FLE blaðið - 01.01.2020, Side 4
4 FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2020
GÆÐASTIMPILL AÐ VERA Í FLE
Viðtal við Bryndísi Björk Guðjónsdóttur nýja formann FLE
PERSÓNAN BRYNDÍS
Hvaðan ertu og hverra manna ertu?
Ég er ættuð frá Ísafirði en alin upp á Skagaströnd. Faðir
minn var Guðjón Ebbi Sigtryggsson skipstjóri og móðir mín
Halldóra Þorláksdóttir húsmóðir. Þau eru frá Ísafirði en fluttu
til Skagastrandar árið 1970 þar sem ég ólst upp. Ég er hluti
af sjómannafjölskyldu enda snérist allt um sjóinn á mínum
uppvaxtartíma i sjávarplássi. Pabbi minn var alltaf á sjónum, á
togara og bræður mínir fóru á sjóinn.
Sjálf fór ég á sjóinn einn túr þegar ég var 17 ára, sem kokkur
á Örvari. Annars vann ég í fiskvinnslu unglingsárin á sumrin
og með skóla. Þá var það þannig að ef það vantaði fólk, í
fiskvinnslu eða jafnvel útskipun á fiski, þá var farið í elstu
bekkina í grunnskólanum og gefið frí til að bjarga verðmætum.
Mesta erfiðisvinna sem ég hef lent í var einmitt að vera kölluð
í útskipun, það reyndi á.
Hvernig var að alast upp á Skagaströnd?
Það var gott og áhyggjulaust líf í sjávarþorpinu. Þetta var
600 – 700 manna þorp þegar ég var að alast upp og mikið af
krökkum. Skagaströnd var dæmigert sjávarþorp, eitt fyrirtæki
sem allir unnu hjá.
Í hvaða skólum varstu?
Ég var í grunnskólanum á Skagaströnd, síðan var ég eitt ár í
Versló og svo í Fjölbrautarskólanum á Sauðárkróki. Ég fór
í Tækniháskólann og lærði iðnrekstrarfræði, seinna tók ég
meistaranám í reikningshaldi og endurskoðun í Háskólanum í
Reykjavík og að lokum löggildingarpróf í endurskoðun.
Hvernig er starfsferillinn?
Eins og gengur þá vann ég í fiski, sjoppu og búð sem
unglingur. Svo hef ég verið í ýmsum störfum, var meðal annars
bókari hjá sveitarfélaginu Skagaströnd, framkvæmdastjóri
skóverksmiðju, ég rak gistiheimili í eitt ár með vinkonu minni
og var framkvæmdastjóri Héraðsnefndar Austur Húnvetninga
(sem er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna í A-Hún.). Einnig
rak ég bókhaldsstofu áður en ég byrjaði hjá PwC, þar sem ég
hef starfað síðan 2005.
Óvenjulegasti starfsvettvanginn var samt að ég kenndi erobík
á Skagaströnd í nokkur ár með vinkonu minni. Þetta var vinsælt
enda kom stór hluti kvenna í bænum á námskeið hjá okkur. Í
litlum þorpum er það oft þannig að ef þú vilt að eitthvað sé
gert, þá þarftu sjálfur að koma því til leiðar. Þetta var mjög
skemmtilegt og var félagslega mjög jákvæð upplifun.
Ég held að það verði vaxandi þörf fyrir staðfestingar
annarra upplýsinga en hefðbundinna reikningsskila,
svo sem ýmissa ófjárhagslegra upplýsinga og
mögulega einnig samtímaupplýsinga