Iðjuþjálfinn - 2022, Qupperneq 39
1. tölublað 202239
Iðjuþjálfun
Nemendur í iðjuþjálfun (starfsréttindanáminu) verja stærstum
hluta námstímans á vettvangi eða samtals 800 stundum.
Vettvangsnámið tilheyrir þremur námskeiðum, Þjónustu iðju-
þjálfa 1, 2 og 3 með stigvaxandi kröfum um færni við að sinna
fólki með iðjuvanda. Í nýrri námskrá voru gerðar ákveðnar
breytingar á skipulagi vettvangsnáms og þær helstu eru:
• Vettvangsnámið tilheyrir námskeiði sem inniheldur
fræðilega innlögn og námsmat.
• Nemendur eru fjóra daga vikunnar á vettvangi
í stað fimm.
• Nemendur fá stuðning frá skólanum í leiðsagnar
tímum, nær vikulega yfir tímabilið.
• Teymi er í kringum hvern nemanda (leiðbeinandi,
leiðsagnarkennari, umsjónarkennari þjónustunám
skeiðs og verkefnastjóri vettvangsnáms).
• Mat á frammistöðu nemenda fer fram rafrænt.
Hlutverk iðjuþjálfa sem leiðbeinenda er í stórum dráttum að
undirbúa komu nemans, sinna daglegri leiðsögn og meta
frammistöðu hans. Til að styðja við leiðbeinendur hefur verið
sett upp rafrænt námskeið í kennslukerfi HA auk þess sem
haldinn er fundur skömmu áður en vettvangsnámstímabilið
hefst. Leiðbeinendur þurfa að kynna sér hagnýtar upplýsingar
um skipulag vettvangsnámsins og hvernig frammistaða nem-
enda er metin. Auk þess er fræðilegt efni aðgengilegt sem
getur reynst gott tækifæri til símenntunar. Á tímabilinu gefst
leiðbeinendum kostur á að mæta á fund með öðrum leiðbein-
endum en tilgangurinn er að skapa samfélag leiðbeinenda
sem styðja hver annan. Einnig geta leiðbeinendur tekið þátt
í einum leiðsagnartíma með sínum nemanda.
Markmið okkar er að leiðbeinendur hafi greiðan aðgang að
stuðningi í gegnum framangreint rafrænt námskeið auk þess
sem þeir geti leitað til leiðsagnarkennara, umsjónarkennara
námskeiðs og verkefnastjóra vettvangsnáms í iðjuþjálfun.
Þróunin heldur áfram en það er von okkar að fleiri iðjuþjálfar
bætist í hóp leiðbeinenda sem koma til með að taka þátt í
þessari skemmtilegu vegferð.
Þórunn Sif Héðinsdóttir, iðjuþjálfi
á leikskólanum Lundarseli
Ég gerðist leiðbeinandi iðjuþjálfanema í fyrsta skiptið haustið
2021. Ég ákvað að taka nema vegna þess að mig langaði til að
spegla mig við einstakling úr mínu fagi og rifja upp fræðin.
Ég leit á þetta sem nýja áskorun og í raun endurmenntun.
Mig langaði líka að vekja áhuga annarra á starfi iðjuþjálfa í
leikskólum.
Ég og vinnustaðurinn minn græddum helling á að taka nema!
Persónulega græddi ég mest á að geta talað „iðjuþjálfamálið“
við einhvern sem skildi mig og einnig öðlaðist ég meira sjálfs-
traust í starfi. Vinnustaðurinn naut auk þess góðs af, því það
er alltaf gott að fá inn ferskt fólk með nýjar hugmyndir og nýja
sýn. Það sér oft eitthvað sem starfsfólk vinnustaðarins sér ekki
eða er hætt að sjá.
Þegar ég ákvað að taka nema þurfti ég að yfirstíga eigin
hræðslu við að geta ekki kennt og komið efninu frá mér. Ég
var líka stressuð að muna ekkert úr skólanum lengur! Satt
best að segja langaði mig að hætta við þetta og hugsaði alltaf
„hvað varstu að gera?!“ en sem betur fer tók ég stökkið í djúpu
laugina og fékk til mín frábæran nema. Það var ótrúlega gef-
andi og skemmtilegur tími að hafa nema hjá mér – en á sama
tíma líka krefjandi.
Ég hvet alla iðjuþjálfa, sem geta, að taka nema því þetta er
ótrúlega gefandi og lærdómsríkur tími. Það er frábært að fá
verðandi iðjuþjálfa til sín, spegla hugmyndir sínar og læra
nýja hluti.