Fréttir - Eyjafréttir - 05.07.2023, Blaðsíða 2
Útgefandi: Eyjasýn ehf. - kt. 480278-0549
Ægissgötu 2 - 900 Vestmannaeyjum.
Ritstjórn og ábyrgð: Ómar Garðarsson og Sindri
Ólafsson - omar@eyjafrettir.is - sindri@eyjafrettir.is.
Umbrot: Leturstofa Vestmannaeyjum ehf.
Ljósmyndir: Blaðamenn Eyjafrétta.
Prentun: Stafræna Prentsmiðjan ehf.
Sími: 481 1300
Netfang: frettir@eyjafrettir.is.
Auglýsingar: auglysingar@eyjafrettir.is
Veffang: www.eyjafrettir.is
EYJAFRÉTTIR er áskriftarblað.
Eftirprentun, hljóðritun, notkun ljósmynda og
annað er óheimilt nema heimilda sé getið.
Það var ansi þungbúið
síðasta sunnudag þegar
ég sigldi með norrænum
forsætisráðherrum og
forsætisráðherra Kanada
hingað út í Vestmanna-
eyjar. Ástæðan fyrir
því að ég ákvað að
halda þennan fund hér í
Eyjum var að fyrir hálfri
öld – þegar gaus hér í
Vestmannaeyjum - sýndu
norrænar ríkisstjórnir
og íbúar Norðurlanda
okkur mikinn samhug
og stuðning. Viðbrögð
þeirra hafa löngum síðan
verið nefnd sem dæmi
um þau traustu bönd sem
binda hinar norrænu þjóðir saman.
Þó að sólin hafi ekki brosað við okkur í upphafi ferðar þá
birti yfir á sunnudagskvöld. Ég held að mér sé óhætt að segja
að hópurinn allur hafi beinlínis orðið yfir sig hrifinn eftir ljúf-
fengan kvöldmat á Slippnum og siglingu út í Klettshelli þar
sem Jóel Pálsson spilaði fyrir okkur af alkunnri snilld. Bæj-
arstjóri og fulltrúar bæjarstjórnar tóku vel á móti okkur og
öllum var hlýtt í hjarta þegar gengið var til náða. Við mættum
endurnærð á fund á mánudeginum en fyrsta viðfangsefni
hans var viðnámsþróttur samfélaga.
Það er merkilegt að sitja nánast ofan á eldfjalli og ræða við-
námsþrótt. Fátt er meira viðeigandi því saga Vestmannaeyja
er saga um viðnámsþrótt og seiglu. Þegar gosið hófst hér í
janúar 1973 bjuggu meira en 5000 manns í Vestmannaeyjum
en eftir fyrsta sólarhringinn voru um það bil 100 manns eftir.
1349 fjölskyldur yfirgáfu heimili sín vegna eldgossins.
Sumir hefðu mögulega gefist upp. En það kom aldrei til
greina hér í þessu samfélagi.
Bæjaryfirvöld brugðust fumlaust við eins og þau hefðu aldrei
gert annað. Sama má segja um stjórnvöld. Og frá upphafi lá
fyrir skýr og einbeittur vilji Eyjamanna og stjórnvalda til að
byggja upp aftur.
Það var þessi fullvissa – sem var ekkert annað en ákvörðun
– um að búið yrði áfram í Eyjum, að samfélagið héldi áfram
óháð öllum eldgosum sem markaði örlög Vestmannaeyja.
Í augnablikinu sjálfu birtist þetta í að ganga bara strax í verk-
in og vera ekkert að bíða eftir því að gosið hætti með það,
moka öskuna á meðan enn gaus, berjast við náttúruöflin með
því að dæla sjó á flæðandi hraunið – og ná árangri.
