræðinga. Líklegt má telja að ákveðinn hópur barna með náms-, félags- og tilfinningalegan vanda haldi út í lífið án þess að hafa fengið nokkra aðstoð. n Ungmennaráðin kalla eftir sálfræðingum skólanna Fjölmörg dæmi eru um að börn hafa beðið í allt að tvö ár á biðlista eftir sálfræðiaðstoð skólanna sem er lög- bundin þjónusta. Innri hvatning ýtir undir sjálfbærni og leiðir til meiri sköp- unar, ánægju og vel- líðanar. Viðar Eggertsson varaþingmaður Samfylkingarinn- ar, jafnaðarflokks Íslands „Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá“, segir í ljóði Davíðs Stef- ánssonar. Það má með sanni segja um elsta hluta íslensku þjóðarinnar. Eftirlaunafólkið sem er rúmlega 50 þúsund. Þetta er fólkið sem fæddist í og upp úr kreppunni, þraukaði umrót seinni heimsstyrjaldarinnar og byggði upp þjóðfélagið frá örbirgð til allsnægta. Fólkið sem umbreytti þjóðfélaginu frá því að vera fátæk þjóð á hjara veraldar í að vera ein af ríkustu þjóðum heims. Þetta er fólkið sem fær á sig óæski- lega og niðrandi stimpla eins og „fráf læðisvandi“. Vandi, sem er í rauninni ekkert annað en kerfis- vandi sem núverandi stjórnvöld bera fulla ábyrgð á. Allt önnur kyn- slóð. Þetta er fólkið sem talað er um af óvirðingu sem þurfalinga og bagga á þjóðfélaginu, þetta er þó fólkið sem borgar hæstu skattprósentuna af litlum launum sínum til þjóð- félagsins, í formi allskyns skerðinga og jaðarskatta. Þetta er fólkið sem greiðir marga tugi milljarða til nærsamfélags síns í formi útsvars, sem er svo mikilvægt framlag að sum sveitarfélög væru ekki á vetur setjandi án þessa fólks, enda er þetta mun hærri upphæð en þetta sama fólk kostar þessi sömu samfélög. Þau eru enn miklu meira en sjálfbær, þetta fólk. Þetta er fólkið sem er úthrópað sem ógn við þjóðfélagið af því að því fer fjölgandi, en þó er íslenska þjóðin sú yngsta í Evrópu og verður svo á næstu árum. Þetta er fólkið sem fer síðast allra í Evrópu, ásamt norskum eldri borg- urum, á eftirlaun. Aðeins í þessum tveim löndum er eftirlaunaaldur almennt 67 ár, sá hæsti í Evrópu. Þetta er fólkið sem byggði upp vel- ferðarþjóðfélagið, en á nú undir högg að sækja í velferðarþjóðfélaginu. Þetta fólk er ekki baggi á íslensku þjóðfélagi. Þetta fólk hefur unnið langan vinnudag, á langri starfsævi og er enn að skila sínu til samfélags- ins, og það af naumum tekjum sínum. Þetta er fólkið sem reisti Ísland úr örbirgð til allsnægta, en þús- undir þeirra þurfa að hverfa aftur til þeirra kjara sem þau bjuggu við í upphafi. Þau eru aftur sett á byrj- unarreitinn frá því fyrir miðbik síðustu aldar, þegar þjóðin öll var fátæk. Hættum að tala niður til þessa fólks. Tölum við það og um það, af virðingu og ábyrgð. Við höfum ekki efni á að fara illa með þetta fólk. Við höfum ekki efni á öðru en að gera þeim kleift að lifa mann- sæmandi lífi. Þau geta ekki beðið. Hefjumst handa strax. Þau eiga það inni. Þau kveiktu eldinn. Þau eiga að njóta hans. n Þau kveiktu eldinn og eiga að njóta hans  Eitt af mikilvægustu hlutverkum kennara er að spila inn á áhugahvöt nemenda til að þeir nái árangri í námi. Verðlauna- og refsikerfi eru dæmi um ytri hvatningu sem er mikið notuð í skólum og uppeldinu. Þótt ytri hvatning geti verið áhrifarík til skamms tíma virkar hún lítið sem ekkert til að auka áhuga nemenda á náminu. Ytri hvatning dregur frekar úr áhuga og hafa margar rannsóknir sýnt fram á að hún geti jafnvel bælt niður innri áhugahvöt. Við erum öll fædd með innri áhuga á að læra og það er hægt að virkja þessa áhugahvöt aftur með ákveðnum verkfærum. Ingrid Kuhlman og Helga Marín hafa um árabil sérhæft sig í að miðla þekkingu fyrir vinnustaði, skóla og aðra hópa, m.a. með námskeiðum og fyrirlestrum. Helga segir frá reynslu sem var upphafið að áhuga hennar á að inn- leiða