Morgunblaðið - 12.02.1980, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 12.02.1980, Blaðsíða 18
18 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 12. FEBRÚAR 1980 flfotginstMjtfeift Utgefandí Framkvæmdastjóri Ritstjórar hf. Árvakur, Reykjavík. Haraldur Sveinsson. Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Þorbjörn Guðmundsson. Björn Jóhannsson. Baldvin Jónsson. Ritstjórnarfulltrúi Fréttastjóri Auglýsingastjóri Ritstjórr, og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Aðalstræti 6, sími 22480. Afgreiðsla: Skeifunni 19, sími 83033. Áskriftargjald 4.500,00 kr. á mánuði innanlands. í lausasölu 230 kr. eintakið. Flokksráðsfundur sjálfstæðismanna Sjálfstæöismenn og flokkur þeirra eru meira í sviðsljósinu nú en hin nýmyndaða ríkisstjórn. Ástæðan fyrir þessum áhuga á Sjálfstæðis- flokknum er augljós. Menn gera sér grein fyrir því, að með aðferð sinni við stjórnarmyndunina braut Gunnar Thoroddsen flokksreglur sjálf- stæðismanna. Andstæðingarnir bíða eftir því að geta skemmt sér yfir eftirleiknum, og þeir fjölmiðlamenn og dagblöð, sem þrífast á pólitískri óáran, lifa í voninni um dýrðardaga og gera sitt til að vonin rætist. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og almennir flokksmenn hafa ekki enn áttað sig á öllum atburðum og bíða úrslita milli vonar og ótta. Á sunnudaginn komu sjálfstæðismenn saman í flokksráði sínu til að taka afstöðu til starfsaðferða við stjórnarmyndunina og málefnasamn- ings ríkisstjórnarinnar. Áður höfðu tvær aðrar helstu valdastofnanir flokksins, þingflokkur og miðstjórn, harmað málsmeðferðina og þingflokkurinn lýst andstöðu sinni við málefnasamninginn. A flokksráðsfundinum stóðu menn frammi fyrir orðnum hlut. Þessi stofnun, sem samkvæmt skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins á aö taka ákvörðun um aðild flokksins að ríkisstjórn með öðrum flokkum, hafði verið sniðgengin og hundsuð af varaformanni flokksins. Rökin voru þau, að sómi Alþingis, þjóðarheill og samviska einstakra þingmanna hefði boðið þeim að hafa viðhorf eigin flokksbræðra, kjósenda sinna, að engu. Á fundinum komst einn ræðumanna svo að orði: Ef það er sniðugt að þingmenn brjóti lög og reglur flokksins, ef það er sniðugt meðal almennra kjósenda Sjálfstæöisflokksins, að menn komist eftir slíkum leiðum til æðstu valda, þá finnst mér ekki lengur sniðugt að vera sjálfstæðismaður. Flokksráðsfundurinn var hlaðinn þeirri kyngimögnuðu spennu, sem aðeins ríkir á sögulegum stundum. Hann stóð í rúmar tólf klukkustund- ir, ekki vegna þess að hart var deilt heldur vegna hins, að mönnum lá mikið á hjarta og vildu, að allir þættir mála kæmu fram. Þeir þingmenn, sem skipa meirihluta þingflokks sjálfstæðismanna, stóðu á fætur hver á eftir öðrum og lýstu því fyrir samflokksmönnum sínum, hvernig þeir hefðu verið blekktir og formanni flokksins gert ókleift að sinna skyldum sínum við stjórnarmyndun vegna athafna varaformanns Sjálfstæðis- flokksins á bak við tjöldin. I máli annarra kom fram, að öll framvinda mála síðustu daga hafi í fyrstu vakið hjá þeim undrun, síðan reiði og loks hryggð. Og hún ríkti á þessum fundi, því að mönnum þótti flokkur sinn hafa verið illa leikinn af fámennum hópi þingmanna. