Goðasteinn - 01.09.2009, Page 167
Goðasteinn 2009
Sigurþór Jónasson frá Efri-Kvíhólma, Vestur-
Eyjafjöllum
Hann fæddist 1. júlí 1913 foreldrum sínum hjónunum
Guðfinnu Arnadóttur frá Mið-Mörk og Jónasi
Sveinssyni frá Rauðafelli og var næstyngstur í hópi 9
systkina og einnar uppeldissystur og sonardóttur en
eftirlifandi eru: Elín, Guðný Bergrós og Guðfinna,
uppeldissystir hans.
1904 hafði fjölskyldan flutt frá Mið Mörk, að
Efri-Kvíhólma og tekist þar á við lífsbaráttuna með
lítið bú, þrjár kýr í fjósi og nokkrar kindur en stækkandi fjölskyldu sem varð
samhent að vinna úr öllu sem til féll.
Tíu ára gamall var hann sendur að heiman til að létta á heimilinu til
móðurbróður síns Sigurjóns Árnasonar að Mið-Mörk og var þar fram yfir
fermingu. Þar lauk hann sínu barnaskólanámi á farskólum á næstu bæjum sem
dugði honum ævilangt með sjálfsnámi og eðlishæfileikum, einkum við járn- og
málmsmíðar.
Hann fór að vinna upp úr fermingu fyrir heimili sínu í Efri-Kvíhólma á
vertíð í Vestmannaeyjum en kom heim í sumarvinnu. Járnsmíðar léku þá þegar
í höndum hans og fór hann því einn vetur til vinnu í vélsmiðjunni Héðni í
Reykjavrk þar sem verkstjórinn vildi bjóða honum framtíðarstarf með
járnsmíðanámi inniföldu en Sigurþór taldi að hann gæti ekki þegið það því
heimilið þyrfti stuðning hans við búskapinn. Hann vann síðar hjá Einari
Guðjónssyni í Bjargi, þeim merka hugvitsmanni, sem sá hvað í Sigurþóri bjó
og hvatti hann til að koma í vinnu hjá sér en Sigurþór vildi sem fyrr ekki
yfirgefa foreldra sína. Þegar faðir hans lést 1946 hætti Sigurþór vinnu út í frá
og stóð að búi með móður sinni frá þeim tíma til dánardags hennar 1972 og
síðan einn með húsdýrum sínum, vinunum sínum, til 1999 þegar hann brá búi
og flutti á dvalarheimili aldraðra að Kirkjuhvoli.
Sigurþór var ekki mikill bóndi til búverka en hann var sannur bóndi í
því að vera trúr foreldrum sínum, jörðinni, hundinum sínum og húsdýrunum
og heimilinu þar sem hann fæddist.
165