Helgarpósturinn - 26.06.1986, Blaðsíða 33

Helgarpósturinn - 26.06.1986, Blaðsíða 33
Norræn leiklistarhátíð áhugamanna í Reykjavík: Mikil lyftistöng fyrir íslensk áhugaleikhús í fyrsta sinn í sögu leiklistar koma saman i Reykjavík allar norrænu þjóðirnar með sprelllifandi norræn- an menningararf. Aður hafa Danir, Finnar, íslendingar, Norðmenn og Svíar haldið saman leiklistarhátíðir en nú bætast í hópinn Álandseying- ar, Færeyingar, Grænlendingar og Samar. Stórkostlegt framtak hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga og Norræna áhugaleikhúsráðinu og FIP óskar bandalaginu til hamingju! „Við erum óskaplega lukkuleg, með atriðin sem þegar hafa farið fram, sagði Sigrún Valbergsdóttir, framkvœmdastjóri BIL og norrœnn- ar leiklistarhátídar áhugamanna í Reykjavík. „Nú þegar er orðið troð- fullt á allar leiksýningarnar í Bæjar- bíói í Hafnarfirði og Iðnó og við eig- um von á mjög góðri aðsókn á sýn- ingarnar í Þjóðleikhúsinu." 170 áhugaleikarar frá Norður- löndunum , þar af 70 Finnar, eru komnir hingað til lands til að leika á hátíðinni og í íslensku leikhópunum eru 150 manns. Leiklistarhátíðin er öll hin fjölbreyttasta. Auk a.m.k. 15 leiksýninga verður Leiksmiðja í Kramhúsinu í umsjón Royston Muldoon danshöfundar og dans- kennara við Dundee Theater í Skot- landi og Maureen Thomas leikkonu þar sem leiðbeint verður í skúlptúr- dansi, dansspuna og látbragðsleik og verða Eddukvæði lögð til grund- vallar. Samfara hátíðinni heldur Norræna áhugaleikhúsráðið aðal- fund sinn í Reykjavík. Að sögn Sigrúnar hefur undirbún- ingur hátíðarinnar, sem staðið hefur frá árinu 1983, verið mjög marg- þættur. Stór þáttur í honum hefði verið að vinna að því að fá styrki, en stjórn Norræna áhugaleikhúsráðs- ins og Einar Njálsson, formaður BÍL, hefðu séð um þá hlið mála. Kostnað- ur við hátíðina væri áætlaður um 5 milljónir íslenskra króna. Skrifstofa BÍL hefði hins vegar séð um skipu- lagningu og tæknilega framkvæmd hátíðarinnar. „Þetta er búið að vera gífurleg vinna og síðustu 3 mánuð- ina hefur skrifstofan ekki sinnt öðru.“ Sigrún sagði að þegar í Ijós hefði komið að leiklistarhátíðin yrði að raunveruleika hefðu öll atvinnu- leikhús borgarinnar verið boðin og búin að hjálpa til og á fjórða tug manna úr BÍL hefðu unnið gífurlega mikla sjálfboðavinnu á liðnum vik- um. Ríki og borg hefðu að auki styrkt hátíðina og það hefði endan- lega gert hana að veruleika. „Þessi leiklistar hátíð á bæði eftir að verða til þess að áhugaleikarar allra þessara þjóða eiga eftir að skynja betur skyldleika sinn og hverju þær geta sameiginlega áork- að og auk þess á hátíðin eftir að verða mjög mikil lyftistöng fyrir ís- lensk áhugaleikhús, bæði hvað varðar verkefnaval og framsetning- armáta. Og svo á hátíðin auðvitað eftir að skilja skrifstofu hátíðarinnar eftir í rúst, en þú þarft ekki að skrifa það,“ sagði Sigrún og skellihló. Miðaverð á sýningar hátíðarinnar er að jafnaði 350 krónur, en hátíðin stendur fram til sunnudags 29. júní. -Mrún Hljómeyki vaknar aftur til lífsins Hljómeyki... það mun hvorki vera þjóðlagatríó nokkurra hippa né gömul rokkhljómsveit sem klofn- aði út frá Eikinni gömlu, eins og nokkrir