Ferðir - 01.05.1988, Síða 40
40
FERÐIR
Um 20. maí voru mikil hlýindi og leysing á öræfunum. Vélsleðamenn
komu þá i Laugafell og sáu, að leysingavatn hafði brotið sér leið inn í
sundlaugina í Laugafelli og eyðilagt að mestu framvegginn í henni. Þeir
gátu veitt vatninu fram hjá lauginni, svo ekki færi verr. Þegar heim kom
tilkynntu þeir skálanefndinni hvernig komið var og buðust jafnframt til að
hreinsa laugina síðar að vorinu. Skálanefndin þáði það góða boð. Seinna
hreinsuðu þeir svo laugina vel upp og gerðu mögulegt að baða sig í henni,
þótt hún gæti ekki lengur orðið full af vatni.
31. júlí fór Laugafellsnefnd eftirlitsferð að sæluhúsinu og lagfærði þar
margt, eins og venja er í slíkum ferðum.
21.-26. ágúst var svo farin vinnuferð til að gera sundlaugina upp. Farið
var af stað seint á föstudegi og unnið af kappi nokkuð fram yfir hádegi á
sunnudag. Þá þurftu flestir að fara heim. Eftir varð Laugafellsnefndin ásamt
bóndanum í Hólsgerði, sem hafði unnið þarna með öflugri dráttarvél á
laugardag og sunnudag. Hann fór heim á mánudagsnótt. Það verður að
viðurkennast, að lítið hefði orðið úr framkvæmdum þarna, ef hans hefði
ekki notið við. Eftir urðu þá tveir nefndarmenn ásamt konu annars þeirra.
Þau klesstu steypu innan á laugarveggina á mánudag og þriðjudag og
hleyptu þá vatni í laugina, sem sást hvergi leka. A miðvikudag var verkað til
og búist til heimferðar. Klukkan hálf tólf um kvöldið voru allir komnir
heim, þreyttir en ánægðir með árangursríka ferð.
Sundlaugin er lítið eitt stærri en áður. Hún var færð neðar í lækjarfar-
veginn, svo yfirborð hennar stendur ekki eins hátt og fyrr. Það var gert til að
fá allt heita vatnið inn í hana, svo nú ætti hún að haldast heitari en áður.
Hún er einnig þannig gerð nú að leysingavatn á ekki að geta grandað henni,
þótt það hlaupi inn í hana.
Haustferðin var farin 11.-12. september. Þá var steypt ofan á laugar-
veggina og tröppurnar fyrir útidyrum hlaðnar upp og hellulagt að nýju
framan við þær. Þá var og gengið frá öllu eins og venja er að hausti. Rok og
rigning tafði mjög fyrir við þessi verk. Þeim var þó lokið og allir komust
heim klukkan hálf sjö seinna kvöldið.
Á næsta ári verður óhjákvæmilegt að laga sæluhúsið talsvert til að utan
og mála bæði veggi og þak, og svo er þarna hið eilífa verkefni að reyna að
bæta gróðurskemmdir, sem fara síst minnkandi með sívaxandi umferð.
Fyrir hönd Laugafellsnefndar:
Angantýr H. Hjálmarsson.