Goðasteinn - 01.09.2009, Page 147
Goðasteinn 2009
meistarabréf 1970 við mjólkuriðnina. Glaðastur í starfi var hann sem
ostameistari við gerð osta, einkum Camembert osta.
Hann varð þó áreiðanlega sáttastur þegar hann fann konuna sína. Hann
fór um sunnlenskar sveitir á mótorhjóli sínu í fríunum sínum og í einni slíkri
ferð hefur hann heillað heimasætuna í Miðkrika í Hvolhreppi, Valgerði
Jóhannsdóttur. Þau giftu sig 1947 og hófu búskap saman á efri hæðinni í
fbúðarhúsinu Bjargi á Selfossi þar sem þau bjuggu til 1956 þegar þau fluttu í
húsnæði sem þau byggðu að Smáratúni 10 með sínum stóra matjurta- og
skrúðgarði sem varð með hverju búskaparári þeirra þar frjósamari og fallegri.
Börnin þeirra fæddust, Valgerður Anna 1948, Kristján 1950 og Ása
Nanna 1953. Hjónin voru samhent, hún skipulagði störfin heima fyrir og hann
var sáttur við að koma heim og njóta hvíldar frá löngum starfsdegi, dag hvern
nema sunnudaginn nær öll starfsárin sín. Jafnframt því tók hann þátt í
garðyrkjustörfum ineð konu sinni, hélt sína dagbók af nákvæmni, gerði upp
heimiliskostnaðinn og reyndi að sjá fyrir útgjöld þannig að hægt væri að standa
við loforð og áætlanir. En hann fann einnig tíma fyrir félagsstörf, var einn af
stofnfélögum Mjólkurfræðingafélags íslands og sat í stjórn þess um árabil.
Hann var skákmaður góður og eignaðist góða vini sem taflfélaga, einnig í
störfum sínum, því hann var opinskár, hreinlyndur og gladdi aðra með sínu
létta skapi.
Þegar starfi lauk við sjötugsaldur tengdist gleði Mangors við að fara
utan árlega með konu sinni, til ættingja í Danmörku og annarra landa, ásamt
því að gleðjast með vinum sínum, spila og tefla og safna frímerkjum. Þegar
konan hans lést 2005 kom í ljós að Mangor leið af heilabilun sem ekki hafði
reynt verulega á meðan hann naut fylgdar og umhyggju konu sinnar.
Fór hann þá í hvíldarinnlögn á Dvalarheimili aldraðra í Hjallatúni í Vík
og stuttu síðar á Dvalarheimili aldraðra á Kirkjuhvoli á Hvolsvelli, þar sem
hann andaðist 15. september 2008. Útför hans fór fram frá Selfosskirkju 23.
september 2008.
Sr. Halldór Gunnarsson, Holti
145