Helgarpósturinn - 06.03.1986, Blaðsíða 2

Helgarpósturinn - 06.03.1986, Blaðsíða 2
ÚR JÓNSBÓK Vitsmunaleg upplifun Gagnrýnandi nokkur komst svo að orði í leikdómi í vetur að tiltekin sýning hefði ekki verið „vitsmuna- leg upplifun". Þessi ummæli hlýtur að eiga að skilja' svo að gagnrýnandinn hafi farið jafnheimskur út af sýningunni og hann fór inn á hana, og þar sem hér átti í hlut mjög gáfaður gagnrýnandi þótti honum þetta mikill ljóður á sviðsverki sem hann taldi að öðru leyti allrar athygli vert. Ég verð að viðurkenna að fyrrgreind umsögn gagnrýnandans dró úr mér alla löngun til að sjá leik- ritið þar sem ég legg stund á andlegar menntir — þeirra á meðal þessi skrif — í þeim tilgangi fyrst og fremst að auka við vitsmunalegan þroska minn. Tel ég ekki síst ástæðu til þess arna eftir að fjörkippur hljóp í innlenda dagskrárgerð hjá sjónvarpi. Að vísu var hugsanlegt að viðbrögð okkar gagnrýnandans yrðu ekki hin sömu. Vel má vera og er reyndar ósk- andi að gagnrýnandinn hafi hlotið í vöggugjöf meiri vitsmuni en mér voru gefnir og til þess bendir meðal annars að ég hef lesið eftir hann gagnrýni á íslenskar skáldsögur, sem ég þveittist í gegnum án þess að hnjóta um tiltakanlega vitsmuni en virðast hafa orð- ið honum vitsmunaleg upplifun. Gat því farið svo að ég yrði vitsmunalega uppnuminn á téðri sýningu og bætti ögn við þroska minn þó að gagnrýnandinn hefði ekki fundið neina tiltakanlega framför á sjálf- um sér. Ég hætti samt ekki á að reyna og get því ekki lagt dóm á réttmæti tilvitnaðra ummæla gagnrýn- andans. Hitt þori ég að fullyrða að ekki er gulltryggt að sá sem les öll samanlögð skrif íslenskra gagnrýn- enda og fylgist náið með íslensku þjóðlífi verði ævin- lega fyrir vitsmunalegri upplifun. Stundum er engu líkara en íslendingar gleymi því gersamlega að þeir eru — þrátt fyrir allt — gæddir vitsmunum. Slíkt er að sjálfsögðu eðlilegt, þegar, menn eru kófdrukknir, en með öllu ófyrirgefanlegt að gleyma þessu, þegar menn eru allsgáðir, eins og gerðist hjá Hafnfirðingum og Garðbæingum þegar þeir tóku ákvörðun við almenna atkvæðagreiðslu að óska eftir áfengisútsölu. Bindindismenn, læknar og sálfræðingar, fyrsta flokks vitsmunaverur, voru bún- ir að tíunda allan þann voða sem biði Hafnfirðinga og Garðbæinga ef þeir ættu jafnstutt í ríkið og Reyk- víkingar, og bentu reyndar á höfuðborgarbúa sem víti til varnaðar, en allt kom fyrir ekki. Kosningarnar voru um helgi og hörmuleg úrslit verða ekki skýrð nema gert sé ráð fyrir að meirihluti kjósenda hafi verið timbraður þegar hann fór á kjörstað. Vitsmunir og skynsemi náðu ekki að sigra í þessum kosningum um áfengisútsölurnar og er það miður því að þetta voru ekki flokkspólitískar kosningar og þess vegna ástæða til að vona að vitsmunir og skynsemi réðu úrslitum líkt og gerðist þegar alþingi afgreiddi bjór- frumvarpið í fyrravor. Það má þó segja með sanni að hverjum manni er vitsmunaleg upplifun að kynna sér bjórsölutilhögun á íslandi með hliðsjón af ann- arri áfengisneyslu. Haft var eftir kunnum stjórnmálamanni í dagblaði nokkru að útlendingar skildu ekki bjórbann á Islandi og þess vegna hlyti bjórbannið að vera vitlaus stefna. Þessu er ég ekki sammála. Mér er mjög til efs að skilningur útlendinga sé mælikvarði á vitsmuna- lega upplifun íslendinga og ávexti hennar. Útlendir jafnaðarmenn skilja