Goðasteinn - 01.09.2009, Page 141
Goðasteinn 2009
þeir góðar minningar úr ys og þys mannlífsins sem blómstraði í einni mestu
verstöð landsins fyrr og síðar. Jón var hins vegar heima og annaðist búið og
gamla fólkið í fjarveru yngri bræðra sinna og varð ekki skotaskuld úr því
verkefni fremur en öðrum sem hann tók sér fyrir hendur.
Jón var hestamaður góður og átti góða og fallega hesta, flesta leirljósa
en rauða innan um. Hann hafði yndi af að fara á bak.
Uppsalabræður voru veðurglöggir menn og spáðu mikið í veðurfar, lásu
það af skýjafari og vindáttum o.s.frv. Kannski má segja sem svo að
veðurfregnir og veðurspár frá Veðurstofu íslands sem fluttar voru í útvarpi hafi
verið þeim sem helg stund. Þá gátu þeir séð og heyrt hversu nær sanni eða fjær
þeirra spár voru spám sérfræðinganna. Mér er sagt að oft hafi þeir haft betur í
þeirri viðureign.
Jón var hárskeri sveitarinnar þótt ómenntaður væri í því fagi. Hann
hafði þennan hæfileika hreinlega meðfæddan í fingrunum. Að Uppsölum komu
loðnir kollar sveitarinnar, stórir og smáir og fóru þaðan klipptir og snyrtir.
Ekki leikur vafi á að Jón hefur notið vel þeirra samverustunda sem hann við þá
iðju átti með sveitungum sínum og vinum, jafn félagslyndur og fróðleiksfús og
hann var.
Jón var hæglátur maður, viðmótsgóður og hlýr. Hann heilsaði á sérlega
hlýlegan hátt, tók þéttingsfast í hönd og strauk svo handarbak gests með vinstri
höndinni. Þrátt fyrir hið milda yfirbragð var hann fastur fyrir, ekki síst ef hann
var búinn að taka einhverja ákvörðun eða ef honum var misboðið í einhverju.
Allt hans hljóðláta svipmót og atferli bar með sér sálarjafnvægi og festu og
ekki þurfti hann mörg orð til að senda skilaboð umhyggju og hlýju, þau
skilaboð sendi hann á sinn hljóðláta hátt. Jón hafði gaman að fá fólk í
heimsókn og gaf sér góðan tíma til skrafs um heima og geima. í seinni tíð hygg
ég að honum hafi þótt jafnvel betra að spjalla í síma og hefur það áreiðanlega
helgast af því að hann heyrði þá betur í viðmælanda sínum
Sr. Önundur S. Björnsson, Breiðabólstað í Fljótshlíð
139