Lögmannablaðið - 01.03.2006, Blaðsíða 24

Lögmannablaðið - 01.03.2006, Blaðsíða 24
Andlegri heilsu Marðar hefur hrakað síðustu mánuði enda hefur honum gengið illa að eiga í nánum samskiptum við konur. Tíðar ferðir á Kringlukrána hafa engan árangur borið í þeim efnum. Merði finnst einnig að mörgum kollegum sé í nöp við hann og hafa nokkrir stjörnulögfræðingar og femínistar í lögmannastétt látið hann heyra það vegna pistlaskrifanna. Þá hefur útlitið ekki skánað, vömbin stækkað og hárunum fækkað. Góðvinur Marðar ráðlagði honum að ganga í einhvern félagsskap sem einhleypt fólk sækir, eins og Útivist eða líkamsræktarstöðvar. Þá gæti Mörður slegið tvær flugur í einu höggi, náð sér í konu og lagað útlitið. Hvorugt hljómaði vel í eyrum Marðar. Útivistarliðið væri upp til hópa eitthvert vinstra lið og náttúruverndarpakk. Að auki gæti hann ekki sofið í tjöldum eða skálum í óbyggðum með ókunnugu fólki sem hljómaði eins og sögunarmyllur á nóttinni. Þá hefur Mörður alltaf átt erfitt með að gera þarfir sínar úti móa. Þó að líkamsræktarstöð hljómi vel veit Mörður að hann er líklegri til að ná sér í konu fullklæddur en á stuttbuxum. En Mörður telur að bjart sé framundan. Árshátíð Lögmannafélagsins er í næsta mánuði. Merði er boðið að sitja við háborðið með formanninum, stjórnarmönnum og starfsmönnum félagsins. Framkvæmdastjórinn hefur einnig boðist til að útvega borðdömu fyrir Mörð. Sagðist vita af einni nýfráskilinni sem hefði eingöngu áhuga á lögmönnum. Þá veit Mörður að kvenkynslögmönnum hefur fjölgað talsvert seinustu misseri og flestar einhleypar, einhverra hluta vegna. Einnig mun starfsstúlka hjá félaginu vera á lausu og hefur heyrst að hún hafi áhuga á Merði. Mörður hefur líka tekið eftir því að hún hringir oft í hann og sendir honum tölvupóst. Þótt hringingarnar séu vegna pistla Marðar og í tölvupóstinum sé verið að tilkynna um málþing kvenlögfræðinga, og helstu vandamál þeirra, finnur Mörður samt erótískan undirtón í samskiptunum. Mörður hlakkar mjög til árshátíðarinnar. Er að vísu svolítið áhyggjufullur um að verða sér til skammar. Þegar Mörður er spenntur á hann það nefnilega til að drekka aðeins of mikið, sérstaklega þegar fyrstu drykkirnir eru ókeypis. Þá á hann til að áreita fólk, bæði kynferðislega og með almennum leiðindum. Við þessar aðstæður vill Mörður oft gera upp gömul mál við kollegana og reynir jafnvel við eiginkonur þeirra. Að vísu hefur Mörður verið rólegur í þessum efnum undanfarin ár eða síðan hann var í tygjum við kvenkynsdómara og var boðið á árshátíð dómarafélagsins. Náði Mörður að leysa það samkvæmi upp þegar dómararnir fengu það óþvegið vegna vitlausra dóma í þeim málum sem Mörður tapaði. Mörður hefur undirbúið sig vel fyrir árshátíðina. Fór á dansnámskeið í haust með gamalli frænku sinni. Hún hafði sagt honum að góðir danstaktar ykju möguleika hans á nánum kynnum við hitt kynið. Var lögð áhersla á suður-ameríska dansa þar sem meiri kynferðislegur undirtónn er í þeim. Mörður viðurkennir að hann náði ekki góðum tökum á þessum dönsum, átti það til að svitna óhóflega í lófunum og missa takið á dömunni. Mörður mun því sennilega dansa eins og hann hefur gert frá unglingsárum, svokallaðan frjálsan dans (freestyle á útlensku) þar sem kynin dansa án snertinga. Jafnvel tvista eins og Mörður var þekktur fyrir í Glaumbæ á sjöunda áratugnum. 24 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 1 / 2006 Af Merði lögmanni

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.