gestir HP héldu þegar þeir voru að hrista upp í minninu, heldur tíu manna sönghópur sem syngur klassíska tónlist. En mikið rétt, hóp- urinn starfaði á árunum 1974—78 og flutti klassíska tónlist af miklum þrótti, bæði barokktónlist, nútíma- tónlist, madrígala o.fl. En nú hefur hópurinn tekið upp þráðinn og mun taka þátt í Skálholtstónleikum í lok julímánaðar. Hljómeyki ætlar að syngja „Óð- inn til tónlistargyðjunnar" eftir Benjamín Britten, nútímatónverk eftir norska tónskáldið Knud Nyst- ed, „Benedicto domino" eftir Dan- ann Vagn Holmbo og frumflytja verk eftir Jón Nordal sem hann samdi sérstaklega fyrir hópinn. „Það var einmitt Jón sem stuðlaði að því að við byrjuðum að syngja saman aftur með því að semja sér- staklega fyrir okkur þetta verk,“ sagði Áslaug Olafsdóttir, ein tíu- menninganna í samtali við HP. „En Helga Ingólfsdóttir semballeikari átti þar líka hlut að máli. í hópnum eru tvenn hjón og börn þeirra og tveir aðrir einstaklingar að auki. Okkur finnst þetta óskaplega gam- an og ætlum að reyna að halda áfram að starfa." Á tónleikunum í Skálholtskirkju mun Hljómeyki syngja við undirleik strengjahljóðfæra en í hópnum eru nokkrir efnilegir hljóðfæraleikarar. Liðsmenn Hljómeykis eru þau Hall- dór Vilhelmsson, Rúnar Einarsson, Sigurður Halldórsson, Hafsteinn Ingvarsson, Kristín Ólafsdóttir, Anna Sigríður Helgadóttir, Guð- finna Dóra Ólafsdóttir, Áslaug Ólafs- dóttir, Hildigunnur Halldórsdóttir, Hildigunnur Rúnarsdóttir og Marta Guðrún Halldórsdóttir. JAZZ Aö Goodman látnum eftir Vernharð Linnet. Það er bráðum hálfur mánuður síðan Benny Goodman lést. Það hefur varla farið framhjá neinum því þess var getið í útvarpi og kom meira að segja á forsíðu Morgun- blaðsins — það hefði þótt saga til næsta bæj- ar ef dauði djassleikara þætti forsíðufrétt hér á árum áður, en nú er öldin önnur og tónlist- in klassísk. Flestir meistarar stórsveitasvíngsins á ár- unum milli stríða eru nú látnir — Artie Shaw og Charlie Barnet eru trúlega einir á lífi af stórmeisturunum, að ógleymdum Cab Callo- way, sem fór á kostum í Cotton Club, syngj- andi Minnie The Mooche. Benny Goodman var kallaður king of swing, en hann var hvorki höfundur þess stíls né mestur meist- ari hans — afturá móti gerði hann svíngið að poppi síns tíma og það var afrek útaf fyrir sig. Benny eða Benjamín Davíð, einsog hann hét fullu nafni, fæddist árið 1909 í Chicago og var áttundi af tólf börnum rússneskra gyð- ingahjóna. Ungur fór hann að nema klari- nettleik og var svo heppinn að komast í læri hjá einleiksklarinettleikara Sinfóníuhljóm- sveitar Chicagoborgar, Franz Schoepp. Þar voru líka tveir blakkir nemendur og lærði Benny margt í djassfræðum af þeim: Jimmy Noone og Buster Bailey. Þegar Benny var tíu ára gat hann hermt eftir vinsælasta klari- nettleikara Bandaríkjanna, Ted Lewis, og fékk vinnu við slíkt í fjölleikahúsi. Þá var hann enn á stuttbuxum og það var hann líka þegar trompetleikarinn Jimmy McPartland hitti hann fyrst: „Getur þetta litla kríli blásið í klarinett? hugsaði ég. Hann er alltof lítill. En peyinn klifraði þá uppá sviðið og tók klarinettið og blés Roes of The Rio Grande, sem er erfitt lag — hljómagangurinn var tal- inn all erfiður á þessum árum. Apakötturinn litli blés sextán kóra og ég sat og gapti." Benny fór að leika með Chicago-strákunum: Bix Beiderbeck, Jack Teagarden, Joe Venuti, Eddie Lang og öllu því liði og átján ára var hann kominn í hljómsveit Ben Pollacks. Tví- tugur lék hann með Red Nichols og tuttugu og fimm ára stofnaði hann eigin hljómsveit og naut til þess aðstoðar John Hammonds. Þetta var hörkuband og helsti útsetjari þess einn af feðrum svíngsins: Fletcher Hender- son, sem stjórnaði heitasta negrabandinu í New York. Það var ekki lítið fjör þegar Good- man-bandið tryllti í útsetningum hans eins- og King Porter Stomp, Sugar Foot Stomp eða Down South Camp Meeting og Bunny Berigan og Goodman blésu af lífs og sálar kröftum. Benny Goodman hljóðritaði ungur með Bessie Smith og Bix Beiderbeck. Hann var aldrei hrifinn af Bessie — hún var of gróf og frumstæð fyrir hans smekk. Benny var alltaf dálítið evrópskur, enda klassískmenntaður. Það var því ekki að undra að hann skyldi verða guðfaðir kammerdjassins er hann stofnaði fyrsta tríó sitt með Teddy Wilson og Gene Krupa og kvartettinn þar sem Lionel Hampton bættist í hópinn. Ekki það að kammerdjass hefði ekki verið leikinn fyrr — Jelly Roll spilaði þessa fínu kammermúsík með Dodds-bræðrum næstum áratug áður, svo eitthvað sé nefnt, en Goodman ruddi brautina um víða veröld og annað gerði hann — blandaði svörtum og hvítum hljóð- færaleikurum saman og fyrir það hlaut hann marga árásina. Benny Goodman leiddi djassinn inní hásali tónleikahallanna með Carnegie Hall tónleik- unum 1938 og þar bauð hann Basie og Ell- ingtondrengjum í veisluna. Árið eftir vann hann ekki síðra afrek þegar hann réð gítar- leikarann Charlie Christian til sín. Charlie er einn af frumherjum boppsins og sá er gerði rafmagnsgítarinn að djasshljóðfæri. Mörg verk sextettsins þarsem Christian, Cootie Williams og Basie ásamt öðrum léku með Goodman eru í hópi helstu snilldarverka djasssögunnar og það besta sem Goodman hefur gert, ásamt nokkrum stórsveitarverk- um og kvartettópusum. 1944 leysti Benny upp stórsveit sína og síð- an hefur hann fyrstog fremst leikið með smá- sveitum, þótt stórsveitir kæmu annað slagið inní myndina. Boppið heillaði hann um tíma en eftir 1950 hefur svíngstíllinn verið allsráð- andi. Varla verður svo skilið við Goodman að ekki sé minnst á klassískan feril hans. Béla Bartók, Aaron Copland og Paul Hindemith skrifuðu verk fyrir hann, svo nokkrir séu nefndir, og hann hljóðritaði m.a. klarinett- konserta Mozarts og Carls Nielsens. Við Is- lendingar urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að hlusta á Goodman á Listahátíð 1976, fjörutíu árum eftir að hann lék í Carnegie Hall. Það var ljúf upplifun, þótt Goodman væri, einsog Armstrong er hann kom hér, aldinn að árum og spilamennska hans bæri þess merki. Það heyrir til undantekninga að djassmeistarar um sjötugt geti spilað af tryllt- um krafti í fjóra tíma einsog Lionel Hampton í Háskólabíói 1982. En bara það að heyra hann blása Lady Be Good og aðra ópusa svíngtímans var aðdáendunum nóg. HELGARPÓSTURINN 33

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.