Íslendingaþættir Tímans - 03.08.1972, Blaðsíða 23

Íslendingaþættir Tímans - 03.08.1972, Blaðsíða 23
Áttræð: Steinunn Þorgilsdóttir Breiðabóls stað Steinunn Þorgilsdóttir, fyrrum hús- freyja á Breiðabólsstað á Fellsströnd i Dalasýslu, varð áttræð 12, júni s.l. Hún var húsfreyja á Breiðabólsstað þangað til fyrir fáum árum, að maður hennar andaðist. Gömlu hjónin höfðu seinustu árin búiö þarna á móti syni sinum og tengdadóttur, og nú situr hún þarna i ellinni i skjóli ungu hjónanna. En þó að maður segi af vana, að hún sitji þarna i elli sinni. þá á það ekki við um þessa konu. ellin er henni viðs fjarri. Ókunnur maður, sem kemur að Breiðabólsstað i fyrsta skipti og mætir Steinunni i dyrunum, verður i nokkr- um vanda að ráða við sig, hver sú kona sé, sem þarna birtist. vinnuklædd, i látlausum hversdagsfötum, ekki há vexti. grönn og létt á fæti eins og ung stúlka. en hrukkurnar i andlitinu og vinnulúnar hendur sýna, að hún er ekki ung aö árum. En ellimörkin eru eins og gegnsæ grima. á bak við er ung stúlka. minnir á heimasætu frá fyrstu áratugum aldarinnar. sem hefur horf- ið frá þvi ráði að gifta sig. Það sópar ekki að þessari konu á venjulegan máta, en hún ber með sér þægilegt, áreynslulaust jafnvægi. röddin er lág- stemmd en ung og þjál. Þessi kona virðist ekki hafa haft mikil kynni af áhyggjum eða erfiði um dagana. Hún hefur varla staðið i barneignum eða miklu búskaparumstangi. Liklega hef- ur hún bara verið frænkan á heimilinu — aðstoðarkona hjá góðu fólki. Kannski fylgir konan gestinum til stofu og sezt niður til að spjalla við hann, og þaö kemur fljótlega i ljós. að þarna er engin fávis vinnukona á ferð- inni. heldur vel menntuð og fróð kona. sem talar þá islenzku aö framburði og málfari. er sæma mundi hverjum langskólamanni. Og ef innt er eftir ævistarfi hennar kemur i jós, að hún hefur verið húsfreyja hátt i sex ára- tugi. átt sin börn og annazt uppeldi fleiri barna en algengast er um hús- freyjur þessa lands. Arið sem Steinunn fæddist, 1892, hófu foreldrar hennar búskap i Knarrar- höfn i Hvammssveit og höfðu áður eignazt son. En hann dó á barnsaldri, svo Steinunn var elzt þeirra systkin- anna. sem lifðu. Faðirhennar, Þorgils Friðriksson. var af fátæku bændafólki kominn. Hann var gáfumaður svo sem verið höfðu sumir forfeður hans og hafði hugur hans staðið til mennta, en islendingaþættir þar var fátæktin I vegi. Hann var mað- ur vel sjálfmenntaöur og alla ævi var hann mikill áhugamaður um skólamenntun. Kona hans var Hali- dóra Ingibjörg Sigmundsdóttir frá Skarfsstöðum, af góðu fólki komin. Litil munu efnin hafa verið, þegar þau byrjuðu búskap i Knarrarhöfn, og ómegð hlóðst niður. Fjórtán börn hafði Halldóra i heiminn borið, þegar hún tók sótt og andaðist haustið 1909,43 ára gömul. Yngsta barnið var þá árs- gamalt og sex voru börnin innan við sjö ára aldur. Tveir drengir voru dánir og tveir ólust upp annars staðar, hin voru heima, og'Steinunn elzt, sautján ára. Ekki var heimilið leyst upp, og ekki réð Þorgiis utanaðkomandi konu til búsforráða. heldur tók Steinunn við húsmóðurstörfum og annaðist uppeldi systkina sinna. Vinnukona var að visu á heimilinu meðan börnin voru ung. Auk húsmóðurstarfanna aðstoöaði Steinunn föður sinn við að kenna börn- unum skólalærdóm, þvi hann hafði ýmis störf utan heimilis, oddviti i sveitinni. endurskoðandi i sparisjóöi og kaupfélagi, afgreiðslumaður i verzlunarútibúi, og stundum var hann tima og tima heiman að við barna- kennslu. Þegar