Goðasteinn - 01.09.2009, Síða 162
Goðasteinn 2009
vel við sig við veiðar, jafnvel þótt hann væri einn enda vandist hann einverunni
og því að liggja við lítinn útbúnað og kost uppi á heiðum, þar var hans ríki.
Þolinmæðisverk var að liggja fyrir tófu en þá þolinmæði hafði Sigurður tamið
sér og hún einkenndi allt hans fas. Hann var vel læs á atferli tófunnar og náði
undraverðum árangri við veiðarnar. Þó bar hann virðingu fyrir refnum,
dugnaði hans og útsjónarsemi. Aðrar veiðar stundaði hann sem og hafði góða
þekkingu á skotvopnum og hafa fjölmargir notið leiðsagnar hans og reynslu
við veiðar. Hann var einnig vel kunnur örnefnum og kennileitum, þekkti m.a.
margar leiðir í Hekluhrauni. Sigurður var mikið góðmenni og hann einkenndi
jákvæðni og lífsgleði, hann var barngóður og hafði gott lag á því unga fólki
sem vann undir hans ráðsmennsku í Gunnarsholti. Hann var gjafmildur,
greiðvikinn og reiðubúinn til hjálpar hverjum sem til hans leitaði. Um þetta
vitna mörg trygg vinatengsl enda nutu allir góðs af sem áttu hann að. Sigurður
bjó í Gunnarholti en lést á Dvalarheimilinu Lundi 17. apríl 2008. Útför hans
var gerð frá Oddakirkju 26. apríl 2008, jarðsett var í Sólheimakirkjugarði í
Mýrdal.
Sr. Guðbjörg Arnardóttir, Odda
Sigurður Ingi Guðjónsson frá Neðri-Þverá
í Fljótshlíð
Sigurður Ingi var fæddur 24. okt. árið 1923 að Neðri-
Þverá í Fljótshlíð. Hann lést á Heilbrigðisstofnun
Suðurlands á Selfossi hinn 17. mars s.l. Hann var
sonur hjónanna Sigríðar Sigurðardóttur húsfreyju frá
Árkvörn í Fljótshlíð og Guðjóns Árnasonar bónda frá
Neðri-Þverá. Sigríður móðir hans var fædd 1894, lést 1977 en Guðjón fæddist
1886 og lést 1954. Sigríði og Guðjóni varð sex barna auðið en þau eru þessi í
aldursröð: Elín húsfreyja í Reykjavík, f. 1918, lést í ágúst 1983; Þórunn
húsfreyja í Borgarholti í Ásahreppi, f. 1919; Sigurpáll bóndi á Neðri-Þverá, f.
1921, hann lést í júlí 2001; Sigurður Ingi sem við kveðjum hér í dag; Árni
lögfræðingur, búsettur á ísafirði, f. 1928, lést í sept. 2003 og yngstur er
Magnús rafvirkjameistari í Kópavogi, f. 1936.
160