Skinfaxi - 01.01.2020, Blaðsíða 33
S K I N FA X I 33
Helga Guðrún á rætur sínar að rekja til Vestfjarða. Hún er fædd
og uppalin á Ísafirði og bjó þar til tvítugs. Síðan flutti hún
til Súðavíkur og bjó þar í sextán ár. Hún bjó á Ólafsfirði í
nokkur ár, í Hveragerði og í Grundarfirði, en er nú búsett í
Kópavogi. Helga Guðrún hefur lengst af starfað sem skólastjórnandi
og starfar í dag sem verkefnastjóri við Hamraskóla í Reykjavík.
Kynntist starfi ungmennafélaganna á héraðsmótum
Helga Guðrún var spurð hver hefðu verið fyrstu kynni hennar af íþrótt-
um og ungmennafélagsstarfi.
„Þegar ég var barn og unglingur æfði ég nánast allar íþróttir sem
voru í boði. Ég æfði þó mest handbolta og fótbolta, þar sem ég var
markmaður. Ungmennafélagsstarfinu kynntist ég fyrst (10 –15 ára) á
héraðsmótunum innan Héraðssambands Strandamanna og Héraðs-
sambands Vestfirðinga. Ég keppti á nokkrum slíkum mótum, m.a. á
Sævangi á Ströndum, Reykjum í Hrútafirði og Núpi í Dýrafirði. Þegar
ég svo flutti til Súðavíkur 1977 endurnýjaði ég kynni mín af ungmenna-
félagshreyfingunni, var m.a. viðstödd stofnun Ungmennafélagsins
Geisla árið 1977. Það má segja að ég hafi fyrst tekið þátt í starfinu sem
iðkandi 1966 og síðan í félagsmálastörfum 1979.“
Fyrstu félagsmálastörfin hjá Umf. Geisla
Þátttaka Helgu Guðrúnar í félagsmálastarfi innan ungmennafélaganna
hófst þegar hún flutti til Súðavíkur. „Ég var virk í starfi ungmennafélags-
ins Geisla og tók að mér ýmis störf fyrir það. Ég var m.a. í þorrablóts-
nefndum, 17. júní-nefndum og Sjómannadagsnefnd,“ segir Helga
Guðrún.
Stjórnarstörf Helgu Guðrúnar innan hreyfingarinnar hófust er hún
var kosin í stjórn Umf. Geisla 1979. Þeim störfum gegndi hún í nokkur
ár og var m.a. formaður félagsins. Hún átti einnig um tíma sæti í stjórn
Ungmenna- og íþróttasambands Ólafsfjarðar og var um tíma formað-
ur þess. Einnig var hún varaformaður Íþróttafélagsins Hamars í Hvera-
gerði.
Tuttugu ár í stjórn UMFÍ
Helga Guðrún var kjörin í varastjórn UMFÍ til tveggja ára á sambands-
þingi sem haldið var á Blönduósi 1995. Hún var síðan kjörin í aðal-
stjórn á sambandsþingi í Grafarvogi 1997. Stjórnarsetunni lauk á sam -
bandsþingi í Vík í Mýrdal 2015. Hún sat því samtals í tuttugu ár í stjórn
UMFÍ, tvö ár sem varamaður og átján ár sem aðalmaður. Helga Guðrún
gegndi embætti varaformanns UMFÍ í sex ár og var formaður í átta ár.