til dæmis ekki stefnu hins ís- lenska jafnaðarmannaformanns en þar með er ekki sjálfgefið að hann sé vitlaus formaður. Útlendingar skilja ekki alltaf hvers vegna íslendingar eru svona ánægðir með sjálfa sig, en þar með er ekki heimilt að álykta sem svo að íslendingar hafi enga ástæðu til þess. Þeir þurfa einungis að gæta þess að gleyma ekki vitsmunum sínum. Það er til dæmis sárgrætilegt hversu margir stór- efnilegir svindlarar hafa lent í klónum á réttvísinni á undanförnum mánuðum fyrir hreinan klaufaskap og grunnfærni. Er engu líkara en þjóðin haldi al- eftir Jón Örn Marinósson mennt að hver geti svindlað á öðrum og brotið lög og siðareglur án þess að beita yfirvegun og vitsmun- um og standa þannig að verki að til fyrirmyndar sé. Án þess ég vilji hreykja sjálfum mér um of þá get ég staðhæft hér að aldrei flaug mér í hug, þegar mér varð ljóst að ég yrði að afla fjölskyldu minni fram- færis á annan hátt en þann að stunda almenna vinnu á umsömdum töxtum, að þar með gæti ég slegið öllu upp í kæruleysi og hætt að beita því litla af vitsmun- um sem skaparinn lét mér í té ásamt hæfiieikanum til að greina á milli góðs og ills. Þvert á móti: ég gerði mér fyllilega grein fyrir að vildi ég halda æru og mannorði út á við og hafa jafnframt lífvænlegar tekj- ur af svindlinu, yrði ég alveg undantekningarlaust að standa skynsamlega að verki. Og það get ég full- yrt að í því er fólgin einstök vitsmunaleg upplifun að sjá vel undirbúið og gott svindl ganga upp. Ekki vil ég gefa í skyn með skrifum þessum að ís- lendingar beiti nú vitsmunum verr og sjaldnar en oftast áður. Þess eru jafnvel dæmi að menn eru farnir að nota vitsmuni í tilfellum þar sem slíkt hefur aldrei tíðkast nema að litlu leyti. Dæmi um slíka kúvendingu er nýgerðir kjara- samningar. Þar var beitt slíkum vitsmunum að þarf talsverða vitsmuni til að glöggva sig á að hér er um kjarasamning að tefla. í upphafi samningaviðræðna átti þjóðin von á því nú eins og alltaf áður að skyn- semin kæmist hvergi að á þrotlausum karpfundum launafólks og atvinnurekenda, en það fór allt á ann- an veg. Samningamenn voru svo skynsamir, hóg- værir og réttsýnir, í einu orði sagt vitsmunalegir, að stafaði ljóma inn á hvert alþýðuheimili í landinu frá fundarstaðnum í Garðastræti. Ríkisstjórnin ákvað þá þegar að fela svo skynsömum mönnum að stjórna landinu fyrir sig. Ég get alls ekki fallist á þá gagnrýni stjórnarandstöðunnar að með þessari ákvörðun hafi ríkisstjórnin endanlega opinberað getuleysi sitt. Ég held þvert á móti að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinn- ar endurspegli vitsmunalega upplifun í stjórnarráð- inu og mér kæmi alls ekki á óvart þó að komandi kynslóðir teldu þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar skynsamlegustu ákvörðun hennar það sem af er valdaferlinum. Á alþingi komust menn svo að þeirri skynsamlegu niðurstöðu að samþykkja hinar skyn- samlegu niðurstöður samninganefndanna í Garða- stræti og nú bíður launafólk þess með eftirvæntingu að fá hinar skynsamlegu niðurstöður í budduna sína. Leikur ekki nokkur vafi á að þá verður upplifun launafólks fremur vitsmunalegs en fjármunalegs eðlis. HAUKURí HORNI Fyrir og eftir kjarasamning- ana „Mikiö er gott að eiga ríkisstjórn sem hugsar um okkur launafólkiðy/ 2 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.