Þegar litið er til baka er þessi ákvörðun dæmi um samfélags-
lega ákvörðun sem ber vott um viðnámsþrótt. Í þessu gosi
urðu 1350 fjölskyldur heimilislausar á svipstundu, horfðu á
eftir heimilum og umhverfi sínu undir hraun. Hver og einn
íbúi upplifði áfall og um leið upplifði þjóðin öll áfall – varla
trúði því nokkur maður að annað eins gæti gerst. En um leið
stóðum við saman, hjálpuðumst að og stefndum ótrauð að því
marki að byggja upp á nýjan leik. Sú samstaða náði langt út
fyrir landsteinana.
Við fögnum nú fimmtíu árum frá goslokum – en við fögnum
ekki síður fögru dæmi um viðnámsþrótt, samstöðu og sam-
hyggð.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Viðnámsþróttur
Vestmannaeyja
Kæru Eyjamenn!
Við minnumst þess núna
að hálf öld er liðin frá
goslokum. Það voru svo
sannarlega gleðitíðindi
þegar því mátti slá föstu
að hinum hrikalegu
eldsumbrotum væri
lokið. Þessa sögu þekkið
þið Eyjamenn auðvitað
miklu betur en ég, ekki
síst þau sem hér bjuggu
þegar hamfarirnar
hófust.
Þá var ég reyndar ekki
fædd. Auk þess verð
ég að viðurkenna að ég
vissi lítið sem ekkert
um þennan geigvænlega
atburð Íslandssögunnar fyrr en ég flutti hingað og fór að læra
íslensku. Ég man að þá vorum við í náminu látin lesa frásögn
ungrar Eyjastúlku sem var vakin um miðja nótt og þurfti að
flýja upp á fastalandið ásamt öllum öðrum íbúum. Síðan hef
ég margoft heimsótt Heimaey og fræðst frekar um þá hetju-
dáð sem unnin var á svipstundu, undir eldi og eimyrju.
Hálfri öld síðar má auðvitað fagna goslokum og sömuleiðis
því hvernig til tókst við björgunarstörf og uppbyggingu. Við
stöndum öll í þakkarskuld við þann fjölda fólks sem lagði
svo hart að sér á þeim vettvangi. Og þar sem ég á rætur mínar
utan Íslands nefni ég einnig sérstaklega erlenda aðstoð, ekki
síst frá frændþjóðum á Norðurlöndum. Einnig komu tæki og
tól frá bandaríska varnarliðinu víst að góðum notum. Þá segir
þorskastríðssagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson mér að
gosnóttina sjálfa hafi breskir og vestur-þýskir togarasjómenn
boðist til að taka þátt í mannflutningum, í miðri landhelgis-
deilu, en ekki hafi þurft að þiggja þá hjálp. Vinur er sá sem í
raun reynist og allt sýnir þetta okkur að þótt við séum sjálfum
okkur nóg er nauðsynlegt að eiga líka trausta bandamenn.
Á þeim tímamótum sem nú eru runnin upp er mest um vert
að fagna því sem vel var gert. Um leið má þakka fyrir að
mannslíf glötuðust ekki gosnóttina sjálfa og að aðeins maður
lést á eynni á meðan eldgosið varaði. Loks getum við glaðst
yfir því að samfélagið efldist á ný þegar hægt var að hefjast
handa við endurreisn og uppbyggingu. Nú er blómleg byggð
hér á Heimaey. Hingað streymir ferðafólk sem vill njóta
ægifagrar náttúru, félagsskapar eyjarskeggja og ekki síst að
fræðast um jarðeldinn mikla sem ógnaði lífi og búsetu fyrir
hálfri öld. Nú er Eldfell vinsælt til uppgöngu og Eldheim-
ar frábært sögusafn. Nú bíður framtíðin með öllum sínum
tækifærum.
Ég ítreka hlýjar kveðjur mínar til Eyjamanna og þakka um
leið fyrir alla þá gestrisni og góðvild sem ég hef ætíð notið á
eyjunni fögru.
Eliza Reed, forsetafrú
Kveðja á 50 ára
goslokaafmæli