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Gunnar Thoroddsen, sagðist ekki láta flokksklikur segja sér fyrir verkum. Hlutskipti sitt væri að bjarga sóma Alþingis. Hann yrði ekki stöðvaður í því ætlunarverki sínu, þótt mönnum væri þröngvað til andstöðu við það af Geir Hallgrímssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins. Geir Hallgrímsson sagðist ekki bera eigin hag fyrir brjósti, þegar hann mótmælti þessum vinnubrögðum, heldur hag Sjálfstæðisflokksins. Höfuðmáli skipti fyrir Sjálfstæðis- flokkinn, að menn gætu treyst því í viðræðum við formann hans, að hann hefði samningsumboð fyrir flokksins hönd. Undan þessu trausti hefði varaformaðurinn markvisst grafið.. Staðfest væri af Steingrími Hermannssyni í viðtali við Tímann, að Gunnar Thoroddsen hefði átt allt frumkvæði að áþreifingum um stjórnarmyndunina. Á flokksráðsfundin- um lýstu menn stuðningi við formann sinn með yfirgnæfandi meirihluta. Hljóti formaðurinn vantraust er Sjálfstæðisflokkurinn rjúkandi rúst, sagði einn ræðumanna. Um málefnasamning hinnar nýju stjórnar verður ekki farið mörgum orðum að þessu sinni. Gagnrýni hefur forsætisráðherra þegar svarað margsinnis á þann veg, að ekki sé rétt að einblína svo mjög á orðin í stefnuskránni heldur líta til verkanna, framkvæmdin skipti mestu. Engu síður ræddu flokksráðsmenn ítarlega einstök efnisákvæði yfirlýsingarinnar. Á það var bent, að yrði sú leið farin, sem boðuð virðist, að þrengd verði í áföngum heimild til verðhækkana án tillits til kostnaðar atvinnufyrirtækja, hefði aldrei verið gerð meiri atlaga að atvinnurekstrinum. Þá kom fram, að stjórnarstefnan einkenndist af hreinni aukningu ríkisútgjalda og ríkisumsvifa. Hún skapaði auk þess engan grundvöll til þess að vinna bug á verðbólgu. I lok fundarins rúmlega tvö um nóttina var sú tillaga Geirs Hallgrímssonar samþykkt með 103 atkvæðum gegn 29, og voru 9 atkvæðaseðlar auðir, þar sem lýst var yfir samstöðu með miðstjórn og þingflokki um afstöðuna til stjórnarmyndunar Gunnars Thoroddsens og jafnframt lýst yfir andstöðu Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjórnina og málefnasamning hennar. Samhljóða samþykktu flokksráðsmenn þá tillögu Geirs Hallgrímsson- ar, þar sem lógð er áhersla á að samstaða sjálfstæðismanna um land allt sé meginforsenda fyrir framgangi sjálfstæðisstefnunnar og hvatt er til einingar og trúnaðar við flokkinn til heilla landi og lýð. Flokksráðsfundurinn einkenndist af hreinskiptnum umræðum. Engar hugmyndir komu fram um refsiaðgerðir gegn þeim, sem virt hafa flokkslög að vettugi. Þingmenn verða sjálfir að gera það upp við sig hvort þeir yfirgefa flokk sinn eða ekki. Sáttahönd sú, sem Geir Hallgrímsson hefur rétt fram, er enn til taks. Vona verður að aftur grói um heilt og þær gjár, sem myndast hafa, haldi ekki áfram að gliðna. Helgi Hálfdanarson: Ómál og íslenzk tunga Ég verð að játa, að ég hef verið á báðum áttum, hvort ég eigi að svara síðari orðsendingu Magn- úsar Kjartanssonar í Morgun- blaðinu í gær. Mér sýnist um- ræðan ætla að verða helzttil fáfengileg vonum fyrr. Hins veg- ar þætti mér ekki meir en svo kurteislegt við ágætan andmæl- anda minn að hlaupast á brott við svo búið. Og ekki er því að neita, ýmislegt ber okkur á milli. Magnús notaði í fyrri grein sinni orðið „reglingsmenn" á næsta óljósan hátt. Hann hyggst bæta úr því með því að vitna í orðabók Menningarsjóðs um merkingu orðsins „reglingur". En það kemur fyrir lítið, þegar eftir sem áöur er óljóst, hverjir það eru, sem hann kallar regl- ingsmenn, og hvers vegna ég er einn þeirra. Er þaö kannski vegna þess að ég vil ekki leggja grundvallar-reglur íslenzkrar tungu fyrir róða? Ég verð að segja sem er, ég trúi því ekki, að Magnús Kjartansson vilji það sjálfur. En mig furðar á því, að hann skuli vitna í brezkar mál- reglur sem íslenzka fyrirmynd. Hann andmælir því, að „rangt mál" sé að tala til eins manns í fleirtölu, enda segi Bretar „How do you do, John". Nú heyrist æ oftar sagt sem svo: „Mikill fjöidi manna voru þar að verki." Þetta kalla ég rangt íslenzkt mál, enda þótt þar sé fylgt enskri mál- reglu; eða öllu heldur: þetta er röng íslenzka vegna þess að fylgt er enskri reglu, sem er önnur en sú íslenzka regla sem við á. Þetta kallar Magnús Kjartansson „málfræðiröksemd, ekki skvnsamlegt mat"; hann um það. Ég sagðist hafa haldið því fram, að íslenzk tunga ætti ekki að laga sig að breyttum tímum með því að breytast, heldur með því einu að vaxa. Þetta kveðst Magnús ekki skilja, því að vöxt- ur sé sú breyting tilverunnar, sem algengust sé. Þarna vitnaði ég í greinarkorn, sem ég skaut í blað hér um árið. Sá skilsmunur, sem ég gerði þar á breytingum málsins og vexti þess, þótti mér svo sjáli'sagður, að ekki yrði út úr snúið, þótt niður félli. Þar komst ég s-'o að orði: „En gegn breytingum málsins, öðrum en vexti þess, þarf að sporna með öllum raðum." (Morgunbl. 