Goðasteinn - 01.09.2009, Síða 62
Goðasteinn 2009
Engar sagnir munu til um þetta forna bæjarstæði en landið umhverfis ber nafn
bæjarins og afmarkast af Fremsta-Kanastaðagili að vestan, á móti gömlu Þórólfs-
fellsjörðinni, og austur að Gilsárgljúfri. í landinu eru einnig Mið- og Innsta-
Kanastaðagil sem skerast þarna niður um undirhlíðar Tindfjalla. Áhugavert ætti að
vera fyrir fornleifafræðinga að rannsaka þessar bæjarrústir. Mörg dæmi eru um
bæjarnöfn með -land í síðari lið).
Þeir sem töldu frásögn Njálu um ferð Flosa og manna hans, norðan Eyja-
fjallajökuls ofan í Goðaland, sönnun þess að Emstrur og Almenningar hafi áður
fyrr nefnst Goðaland, hafa leitt hjá sér aðra leiðarlýsingu í Njálu. Þar segir um
liðssafnað þann er hugðist leita Flosa og manna hans eftir Njálsbrennu: „... fóru
sumir hið fremra austur til Seljalandsmúla, en sumir upp til Fljótshlíðar, en sumir
hið efra um Þríhyrningshálsa og svo ofan í Goðaland. Þá riðu þeir norður allt til
Sands ..."
Engum sem til þekkir gæti dottið í hug að hægt væri að lýsa ferð austur um
Þríhyrningshálsa og ofan í Emstrur eða Almenninga. Aftur á móti lýsir það vel
leiðinni um Þríhyrningshálsa, inn Hraun og norðan Þórólfsfells ofan í Kanastaði
og þaðan inn Fljótshlíðarafrétt og allt norður til Sands, nú Mælifellssands. Þá má
einnig benda á frásögn Njálu þar sem Kári er að villa um fyrir óvinum sínum: „...
Kári lét Björn það segja nábúum sínum að hann hefði fundið Kára á förnum vegi
og hann riði þaðan upp á Goðaland og svo norður á Gásasand og svo til
Guðmundar hins ríka norður á Möðruvöllu.“
Osennilegt verður að teljast að ferð norður Gásasand (Sprengisand) hæfist með
því að ríða inn um Þórsmörk, Almenninga og Emstrur. Eðlilegra væri að ríða frá
Mörk vestur yfir Fljótið þar sem það kvíslast á Aurnum sem er alfaraleið upp á
Kanastaði (Goðaland?) og inn Fljótshlíðarafrétt og áfram inn Laufaleitir og
Landmannaafrétt norður til Sprengisands.
Markarfljót er auravatn eftir að gljúfrinu sleppir og dreifir sér þá í fleiri
kvíslar. Þetta á alveg sérstaklega við á aurunum suðaustur og suður af Þórólfsfelli.
(Vitna má í það sem Pálmi Hannesson rektor segir í ritinu „Göngur og réttir“, I.
bindi bls. 211 efst:„... þar sem ár falla fram úr gljúfrum og taka að slá sér út á
undirlendi, eru oftast bestu vöðin á þeim“.
Pálmi ferðaðist fjölmörg sumur á hestbaki víðs vegar um landið við náttúru-
rannsóknir sínar og lýsir þarna eigin reynslu). Áður en brúagerð hófst settu menn
ekki fyrir sig að ríða vatnsföll. Það var hluti af daglegu lífi og þótti yfirleitt ekki
frásagnarvert.
Eftir ofangreindar athuganir á ferðafrásögn Eggerts Ólafssonar og félaga frá
26. og 27. ágúst 1756 og samanburð við heimildir Landnámabókar og Njáluhöf-
undar með hliðsjón af örnefnum og staðháttum sem um ræðir má velta fyrir sér
eftirfarandi spurningu: Er hugsanlegt að npprunalega hafi nafnið Goðaland, frá
60