FLE blaðið - 01.01.2020, Side 20
20 FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2020
Frá upphafi var ljóst, að ákvæði hinna nýju laga um svonefnt
endurskoðendaráð og gæðaeftirlit þess með störfum
endurskoðenda myndi öðru fremur valda ágreiningi og átökum
eins og fljótlega kom á daginn. Hörð gagnrýni, einkum frá
einyrkjum í stéttinni, kom fram á framkvæmd gæðaeftirlitsins. Á
aðalfundi FLE þann 4. nóvember 2011 kvaddi ég mér hljóðs og
lýsti áhyggjum mínum af stöðu mála. Þar sagði ég meðal annars:
„Félagið okkar er að skiptast í tvær fylkingar – annars
vegar þeir sem að sögn beita nýrri og lögvörðum aðferðum
við endurskoðunarstörf sín og hins vegar hinir, einkum í
eldri kantinum, sem fram til þessa hafa starfað sem góðir
og samviskusamir endurskoðendur á grundvelli góðrar
endurskoðunarvenju og finna sig nú skyndilega óörugga um sína
stöðu – að þeim er sótt og hlutirnir skulu breytast hratt. Lögvarin
atvinnuréttindi til áratuga eru í húfi og í loftinu liggur, að dómstólar
gætu jafnvel komið við sögu við varðveislu þeirra, séu menn ekki
hlýðnir og góðir. Hugtök eins og reynsla og þekking á verkefnum
virðast skyndilega léttvæg séu þau ekki skýrt í staðla skrifuð“.
Stefán Svavarsson birti í FLE blaðinu í janúar 2013 grein undir
heitinu „Einyrkjar í stétt endurskoðenda og alþjóðlegir staðlar“.
Þar fjallar hann ítarlega um þetta mál og segir m.a.: „Þegar allt
ofangreint er skoðað þykir þeim sem hér ritar full ástæða til þess
að gera hlé á umræddri eftirlitsvinnu, a.m.k. á meðan hvorki
er sátt um lagalega stöðu alþjóðlegra staðla né framkvæmd
eftirlitsvinnunnar. Frá sjónarhóli einyrkjanna, sem nú sæta auknu
eftirliti, sýnist ennfremur eðlilegt að spurt sé hvort hrunið á
fjármálamarkaði hafi ekki gefið Endurskoðendaráðinu tilefni til
að beina eftirlitskröftum sínum að fyrirtækjum og einstaklingum
sem unnu fyrir fjármálafyrirtækin sem illa fóru út úr þeim
hamförum. Svar við þeirri spurningu væri vel þegið“.
Þá kom m.a. fram í bréfi dags. 26/5 2014, sem formaður FLE
ritaði ráðherra að minni beiðni, eftirfarandi: „FLE tekur aftur á
móti undir að lagaleg óvissa sé til staðar um gildi staðlanna hvað
varðar beitingu íþyngjandi viðurlaga vegna brota á þeim og ef
þeim er ekki fylgt. Vísast í þessu samhengi í „Skýrslu um málefni
endurskoðenda“ frá janúar 2011 sem unnin var á sínum tíma á
vegum efnahags- og viðskiptaráðherra“. Gæðaeftirlit á vegum
endurskoðendaráðs hófst síðan 2010 og olli strax eldri hluta
stéttarinnar miklum erfiðleikum.
Þann 11/6 2012 barst mér síðan boðun um gæðaeftirlit frá
endurskoðendaráði sem ég mótmælti af fyrrgreindum ástæðum
og gengu bréfasendingar milli mín og ráðsins næstu mánuði.
Þann 22/3 2013 barst mér bréf frá ráðinu þar sem mér var hótað
tillögu um sviptingu réttinda til ráðherra, yrði ég ekki við boðun
ráðsins um gæðaeftirlit. Í kjölfarið féllst ég á að taka á móti
gæðaeftirlitsmönnum á starfsstöð minni. Af ýmsum ástæðum,
m.a. breytingum á endurskoðendaráði, tókst ekki að koma þeim
fundi á fyrr en 12/11 2013. Þar fóru gæðaeftirlitsmenn yfir gátlista
1 og 2 án athugasemda en þegar kom að gátlista 3, spurði ég,
á hvaða grundvelli þeir hygðust byggja skoðunina. Svarið var –
á grundvelli alþjóðlegra endurskoðunarstaðla. Ég bauð fram
gögn til skoðunar, byggð á góðri endurskoðunarvenju jafnframt
því að leggja fram tveggja síðna greinargerð fyrir afstöðu minni.