innri hvatningu í skólana. „Fyrir nokkrum árum síðan sett- ist ég aftur á skólabekk 20 árum eftir að hafa lokið BA í bæði sálfræði og heilsufræði. Ég fór í meistaranám í háskólanum til að bæta við mig þekkingu og öðlast frekari færni í starfi. Ég hef unun af því að læra og því beið ég spennt eftir að byrja námið. Sú spenna og gleði var ekki langlíf og fljótlega upplifði ég áhugann á náminu byrja að dvína. Ég minn- ist eins áfanga þar sem ég gat ekki haldið athyglinni í kennslustundum. Ég var farin að halda að ég væri með svona mikinn athyglisbrest þegar ég tók eftir því að allir samnemendur mínir voru með ýmsa vefmiðla opna og voru ekkert að fylgjast með. Ég var greinilega ekki sú eina sem átti erfitt með að halda athyglinni. Í allri sanngirni verð ég að segja að það voru nokkrir áfangar sem mér fannst virkilega gagnlegir og skemmtilegir en þeir voru færri en þeir áfangar sem ég strögglaði í gegnum. Fljótlega tók ég eftir því hvernig námið fór að snúast meira og meira um að fá hátt á prófum en að afla mér þekkingar. Ég stóð sjálfa mig að því að vera að læra undir próf í staðinn fyrir að læra fyrir sjálfa mig. Pressan fór að gera vart við sig og ég upplifði svokallað „deja vu“ þegar ég horfði til baka og minntist þess að hafa upplifað mikla pressu og van- líðan í skólanum þegar ég var yngri. Ég tók ákvörðun, skítt með þessi próf hugsaði ég, héðan í frá ætla ég einungis að lesa og læra það sem ég hef áhuga á þótt ég fái lélegar ein- kunnir. Ég ætla að læra fyrir mig, ekki fyrir próf. Það sem kom veru- lega á óvart var að með breyttu hugarfari hækkuðu einkunnirnar í staðinn fyrir að lækka. Ég velti því mikið fyrir mér hvað gerði suma áfanga skemmtilega og aðra leiðinlega en það var ekki fyrr en ég fór í jákvæða sálfræði að ég uppgötvaði hver lykillinn væri. Þeir kennarar sem kenndu „skemmti- legu“ áfangana í háskólanum nýttu innri hvatningu í miklum mæli á meðan þeir sem kenndu „leiðinlegu“ áfangana nýttu enga hvatningu eða ytri hvatningu. Þessi uppgötvun varð til þess að ég fylltist áhuga á að kenna hvernig nýta megi innri hvatningu í kennslu og fékk ég í lið með mér Ingrid Kuhlman. Hver er munurinn á ytri og innri hvatningu? Það eru til tvær tegundir hvatningar sem knýja okkur til að gera eitt- hvað, ytri og innri hvatning. Sú ytri er knúin áfram af ytri þáttum eins og verðlaunum, viðurkenningu, þrýst- ingi eða hegningu frá öðrum. Gott dæmi um ytri hvatningu í skólum er þegar nemandi lærir til að ná próf- unum eða til að fá háar einkunnir. Innri hvatning vísar aftur á móti til þess að taka þátt í einhverju vegna þeirrar lífsfyllingar sem athöfnin hefur í för með sér. Dæmi um innri hvatningu í skólum er þegar nem- andi lærir af því að hann hefur áhuga á námsefninu eða sér tilgang með því að læra það. Af hverju innri hvatning? Innri hvatning ýtir undir sjálfbærni og leiðir til meiri sköpunar, ánægju og vellíðanar. Því getur innri hvatn- ing stuðlað að ævilangri lærdóms- ást. Þótt ytri hvatning geti stundum þjónað mikilvægu hlutverki, getur hún haft neikvæð áhrif ef hún er eina aðferðin sem beitt er og í ákveðnum aðstæðum getur hún jafnvel dregið úr innri áhugahvöt. Grunnskólinn Nú býður kenn- urum og foreldrum upp á frítt nám- skeið í skólanum í samstarfi við Ingrid Kuhlman og Helgu Marín 2. mars kl. 16.30-17.45. Þar verður farið í verkfæri til að kveikja á áhugahvöt nemenda og hvernig nýta megi þau í auknum mæli í kennslu og upp- eldinu. Frekari upplýsingar um námskeiðið er að finna á heimasíð- unni  helgamarin.com/upcoming- events/. n Kveikjum neistann hjá nemendum Helga Marín heilsu- og íþrótta- fræðingur/mark- þjálfi Ingrid Kuhlman framkvæmda- stjóri 12 skoðun FRÉTTABLAÐIÐ 23. FeBRúAR 2023 FIMMTuDAGuR

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.