Bændablaðið - 03.11.2022, Blaðsíða 24
24 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. nóvember 2022
ÁHUGALEIKHÚS Á ÍSLANDI
Áhugaleikhúsið Hugleikur ber nú
á borð sex einþáttunga sem hreyfa
vel við áhorfendum. Hafa þeir allir
komið fyrir augu fólks áður, yfir
árin, en þó aldrei allir saman.
Um ræðir verk Júlíu Hannam
sem hefur getið sér afar gott orð
á þeim vettvangi.
Júlía Hannam er höfundur þess
sem gleðja mun áhorfendur og
aðdáendur Hugleiks nú í nóvember-
byrjun, en sjálf lærði hún leiklist í
San Francisco á árum áður – rétt
eftir menntaskóla. Aðspurð segist
Júlía þó ekki hafa farið á svið
sjálf fyrr en í kringum 1994, þá
með áhugaleikfélaginu Leyndir
draumar þar sem hún sinnti lengi
formannsstöðu og gekk um fimm
árum síðar til liðs við Hugleik.
Fjölskyldan var í forgrunni þó
leiklistarbakterían hafi alltaf verið
í blóðinu og því kom sér vel að
standa á sviði áhugaleikhúss, enda
vart hægt að hugsa sér skemmtilegra
tómstundagaman. Í dag er Júlía ein
þeirra mætu leikkvenna starfandi
undir hattinum Leiklistarkonur 50+
og þar er margt skemmtilegt fram
undan.
Einþáttungarnir sex
„Ástæðan fyrir því að einþáttungarnir
sex eru settir á svið,“ segir Júlía, „er
sú að mig langaði að styðja Hugleik,
mitt gamla félag. Hugmyndina fékk
ég frá góðri vinkonu sem gerði slíkt
hið sama, nú síðastliðið vor, þá í
tilefni stórafmælis hennar. Mér þótti
þetta svo sniðugt – og átti nægt til
í sarpinum sem hafði komið áður á
fjalirnar og þótt skemmtilegt. Þannig
ég valdi nokkra einþáttunga með
aðstoð góðra kvenna og þykir gaman
af því að þeir fái að lifna aftur við
á sviðinu, jafnframt því að styrkja
gott málefni.“
Í öruggum heimi
Við völdum semsagt alls sex þætti
undir nafninu „Í öruggum heimi“
sem er auk heldur nafn á einum
þættinum. Fjallar sá um að í raun er
ekki allt sem sýnist. Ekki allt í hendi
eins og menn vilja gjarnan ætla.
Leikstjórinn er Hrefna Friðriksdóttir.
Síðan er verkið „Leit“. Því
leikstýrir einn stofnfélagi Hugleiks
og aldursforsetinn, rétt rúmlega
áttræð, hún Unnur
Guttormsdóttir. Fjallar
„Leit“ um unga stúlku
sem leitar að afa sínum.
Næst má nefna verkið
„Ég hefði ekki átt að segja þér þetta“
en þar er tekin fyrir sú hugmynd um
að oft megi satt kyrrt liggja. Fólk
lítur jafningja sína oft öðrum augum
er þeir heyra af þeim sögur, sannar
eða ekki.
Verkið „Stóllinn“ fjallar um
vaktaskipti og er í leikstjórn
Hrundar Ólafsdóttur. Svo eru það
„Heilladísir“ sem Dýrleif Jónsdóttir
stýrir. Þar er greint frá upplifun fólks
á lífinu, sumir gefast upp á meðan
aðrir halda í von um hamingju og
betri tíð. Að lokum kemur svo „Hver
er þessi Benedikt?“ í leikstjórn
Ástu Gísladóttur og er um firringu
markaðsaflanna.
Kvöldstund með meiru
Einþáttungana samdi Júlía yfir um
10 ára tímabil og geta þeir sem áður
hafa fengið að njóta þeirra á sviðinu
hlakkað til að sjá verkin nú í nýjum
búningi. Verða sýningar þann 4. og
5. nóvember klukkan 20 í Funalind
2, húsnæði Leikfélags Kópavogs.
Miða er hægt að finna og panta á
heimasíðu Hugleiks, www.hugleikur.
is og kostar 2.000 kr. Annars verður
posi á staðnum og einnig hægt að
greiða með peningum. Er Hugleikur
eitt þeirra áhugaleikhúsa sem naut
ekki góðs af styrk frá borginni nú
í ár og því um að gera að taka frá
kvöldstund, njóta góðrar sýningar,
sýna sig og sjá aðra. /SP
Hugleikur:
Í öruggum heimi
Júlía Hannam, leikkona og handverks-
höfundur.
Söguna vinsælu úr 1001 nótt um
hann Aladín þekkja flestir. Þar
eru í aðalhlutverki þeir fé-
lagar Aladín og andinn í töfra-
lampanum … en einnig hin frábæra
Jasmín prinsessa.