Aðspurð um önnur störf fyrir hreyfinguna svarar hún: „Ég hef setið í
mörgum nefndum er tengjast UMFÍ, svo sem fræðslunefnd, laganefnd,
umhverfisnefnd og Þrastaskógarnefnd. Einnig ungmennaráði UMFÍ,
landsmótsnefndum, nefnd um íþróttir eldri ungmennafélaga og mörg-
um nefndum sem skoðuðu aðild ÍBR að UMFÍ. Þá sat ég í nokkrum
nefndum á vegum menntamálaráðuneytisins sem fjölluðu um ýmis
mál sem tengdust æskulýðs- og íþróttamálum, nefnd sem hélt utan
um Göngum um Ísland, Blátt áfram og nefnd Ungmennabúðanna að
Laugum. Ég sat fyrir hönd UMFÍ í stjórn Íslenskrar getspár og Íslenskra
getrauna, í Íþróttanefnd ríkisins, Æskulýðsnefnd ríkisins, Æskulýðs-
vettvanginum, Almannaheillasamtökunum og nefnd um aukið sam-
starf UMFÍ og ÍSÍ.“
Gefandi að starfa fyrir UMFÍ
Þegar Helga Guðrún er spurð hvaða störf eða verkefni standi helst
upp úr í starfi hennar innan stjórnar UMFÍ svarar hún:
„Það er svo margt og frekar erfitt að velja eitthvað úr. Nokkur verk-
efni eru mér þó hugleikin eins og Unglingalandsmótin, Landsmót
UMFÍ 50+, Blátt áfram-verkefnið, Ungmenna- og tómstundabúðirnar
á Laugum og stofnun Ungmennaráðs UMFÍ. Að hafa fengið tækifæri
til að kynnast og starfa með öllu því góða og duglega fólki sem starfar
innan ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar stendur líka upp úr. Þetta
var mjög gefandi starf, langoftast skemmtilegt, á stundum erfitt, en
verður alltaf eftirminnilegt og hefur klárlega eflt mig sem einstakling.
Það skilur eftir heilan helling af minningum.“
Aukin áhersla á samstarf í hreyfingunni
Helga Guðrún var spurð hvernig hún sæi hreyfinguna fyrir sér núna
og hvert hún teldi að hún mundi þróast. „Hreyfingin hefur þróast í þá
átt sem ég sá fyrir mér að myndi gerast sem er með aukinni áherslu á
samstarf innan æskulýðs- og íþróttahreyfingarinnar þar sem horft er til
þess að nýta mannafla og fjármagn sem best fyrir heildina. Í framtíðinni
sé ég hreyfinguna þróast enn frekar í þessa átt og að hún fái jafnvel
aukið vægi á sviði almenningsíþrótta og lýðheilsu, forvarna í sinni
víðustu mynd og félagsmálafræðslu fyrir alla aldurshópa, svo að eitt-
hvað sé nefnt.“
Heimsótti sambandsaðila reglulega
Þegar Helga Guðrún er spurð hvað sé eftirminnilegast úr starfinu nefn-
ir hún efnahagshrunið 2008.
„Hrunið 2008 var ákaflega erfitt fyrir UMFÍ og sambandsaðila þess.
Ég er stolt af því hvernig við unnum okkur út úr því. Þegar ég hætti
sem formaður 2015 var staða hreyfingarinnar allt önnur en hún hafði
verið þegar ég tók við sem formaður 2007.
Að hafa tekið þátt í því að koma að undirbúningi og stofnun Ung-
menna- og tómstundabúðanna á Laugum, sem núna eru á Laugar-
vatni, og að stofnun Ungmennaráðs UMFÍ, eru mjög eftirminnilegir
þættir í starfinu ásamt öllum Landsmótunum. Ég lagði mig líka fram
sem formaður í að heimsækja sambandsaðilana nokkuð reglulega og
taka púlsinn á starfseminni sem var bæði upplýsandi og skemmtilegt.“
Látið raddir ykkar heyrast
Helga Guðrún var að lokum spurð hvaða ráð hún vildi gefa ungu fólki
sem tekur þátt í félagsmálastarfi innan ungmennafélagshreyfingarinn-
ar. „Látið raddir ykkar heyrast, njótið, látið ykkur málin varða, komið
með hugmyndir og talið fyrir þeim. Að taka þátt eflir ykkur sem ein-
staklinga og styrkir hreyfinguna. Framtíðin er ykkar.“
„Að hafa fengið tækifæri til að kynnast og starfa með öllu
því góða og duglega fólki sem starfar innan ungmenna-
og íþróttahreyfingarinnar stendur líka upp úr.“
„Látið raddir ykkar heyrast, njótið, látið ykkur málin varða,
komið með hugmyndir og talið fyrir þeim. Að taka þátt eflir ykkur
sem einstaklinga og styrkir hreyfinguna. Framtíðin er ykkar.“