FLE blaðið - 01.01.2020, Page 15
15FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2020
GREIÐENDUR
Skattlagning höfundagreiðslna sem fjármagnstekna er ekki
bundin við að greiðandinn sé viðurkennd samtök rétthafa.
Í höfundalögum er viðurkenndum samtökum rétthafa
falin innheimta og miðlun til rétthafa á öllum greiðslum
samkvæmt lögunum. Eins og hér framar er rakið má ætla að
skattlagðar skuli sem fjármagnstekjur allar greiðslur til manna
á grundvelli höfundalaga. Viðurkennd samtök rétthafa eru
nú: Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF),
Myndhöfundasjóður Íslands (Myndstef), Rithöfundasamband
Íslands (RSÍ), Hagþenkir – félag höfunda fræðirita og
kennslugagna, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda
(SFH), Fjölís og Innheimtumiðstöð gjalda (IHM).
Greiðslur fyrir notkun bóka á bókasöfnum annast stofnun eða
félagasamtök sem úthlutunarnefnd felur það verkefni.
TÍMAMARK SKATTSKYLDU
Í ákvæðum laga nr. 111/2019 og í nýju reglugerðinni er jafnan
tiltekið að „greiðslur“ skuli skattlagðar sem fjármagnstekjur
manna. Af þeirri orðnotkun mætti ætla að skattskyldu sé ætlað
að myndast við það tímamark þegar greiðsla umræddra tekna
á sér stað, en ekki þegar krafa myndast til teknanna, sem er
þó meginregla um tímamark skattskyldu tekna. Á þetta benti
KPMG í umsögn sinni um drög að reglugerðinni. Fjármála- og
efnahagsráðuneytið brást við ábendingunni með því að auka
málsgrein við 5. gr. reglugerðarinnar frá því sem verið hafði í
drögunum. Málsgreinin, sem er 3. mgr., hljóðar svo: „Tekjur
af höfundarréttindum skulu taldar til tekna á því ári sem þær
verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur
einhverjum, sbr. 2. mgr. 59. gr. laga um tekjuskatt.“ Með þeim
orðum tók ráðuneytið af allan vafa um það að skattskylda
umræddra höfundatekna myndast þegar krafa stofnast til
teknanna og það eins þótt greiðsla eigi sér síðar stað.
Greiðslur frá viðurkenndum samtökum rétthafa byggjast á
úthlutun, aðrar en fylgiréttargreiðslur. Krafa rétthafa stofnast
við slíka úthlutun. Sömu sögu er að segja af úthlutun
úthlutunarnefndar á greiðslum fyrir afnot verka á bókasöfnum.
Krafa rétthafa til fylgiréttargjalds stofnast við endursölu
listaverks í atvinnuskyni eða á listmunauppboði. Krafa til
greiðslu, fyrir nýtingarrétt bókmenntaverks til kvikmyndunar,
sviðsuppsetningar eða þýðingar á annað tungumál, stofnast
þegar bindandi samningur kemst á um slíka nýtingu og greiðslu
fyrir hana.
STAÐGREIÐSLA SKATTS
Höfundagreiðslur, sem skattlagðar skulu sem fjármagnstekjur,
skulu sæta afdrætti skatts í staðgreiðslu eftir ákvæðum laga
nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Aðrar
höfundagreiðslur, þ.m.t. greiðslur til lögaðila sem rétthafa,
skulu ekki sæta afdrætti skatts í staðgreiðslu eftir þeim lögum.
Skylda, til að halda skatti eftir í staðgreiðslu af umræddum
greiðslum og skila skattinum í ríkissjóð, hvílir á samtökum
rétthafa sem annast slíkar greiðslur, skv. 2. mgr. 5. gr. nýju
reglugerðarinnar. Ekki er í reglugerðinni sérstaklega kveðið
á um tímamark afdráttar skatts í staðgreiðslu, en vísað er til
almennra reglna þar um. Meginregla um tímamark afdráttar
skatts af vöxtum er þegar vextirnir eru greiddir eða færðir
rétthafa til eignar á reikningi. Afdráttur skatts af arði skal fara
fram við greiðslu, en þó ekki síðar en á síðasta uppgjörstímabili
þess árs þegar ákvörðun um úthlutun hans er tekin. Að virtum
þeim reglum verður að ætla að samtök rétthafa skuli halda
skatti í staðgreiðslu eftir af höfundagreiðslum við greiðslu
en þó ekki síðar en á síðasta uppgjörstímabili þess árs þegar
viðkomandi úthlutun á sér stað.
Hvert uppgjörstímabil (greiðslutímabil) afdregins skatts er
þrír mánuðir, þ.e. janúar–mars, apríl–júní, júlí–september
og október–desember. Gjalddagar eru 20. apríl, 20. júlí, 20.
október og 20. janúar og er eindagi 15 dögum síðar. Greiðslu
til innheimtumanns ríkissjóðs skal fylgja skilagrein á formi sem
ríkisskattstjóri ákveður.
Staðgreiðsla skatts af greiðslum af umræddum toga til höfunda
eða rétthafa, sem aðeins bera takmarkaða skattskyldu á
Íslandi, fer ekki eftir lögum nr. 94/1996 heldur eftir lögum nr.
45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 6. tölul. 5. gr.
þeirra laga.
Sigurjón Högnason