Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1975, Blaðsíða 50
drögum við rætur Hengils, því að þar hefi ég
orðið var við straumandavarp, en háttur er það
þeirrar fuglategundar að verpa eingöngu við
iindár lengst upp til fjalla og láta svo ungana
berast með straumvötnum til sjávar, þar sem
fuglinn leitar vetrarsetu og prýðir með lita-
dýrð steggsins öldufaldana við ströndina og
nefnist þá af sumum brimönd.
A vötnum Heiðmerkur og þá sérstaklega á
smátjörnum mýrlendanna má sjá óðinshana
við skrifaraiðju sína. Hringsnúningurinn og
goggdýfurnar þjóna hvortveggja mataröflun-
inni. Sama hátterni má sjá til fýla á sjó, er þeir
róta upp smáátu.
☆
Slíkar fuglaskoðunarferðir um Heiðmörk sem
ég hefi hér sagt frá, vildi ég ráðleggja lesand-
anum að fara að vor- eða sumarlagi. Enginn
staður í nágrenni Reykjavíkur veitir á litlu
svæði svo mörg kjörlendi fugla, svo að búast
má við að sjá auðveldlega um 30 tegundir.
☆
Ganga um kjörlendi fugla í Heiðmörk á
frídögum verslunarmanna veitir ekki eins mikla
möguleika til þess að sjá eða heyra í fuglum
eins og að vorlagi. Fuglar taka sumarið snemma
og halda burtu áður en við mennirnir teljum
því lokið.
Fyrstu helgi í ágúst hefi ég átt unaðslega
ferð síðdegis um Heiðmörk. Eg naut að sjá
rjúpnafjölskyldur læðast niður af heiðinni.
Meiri varfærni eða laumulegheit er vart unnt
að sjá.
Heyra lómsvæl af vötnunum eða himbrima-
kall úr lofti eða af vatni eru ógleymanleg
hljóð í ljósaskiptunum — eða vera svo hepp-
inn að sjá spóa fljúga þögula í hóp af
heiðinni niður yfir Elliðavatn, sem er spegil-
slétt í kvöldkyrrðinni, fylgja hópnum eftir
þar sem hann flýgur lágt með vatnsfletinum
háttbundið með léttum flugdyn og sjá hann
svo allt í einu stefna upp á við og taka stefnu
í suðvestur yfir Bláfjöll og hverfa — þú hefur
séð sumargesti kveðja kjörlendi sitt.
48
ÁRSRIT SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS 1975