Mímir - 01.09.1968, Síða 44
sinni efcir orðum, sem þá voru algeng í mæltu
máli, en eru nú fátíð eða jafnvel horfin. Vegna
áhrifa erlendrar verkmenningar hafa fjölmörg
útlend orð komizt inn í málið og öðlazt þar
þegnrétt. Allmörg orð hafa þó ekki hlotið al-
menna viðurkenningu, en eru engu að síður
notuð meðal þess fólks, sem þarf á þeim að
halda. Til að ráða bót á þessu hafa verið stofnað-
ar nefndir, sem vinna að nýyrðasmíð, og hafa
þær unnið þarft og gott verk á því sviði. En
betur má, ef duga skal, því að oft virðist svo
sem iðja þessi beri ekki tilætlaðan árangur. Hin
nýsmíðuðu orð liggja gleymd og grafin í nýyrða-
og tækniorðasöfnum, en „hálfútlendu orðskríp-
in" dafna í munni manna. Orsakir þessa eru
sjálfsagt margar. Að framan var sagt, að tökuorð
þyrftu að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að
öðlast þegnrétt í íslenzku máli. Auk þessara
tveggja skilyrða þurfa þau oft að uppfylla önn-
ur. T. d. verða þau að vera liðug til samsetninga,
og af þeim verður að vera hægt að leiða önnur
orð samkvæmt reglum íslenzks máls. A þessu
vill verða misbrestur, hin nýju orð eru oftlega
ankannaleg og óþjál í munni. Einnig má vel
vera, að ekki sé nóg að því gert að kynna hin
nýju orð útávið eftir að þau hafa verið gefin út
í bók. Þá ber þess að geta, að lítið er um íslenzk-
ar fræðibækur á sviði vísinda og tækni, og er því
þeim mönnum, sem við þessi fræði fást, nokkur
vorkunn, þótt útlendu orðin séu þeim tömust.
Eftir að menn úti í heimi tóku að smíða sér
flugvélar, sáu Islendingar skjótt, hver hagur
var að slíkum verkfærum, og er nú svo komið,
að þeir eiga allstóran flugflota. Með þessum
vélum hefur borizt sægur orða í íslenzkt mál.
Tekizt hefur að velja mörgum þeirra íslenzkan
búning, og hefur þar gjarnan verið tekið mið af
fuglum og flugi þeirra. Talað er um að hefja sig
til flugs, setjast, svífa og fljúga. Þá eru heiti á
hinum ýmsu hlutum flugvéla dregin af líkingu
við fugla svo sem vængir, stéi og nef. Að vísu
er hér ekki um að ræða frumleik Islendinga
eingöngu, hliðstæð orð eru notuð í grannmálun-
um, en allt að einu eru íslenzku orðin góð og
gild. Þess vegna er dálítið undarlegt að upp-
götva það einn góðan veðurdag, að algengustu
og, að því er virðist, rótgrónustu orðin í íslenzku
flugmáli eru oftlega sniðgengin í daglegu máli
þess fólks, sem að flugmálum starfar. Þannig
hef ég sannfrétt, að hvers konar slettur og orð-
skrípi vaði þar uppi. Sem dæmi um þetta má
nefna þann atburð, er flugvél flýgur að til
lendingar, lækkar flugið, en hættir skyndilega
við og hækkar sig aftur. Þetta er kallað að púlla
upp. Þegar lending tekst óhönduglega, og vélin
hoppar og rambar til, er sagt, að hún búmsi.
Flugtak heitir teikoff, stundum er talað um að
taka af. Lókalflug heitir það, þegar sveimað er
um í nágrenni einhvers staðar í æfinga- eða
könnunarskyni og e. t. v. lent nokkrum sinn-
um. Akstur flugvélar um braut fyrir flugtak eða
eftir lendingu heitir gjarna taxering. Hrap er
jafnvel kallað krass, og nauðlending heitir fors-
lending. Eldsneyti flugvélar, sem oft er kallað
flugbenzín, heitir fjúel.
Dæmin hér að ofan, þótt fá séu, eru að ýmsu
leyti fróðleg. Þarna koma fyrir hráar slettur, og
er ekki vandi að sjá, hvaðan þær eru komnar. En
flest þessara fyrirbæra hafa þegar fengið ágæt
íslenzk nöfn, sem notuð eru á opinberum vett-
vangi, í blöðum og útvarpi, og eru almennum
málnotanda munntöm. Hér er því varla um
neina sérstaka hættu að ræða og hafa ber í huga,
að þessi orð virðast aðeins vera notuð í þröngum
hópi manna. En ég vil þó leyfa mér að full-
yrða, að þetta litla dæmi hér að ofan sé aðeins
eitt af mörgum. Aþekk fyrirbrigði mætti sjálf-
sagt finna á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins, og
vegna sérkenna íslenzks þjóðfélags gæti þetta
falið í sér nokkra hættu. En af því, sem sagt
var í upphafi þessa máls, má skilja, að íslenzk
málvöndunarstefna er byggð á traustum grunni.
Hún á að baki sér langa og merka sögu, og rætur
hennar liggja djúpt. Hún er orðin þátmr í al-
mennri menntun og uppeldi hvers Islendings, og
er þess því að vænta, að áhrifa hennar gæti lengi
enn.
Gunnlaugttr Ingólfsson.
44