um hægðist hjá Steinunni og svstir hennar. Helga, sem var fimm árum yngri, var komin til verka, brá hún sér til höfuðstaðarins og hóf nám i Kvennaskólanum. En hún gerði sér lit- ið fyrir og fór i fjórða bekk og reyndist þar hlutgeng. Eftir vetrardvölina i Kvennaskólanum snéri Steinunn heim til föður sins og systkina og tók við heimilisstjórn á ný. En svo var barna- kennsla henni hugleikin. að næstu vet- ur fór hún heimanaö tima og tima til að kenna börnum nágrannanna. Árið 1918, þegar Steinunn var tutt- ugu og sex ára gömul, giftist hún efni- legum bóndasyni úr nágrenninu, Þórði Kristjánssyni frá Breiðabólstað á Fellsströnd og byrjuðu þau búskap i Knarrarhöfn. En Þorgils hætti þá bú- skap og var eftir það til heimilis hjá dóttur sinni og tengdasyni óg vann að bústörfum á sumrum en stundaði barnakennslu á vetrum. Kenndi hann til sjötiu og fimm ára aldurs, en varð 93 ára og lengst af ern og vinnufær Það kom af sjálfu sér að systkini Steinunnar. þau er i ómegð voru, fylgdu henni inni nýja heimiliö, og öli höfðu systkinin athvarf hjá þeim hjón- um svo sem hjá foreldrum væri. Eftir þriggja ára búskap i Knarrar- höfn fluttu þau Steinunn og Þóröur að Breiðabólsstað og bjuggu þar góðu búi þangað til Þórður andaðist áriö 1967. Steinunn eignaðist sjálf sex mannvæn- leg börn. Dóttur missti hún sautján ára gamla, en hin eru nýtir borgarar, og á hún orðið margt afkomenda. Einn sonur hennar er Friðjón Þórðarson sýslumaður og alþingismaður. Mörg systkina Steinunnar brutust til mennta, og einn bróðir hennar, Þór- hallur Þorgilsson bókavörður, sem nú er látinn, var magister i Suöurlanda- málum. Hjá Steinunni var löngum mann- margt heimili og gestanauð, og þvi mikið að starfa fyrir húsmóöurina, en hún lét sér ekki nægja að kenna sinum eigin börnum barnaskólalærdóm, heldur tók hún stundum á heimilið vandalaus börn, um nokkurra vikna tima i senn, til að kenna þeim. Kennari þótti hún ágætur og var sótt eftir að koma til hennar erfiðum börnum. Það hefur sagt sveitungi hennar, athugull maður, að nokkuð megi þekkja úr skrift margra þeirra er hjá henni iærðu, en hún er listaskrifari svo sem var faðir hennar. Sá, sem þessar linur skrifar, fékk sinn barnaskólalærdóm hjá Þorgilsi fööur Steinunnar. Smátt var skömmt- uð skólavistin á þeim árum, og var skólasetan fjórar vikur annan vetur- inn en sex hinn, alls tiu vikur. En ég held áð ég hafi ekki fengið öllu lakari veganesti út úr þessum tiu vikum, en börn fá nú úr barnaskóla, sem telur næstum þvi eins marga vetur og þarna voru vikur. Yfirferðin var vist stórum minni en i skólunum nú, en sú einlæga virðirig og ást á bóklegum lærdómum, sem kennarinn haföi til að bera, verð- ur ekki mælt i blaðsiöum. Þó að Steinunn ætti löngum annrikt heima fyrir, þá var hún manna viljug- ust að sinna fálags- og framfaramál- um. Hún var ötull þátttakandi i ung- mennafélagi sveitar sinnar, meðan slik fyrirtæki áttu gengi að fagna. Hún hefur verið i skólaráði húsmæðraskól- ans á Staðarfelli frá stofnun hans 1927, og prófdómari hefur hún verið við þann skóla frá upphafi og er enn. Og nú kennir Steinunn sonarbörnun- um á heimilinu, og mikið má vera, ef henni finnst það ekki hálfgerður óþarfi að vera að senda þau á heimavistar- skólann innan fermingar. Megi Steinunn á Breiðabólsstað, sem ekki hefur elzt nema að árum, halda æsku sinni og hreysti um mörg ár enn. Hnjóti i örlygshöfn, 14. júli 1972. Magnús Gestsson. 23

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.