Gæðaeftirlitsmenn afþökkuðu slíka skoðun og varð því ekki
af frekara eftirliti. Heimsókn þessi hefur æ síðan verið skráð
af endurskoðendaráði sem skilyrðislaus neitun á afhendingu
vinnugagna án þess að geta nokkuð um forsendur.
Í kjölfarið hófst ný lota bréfasamskipta sem lauk með því að þann
28/4 2014 lagði endurskoðendaráð til við ráðherra að réttindi mín
sem löggiltur endurskoðandi yrðu felld niður vegna „alvarlegra
brota“ á lögum um endurskoðendur. Þann 8/5 2014 sá formaður
FLE, ástæðu til að senda ráðuneytinu tölvupóst þar sem ákveðin
atriði í greinargerð ráðsins vegna tillögunnar um sviptingu réttinda
fólu í sér beinar rangfærslur á atburðarás og leiðrétti formaðurinn
þær þar.
Í ágúst 2014 óskaði ég eftir áliti frá Guðmundi Ágústssyni hrl. og
fyrrum alþingismanni á málavöxtum. Í áliti hans, dags. 4/9 2014
kemur m.a. fram sú afdráttarlausa skoðun, að „til að svipta eða
skerða atvinnuréttindi þurfa lögin sem mæla fyrir um skerðinguna
að vera skýr og ótvíræð og sett með tilliti til almannahagsmuna“.
Þá kemur síðar fram í áliti hans að tillaga endurskoðendaráðs um
sviptingu réttinda minna sé „ekki í nokkru samræmi við tilefnið“.
Úrskurður ráðherrans barst mér með bréfi dags. 20/5 2015 þar
sem ekki var fallist á niðurfellingu réttinda minna. Niðurstaðan
byggðist fyrst og fremst á því, að beita hefði átt 17. gr.
stjórnsýslulaga – þ.e. svonefndri meðalhófsreglu á þann veg að
veita hefði átt áminningu áður en niðurfelling réttinda kæmi til
álita.
Blekið var vart þornað á úrskurði ráðherrans þegar mér barst ný
boðun í gæðaeftirlit dags. 2/6 2015. Í ljósi fyrri niðurstöðu dró
ég hlutleysi ráðsins og hæfi þess til að fjalla aftur um málið á
málefnalegan og hlutlausan hátt mjög í efa í bréfi dags. 25/6
2015 en ráðið brá við hart með bréfi dags. 21/7 2015 og gaf sjálfu
sér „heilbrigðisvottorð“ í þessum efnum („Endurskoðendaráð
getur ekki fallist á meint vanhæfi sitt...“). Niðurstaðan varð síðan
sú, eftir nokkur bréfaskipti til viðbótar, að ráðið lagði öðru sinni,
með bréfi dags. 10/6 2016, til við ráðherra, að réttindi mín yrðu
felld niður.
Úrskurður ráðherrans barst mér með bréfi dags. 21/11 2016
þar sem aftur var hafnað að fella niður réttindi mín og ástæðan
var enn sú sama – ekki höfðu verið virt ákvæði stjórnsýslulaga
um meðalhóf, þ.e. að veita mér áminningu áður en lögð væri
til svipting. Í framhaldi ritaði endurskoðendaráð bréf til ráðherra
þar sem ráðið sagði honum beinlínis „til syndanna“ vegna
þessarar niðurstöðu. Í bréfinu stendur m.a.: „Endurskoðendaráð
harmar niðurstöðu ráðuneytisins og bendir á að 17. gr. laga um
endurskoðendur gerir það ekki að skilyrði að áminning sé veitt
áður en lagt er til við ráðherra að réttindi endurskoðanda verði
felld niður vegna brota gegn lögunum“ og í niðurlagi bréfsins
stendur: „Þá er það mat endurskoðendaráðs að niðurstaða
ráðuneytisins í málinu sé andstæð lögum og alþjóðlegum
skuldbindingum“. Segja má, að „eggið“ hafi þarna tekið
„hænuna“ í kennslustund.