Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2024, Side 32
32 | Sjómannablaðið Víkingur
rumskaði við veikt neyðarkall og heyrði
að það var frá Reykjavíkurtogaranum
Fylki. Ég stökk fram úr en ekkert heyrðist
meira frá togaranum. Rétt í þann mund
kom stýrimaðurinn til að vekja mig.
Það er verið að skjóta upp neyðarflugeldum
hér skammt frá, tilkynnti hann mér.
Fylkir hafði þá fengið tundurdufl í
vörpuna en þegar trollið var komið á
síðuna og búið að snörla belginn inn og
hífa átti í stertinn til að taka pokann inn
fyrir barðist duflið utan í skipssíðuna og
sprakk með þeim afleiðingum að skipið
sökk á örfáum mínútum. Við
sprenginguna fór náttúrlega allt á annan
endann, meðal annars slitnuðu loftnetin
niður sem var skýringin á því hvers vegna
heyrðist svo illa í þeim.
Við vorum að toga en byrjuðum strax að
hífa. Togarinn Hafliði frá Siglufirði var
hins vegar með vörpuna á síðunni einmitt
þegar þetta gerðist og gat því siglt strax af
stað til hjálpar mönnunum þrjátíu og
tveimur er voru á Fylki en þeir komust
allir í björgunarbát. Teljandi slys urðu
ekki á mönnum.“
SVO GERÐIST ÞAÐ AFTUR
Væntanlega hefur Bárður verið
loftskeytamaður á Kaldbaki EA sem
aðeins fjórum dögum síðar fékk
stórhættulegan afla í nótina. Togarinn
hafði verið að veiðum einar 50 sjómílur
norðaustur af Horni.
– Við vorum þarna allmiklu austar en
Fylkir var þegar hann fórst, útskýrði
skipstjórinn, Jónas Þorsteinsson.
Þetta var um miðja nótt og hafði gengið
hægt að hífa pokann yfir borðstokkinn.
Það hlýtur að vera svona mikið grjót í,
veltu karlarnir fyrir sér. Svo var leyst frá
en þá skall niður á dekkið stór hnöttur.
Menn gripu andann á lofti. Þeir áttuðu
sig um leið á þeirri hættu sem þeir voru í.
Örlög Fylkis höfðu verið aðalumræðuefni
flotans undanfarna daga. Og þarna á
dekkinu lá eitt þessara stórhættulegu
tundurdufla sem hafði sökkt Fylki. Eitt
augnablik fraus tilveran, tíminn stóð í
stað, en svo stukku karlarnir til, skorðuðu
á ógnvaldinn svo hann berðist ekki utan
í.
Samstundis var stefnan tekin til lands, þó
ekki stystu leið heldur var haldið til
heimahafnar, Akureyrar.
Landhelgisgæslunni var gert aðvart,
sprengusérfæðingur kom norður og var
skotið út í togarann þar sem hann lá úti á
Polli og áhöfninni skutlað í land. Vel
gekk að eiga við duflið en það var
samdóma álit sjóliða af bresku
eftirlitsskipi, sem þá var í höfn á Akureyri,
að tundurduflið væri vissulega enskt. Það
hefði á stríðsárunum verið sett djúpt og
átt að granda þýskum kafbátum. En
þannig var um þessi dufl búið, upplýstu
Bretarnir, að þau áttu að lokum að sökkva
til botns.
Og þar hafa þau vísast legið þegar Fylkir
og Kaldbakur voru á fiskislóðinni fyrir
vestan.
Það er ekki alltaf fiskur sem kemur upp með vörpunni. Kaldbaksmenn héldu sig vera að draga upp grjót af
sjávarbotni þegar þyngslin í vörpunni voru í raun stórhættuleg sprengja. Mynd: Ásgrímur Ágústsson