Goðasteinn - 01.09.2009, Page 159
Goðasteinn 2009
dýravinur. Hann var náttúrubarn og vel læs á allt í umhverfi sínu og sérstakt
dálæti hafði hann á fuglum. Hann sá alltaf það góða í hverri manneskju og var
ekki langrækinn. Sighvatur var áhugamaður um mótorhjól og stofnfélagi í
mótorhjólaklúbbnum Postularnir. Hann var góður faðir og lærðu börn hans
margt af samvistum við hann, bæði varðandi vinnu og umgengi við náttúruna.
Sighvatur var lífsglaður maður og er hann veiktist glímdi hann við
veikindi sín af krafti, í hans huga var aldrei tilefni til uppgjafar. Hann barðist
með öllum tiltækum ráðum og var húmorinn eitt af hans vopnum og alveg
sérstaklega húmorinn fyrir sjálfum sér enda var hann gamansamur. Það var
ekki síst vegna jákvæðni hans að bærilegra reyndist öllu hans fólki að sætta sig
við örlögin. Sighvatur lést á Landsspítalanum í Reykjavík 8. júlí 2008 og var
útför hans gerð frá Þykkvabæjarkirkju 16. júlí 2008.
Sr. Guðbjörg Arnardóttir, Odda
Sigríður Theódóra Jónsdóttir frá Lunansholti
Sigríður Theodóra Jónsdóttir var fædd 25. ágúst
1927. Foreldrar hennar voru hjónin í Lunansholti, Jón
Eiríkur Oddsson, þar borinn og barnfæddur og
Guðrún Sæmundsdóttir frá Lækjarbotnum. Hún var
þriðja í röð fimm systra en hinar eru: Oddný,
Ingiríður, Guðrún og Þuríður. Dóttir Sigríðar og
Ólafs Hannessonar, Jóna Guðrún, f. 15. mars 1955.
Sigríður ólst upp í Lunansholti í skjóli ástríkra foreldra og í glaðværum
hópi systra sinna. Ung að árum fékk hún að kynnast sorgum lífsins. Móðir
hennar Guðrún veiktist alvarlega og andaðist þegar Sigríður var á níunda ári en
faðir hennar hélt áfram búskap og með góðri aðstoð hélt hann saman heimilinu
með dætrum sínum ungum en Þuríður sem var yngst var tekin í fóstur til góðra
vina og granna, þeirra hjóna Ingvars Árnasonar og Málfríðar Árnadóttur á
Bjalla. Það kom í hlut þeirra systra eftir að móðir þeirra andaðist að sjá um
heimilishaldið og önnuðust þær það með miklum sóma og myndarbrag. Hefur
alla tíð verið einstaklega kært með þeim systrum og þær samrýmdar og
samhentar og jafnan nefndar í einu orði systurnar í Lunansholti.
157