Færri vita kannski að upprunalega
hét prinsessan Badroulbadour, en
nafn hennar þýðir fullt tungl – sem
er tákn austrænnar fegurðar.
Ævintýrið hafa nú liðsmenn
leikfélags Borgar í Grímsnesi sett
upp en þó með nýjum brag.
Ævíntýri Sindra Mjölnis
Tók félagsmaðurinn Sindri Mjölnir
sig til og endurskrifaði söguna
frá sjónarhorni prinsessunnar
Badroulbadour – listavel og nokkuð
sem enginn ætti að láta framhjá
sér fara. Leikrit Aladíns hefur
ekki farið á fjalirnar áður þar sem
saga Aladíns og Jasmínar er í eigu
Disney en með nýjum vinkli geta
áhorfendur glaðst yfir sögunni sem
þeir þekkja svo vel.
Kemur virkilega á óvart
Í samtali við Guðnýju Tómasdóttur
formann kemur fram að með þessari
nýju aðalpersónu og nýja sjónarhorni
er ævintýrið bæði nútímavætt og
kemur virkilega á óvart.
Leikritið er ætlað ungum jafnt
sem öldnum og sýnt á misjöfnum
tíma sólarhringsins, til að koma
til móts við öll aldursskeið. Hvað
varðar leikarana eru þeir 15 talsins,
sá elsti um áttrætt og sá yngsti um
sjötíu árum yngri, eða tólf ára.
Meðal þeirra finnast lærðir
leikarar, áhugamenn af hjarta og
sál og í raun öll flóran. Frumsýnt
verður þann 12. nóvember.
Miðasalan verður á tix.is en ná
sýningar fram í desember þar sem
út dettur ein helgi í nóvember. / SP
Leikfélagið Borg:
Ævintýrið mikla ... frá öðru sjónarhorni
Höfundurinn og leikstjórinn Sindri Mjölnir í gervi Aladíns. Þarna má sjá Andann Ingu Söndru Hjartardóttur og Apann Thelmu Sif
Jóhannesdóttur ásamt Aladín á æfingu.
Leikfélag Fjallabyggðar sýnir nú nýtt leikrit eftir Guðmund Ólafsson,
sem jafnframt er leikstjóri.
Verkið heitir BIRGITTA KVEÐUR og er sagt vera „sakamálaleikrit
með gamansömu ívafi“. Æfingar hófust 12. september, frumsýningin
var 28. október. Leikritið gerist á einu föstudagssíðdegi og -kvöldi í litlu
innflutningsfyrirtæki, sem hefur sérhæft sig í innflutningi frá Kína. En þetta
er ekki venjulegur dagur því um kvöldið á að kveðja elsta starfsmanninn,
hana Birgittu, sem er að láta af störfum vegna aldurs. Er af því tilefni slegið
upp kveðjuveislu. Er óhætt að segja að kvöldið verði viðburðaríkt og óvæntir
atburðir gerist þannig að kalla þarf til lögreglu.
Þrettán leikarar taka þátt í sýningunni auk baksviðsfólks af öllu tagi.
Ljósameistari er Anton Konráðsson.
Þetta er fimmta leikritið sem Guðmundur skrifar sérstaklega fyrir
leikfélagið og hefur hann jafnfram leikstýrt þeim öllum. Eitt þeirra,
„Stöngin inn!“, var valin áhugaverðasta áhugaleiksýningin árið 2013 og
sýnd í Þjóðleikhúsinu.
Sýningar standa yfir í Menningarhúsi Fjallabyggðar, Tjarnarborg í
Ólafsfirði og eins og staðan er núna verða næstu sýningar nóvembermánaðar
þann 3., 6., 10. og 11. klukkan 20.00. Almennt miðaverð er kr. 3.500 en eldri
borgarar, öryrkjar og grunnskólabörn borga 3.000 kr. Miðapantanir eru hjá
þeim Guðrúnu Unnsteinsdóttur í síma 863-2604 og Vibekku í síma 849-5384.
Leikfélag Fjallabyggðar:
Birgitta kveður
Guðrún Elísabet Guðmundsdóttir í hlutverki Árnýjar verkstjóra, Margrét
Kristinsdóttir, eða Magga á lagernum, og Ólöf Rún Ólafsdóttir símadama.
Hér má sjá þau Hafdísi Ósk Kristjánsdóttur og Sigmund Agnarsson sem hina
norskættuðu tvíbura, Luffe og Lillemor, frændsyskini forstjórans.
Viðtökur á efni leikfélagsins Hugleiks hafa ætíð verið
frábærar, sumar frábærari en aðrar, sbr. þessa stuttfrétt
haustið 1998 í tbl. Degi.
Leikendur úr einþáttungnum „Hver er þessi Benedikt?“ Á myndinni eru þær Mamiko D. Ragnarsdóttir og Hrefna Hjörvarsdóttir.