FLE blaðið - 01.01.2020, Side 13
13FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2020
Höfundatekjur manna hafa fram til þessa verið skattlagðar eftir
almennum reglum um skattlagningu tekna manna, þ.e. verið
skattlagðar fullum tekjuskatti og útsvari, eins og t.d. laun og
hagnaður af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Hvort
höfundatekjur manna hafa verið flokkaðar sem tekjur í eða
utan atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi hefur ráðist af
ólögákveðnum viðmiðum um umfang, efnahagslegan tilgang
starfsemi og eðli teknanna.
Samkvæmt nýju ákvæðunum skulu sumar höfundatekjur
manna flokkaðar og skattlagðar sem fjármagnstekjur, þ.e. skulu
sæta skattlagningu 22% tekjuskatts (fjármagnstekjuskatts) en
engri annarri skattlagningu. Um er að ræða skattlagningu brúttó
tekna, því enginn frádráttur heimilast frá tekjunum. Er það í
samræmi við skattlagningu annarra fjármagnstekna manna.
Samkvæmt 1. gr. nýju reglugerðarinnar skulu þær höfundatekjur
manna, sem nýju ákvæðin taka til, í öllum tilvikum flokkaðar
og skattlagðar sem fjármagnstekjur en ekki sem tekjur af
atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.
Lögaðilar geta ekki verið höfundar, en lögaðilar geta hins vegar
verið rétthafar höfundatekna. Nýju ákvæðin breyta engu um
flokkun og skattlagningu höfundatekna lögaðila, þær skulu
eftir sem áður vera flokkaðar og skattlagðar sem tekjur af
atvinnurekstri.
AFMÖRKUN FJÁRMAGNSTEKNA
Skattlagning höfundatekna sem fjármagnstekna takmarkast
við greiðslur til manna vegna síðari afnota af verki eftir að það
hefur verið gert almenningi aðgengilegt, birt eða gefið út með
lögmætum hætti, sbr. ákvæði 2. og 3. gr. höfundalaga.
Frumvarp það er varð að lögum nr. 111/2019 sætti
breytingum í meðförum Alþingis að tillögu fjármála- og
efnahagsráðuneytisins sem efnahags- og viðskiptanefnd
Alþingis gerði að sinni. Í upphaflegri gerð frumvarpsins var lagt
til að aðeins skyldu skattlagðar sem fjármagnstekjur greiðslur til
höfunda og rétthafa frá viðurkenndum samtökum rétthafa. Það
skilyrði var fellt brott. Í því fólst rýmkun á gildissviði ákvæðanna.
Hér á eftir fer umfjöllun um einstakar tegundir höfundatekna.
Greiðslur fyrir rétt til yfirfærslu frumverks í nýjan búning
Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis
kemur fram að við umfjöllun nefndarinnar hafi verið gagnrýnt
að samkynja greiðslur yrðu skattlagðar með mismunandi hætti
eftir því hvort rétthafi fengi þær greiddar frá viðurkenndum
rétthafasamtökum eða ekki. Gagnrýni í þessa veru kom fram
í umsögn Rithöfundasambands Íslands (RSÍ) um frumvarpið. Í
umsögninni segir að stór hluti tekna rithöfunda eftir frumsköpun
verks lúti t.d. að sölu á kvikmyndarétti að bókmenntaverkum
eða rétti til sviðsuppsetningar í leikhúsi. Slíkir samningar
séu ávallt gerðir á einstaklingsgrunni en ekki fyrir tilstilli eða
milligöngu samtaka rétthafa. Enginn eðlismunur væri á sölu
kvikmyndaréttar verndaðs bókmenntaverks og greiðslum sem
færu í gegnum RSÍ. Að ósk efnahags- og viðskiptanefndar tók
fjármála- og efnahagsráðuneytið saman minnisblað um fram
komnar umsagnir. Í minnisblaðinu kemur fram að ráðuneytið
var ósammála þeirri skoðun RSÍ að enginn eðlismunur
væri á annars vegar greiðslum til rétthafa vegna t.d. sölu á
kvikmyndarétti verndaðs bókmenntaverks og hins vegar þeim
greiðslum sem bærust rétthöfum í gegnum RSÍ.
Við setningu nýju reglugerðarinnar virðist ráðuneytið hafa
skipt um skoðun hvað varðar seldan rétt til kvikmyndunar
eða sviðsuppsetningar bókmenntaverks. Í 3. mgr. 3. gr.
reglugerðarinnar segir: „Greiðslur til rétthafa vegna aðlögunar
höfundarverks með yfirfærslu frumverks í nýjan búning vegna
síðari afnota þess skulu einnig teljast til fjármagnstekna án
nokkurs frádráttar. Hér undir falla tekjur af síðari afnotum
á frumsköpun höfundar hvort sem frumhöfundur gerir það
sjálfur eða aðrir menn með hans leyfi eftir því sem lög krefjast.
Sem dæmi um greiðslur sem falla hér undir eru greiðslur af
ýmsum réttindum, s.s. vegna kvikmynda, sjónvarpsmynda,
leikgerðar, tónsmíða og þýðinga vegna nýtingar frumverks.“ Af
þessum orðum verður ráðið að flokka skuli og skattleggja sem
fjármagnstekjur greiðslur fyrir rétt til að nýta bókmenntaverk
(frumverk) til kvikmyndunar, sviðsuppsetningar og þýðingar
á annað tungumál. Slík flokkun og skattlagning afmarkast við
greiðslu fyrir rétt til að yfirfæra frumverk í nýjan búning, en
nær ekki til greiðslu fyrir yfirfærsluna sjálfa og það eins þótt
höfundur frumverks annist yfirfærsluna.
Greiðslur á grundvalli samningskvaðaleyfis
Samkvæmt höfundalögum gera samtök rétthafa samninga
við notendur um heimildir þeirra til hagnýtingar áður birtra eða
útgefinna verka, svonefnd samningskvaðaleyfi. Slíkir samningar
geta ekki aðeins náð til verka félagsmanna heldur einnig til
verka höfunda sem standa utan samtakanna. Höfundar utan
samtakanna geta gert kröfu um þóknun fyrir afnot á grundvelli
samningskvaðaleyfis. Slíkri kröfu verður einungis beint að
samtökunum. Samningskvaðaleyfi getur tekið til heimildar:
• Safna til að gera eintök af birtum verkum í safni sínu
(12. gr. b.).
• Til endurbirtingar listaverks í almennu fræðsluefni
(3. mgr. 14. gr.).
• Stofnana, samtaka og fyrirtækja til að gera eintök af
útgefnum verkum til nota í starfsemi sinni (1. mgr. 18. gr.).
• Opinberra stofnana og stofnana í almannaþágu til að gera
eintök af birtum verkum til nota fyrir þá sem vegna fötlunar
eða af öðrum ástæðum eru ófærir um að nýta sér
hefðbundna fjölmiðlaþjónustu (4. mgr. 19. gr.).
• Útvarpsstöðva til útsendingar útgefinna verka (23. gr.).
• Til að endurvarpa um kapalkerfi verki sem er löglega
útvarpað (23. gr. a.).
• Útvarpsstöðva til endur útsendingar verka úr safni sínu
(23. gr. b.).