Goðasteinn - 01.09.2009, Síða 137
Goðasteinn 2009
mæðgin, Ingibjörg og Jón, kaup á Efri-Úlfsstöðum í Landeyjum eftir söluna á
Borgarkoti en þangað flutti Ingibjörg aldrei. Hún undi hins vegar hag sínum
vel á Kirkjuhvoli þar sem hún naut góðs félagsskapar og hlýju margra
sambýlinga sinna, sérstaklega vilja aðstandendur færa Guðrúnu Sveinsdóttur
þakkir fyrir alla hennar ljúfmennsku, hjálp og stuðning. Öllu þessu góða fólki,
hjúkrunar- og heimilisfólki er hér með þakkaður kærleikurinn.
Ingibjörg eignaðist tvö börn sem eru þessi: 1) Þórunn Ásta Sveinsdóttir
fædd 1943, búsett í Reykjavík. Hennar börn eru Ingibjörg Ólafsdóttir, fædd
1967, og Sigþór Sigmarsson, fæddur 1971. Ingibjörg á þrjú börn og Sigmar
eignaðist tvíburadætur fyrir fáeinum dögum. 2) Jón Sigurðsson, fæddur 1956,
búsettur á Efri-Úlfsstöðum, Landeyjum. Börn hans eru Kristófer, fæddur 1983,
Páll, fæddur 1990, Guðný Halla, fædd 1991 og Elsa Björg, fædd 1997.
Sambýliskona Jóns er Jórunn Helena Jónsdóttir kennari.
Ingibjörg var aðeins þriggja ára gömul þegar faðir hennar drukknaði á
Landeyjafjörum, þá 29 ára gamall. Við það kom mikið los á íjölskylduna og
voru bræður hennar sendir í fóstur hingað í Hlíðina, líklega af því að faðir
þeirra var ættaður héðan. Sjálf fylgdi hún móður sinni sem réð sig í hús-
mennsku hingað og þangað fyrstu árin eftir slysið. Ekki er vafi á að þetta hefur
sett sitt mark á Ingibjörgu þótt hún flíkaði því ekki fremur en öðrum
tilfinningum sínum. Kolbrún uppeldissystir hennar sem einnig var send til
vandalausra vegna fjölskylduaðstæðna sagði mér að Ingibjörg hefði tekið svo
miklu ástfóstri við sig að sér stæði það enn ljóslifandi í barnsminni. Líklega
hafi Ingibjörg að ákveðnu marki endurlifað það umkomuleysi og óöryggi sem
hún sjálf hafði mátt ganga í gegnum sem ungbarn þótt móðir hennar reyndi allt
sitt. Kannski ekki síst þess vegna hafi hún viljað sýna Kollu systur sinni að nú
væri hún komin í öruggt skjól og athvarf.
Hún var mikil hannyrðakona, einkum fékkst hún við að prjónaskap og
eru klukkurnar hennar með mynstrunum mörgum í minni. Hún kunni
sérstaklega vel til verka á prjónavélar og gat þvælt út úr þeim ótrúlegustu
voðum og værðum.
Sr. Önundur S. Björnsson, Breiðabólastað í Fljótshlíð
135