5.3. 1974). Af framhaldi ummæla minna nú hlaut að verða ljóst hvað ég fór, hafi einhverjum reynzt það torskilið. Magnúsi Kjartanssyni þykir orð á því hafandi, að megnið af orðaforða nútímamanna var landnámsmönnum ókunnugt og mikið af tungutaki þeirra gleymt nú. Það sem hér skiptir máli, er ekki það, hvort landnámsmenn renndu grun í umtalsefni og málfar niðja sinna eftir nokkrar aldir, heldur hitt, að þeir sem nú lifa, skilji sem mest af því sem varðveitzt hefur af máli fyrri alda. Að sjálfsögðu hljótum vér að una því að hafa glatað úr málinu því sem komst ekki á bækur og gat ekki lifað án þess. Um framburð gegnir sérstöku máli. Magnús telur að við Snorri Sturluson gætum ekki talað saman, þó svo ég veitti honum áheyrn; svo ólíkur yrði fram- burður okkar, að báðir stæðu klumsa. Þetta er víst býsna algengur misskilningur. Því fer nefnilega fjarri, að framburður stæði okkur til lengdar fyrir skilningi í samræðum. Enda þótt þær breytingar, sem orðið hafa á hljóðkerfi, séu umtaisverðar, teija fræðimenn, að þær gætu ekki valdið mun á framburði, sem meiri væri en lítils háttar mállýzku-munur. Svo við Snorri kæmumst býsna fljótt upp á lagið að þrasa um menn og málefni, gætum jafnvel skegg- rætt um þann slæga bölva-smið af kyni Fárbauta, sem Sturlu- niðjar á atómöld nefna Verð- bólgudraug, engu síður en um norska pólitík á dögum Hákonar og Skúla. Raunar skiptir fram- burður manna fyrr á öldum næsta litlu máli, blátt áfram vegna þess að miðils-tækni er ábótavant. Hins vegar bendir Magnús ágætlega á það sem mestu varð- ar; hann segir: "Leiðin tii þess að tryggja það að þjóðin geti notið Snorra er að prenta ritverk hans í búningi sem hæfir nútíma- mönnum." Þessu er ég alveg sammála, svo langt sem það nær. Vér megum fagna því, að íslenzk tunga hefur ekki breytzt meira en svo, að nútíma íslend- ingar geta notið allra íslenzkra rita frá upphafi vega, þegar réttilega er að útgáfu staðið. Hitt er svo annað mál, að vér getum ekki vænzt þess, að svo haldist framvegis, án þess tung- an sé með ráðum og dáð vernduð fyrir breytingum, öðrum en vexti. Það hefur lengi verið mín skoðun, að kappkosta beri að halda talmáli og ritmáli í sem allra nánastri samfylgd; að í því skyni sé lögð í skólum rækt við samræmdan kennslu-framburð, sem taki mið af nútíma-staf- setningu (sunnlenzkt hv, norð- lenzkt harðmæli), svo að þetta tvennt, framburður og stafsetn- ing, auðveldi og varðveiti hvað annað að sínu leyti. í kenningu minni um mál- vernd þykist Magnús Kjartans- son finna keim af sjónarmiðum hreintungumanna, „en þeir töldu og telja að ekkert orð sé tækt í íslenska tungu nema það eigi sér norrænan uppruna", segir hann. Því miður heldur Magnús hér uppteknum hætti og hefur á orðum mínum alger endaskipti. Fordæming mín á tökuorðum, þ.e. orðum af erlendum uppruna, hljóðaði á þá leið, að „orðaforð- inn eigi sífellt að aukast ... ýmist með tökuorðum eða nýyrð- um, helzt með hvorutveggja". — Ég skal með ánægju karpa við Magnús vin minn Kjartansson lengur en til vors; en þá verð ég að f ara þess á leit, að hann hætti að kalla mig andstæðing minna eigin kenninga. En viti menn! þarna skýrist að nokkru, hverja Magnús kallar reglingsmenn; þar í flokki eru bannfærendur tókuorða. Um þá segir hann: „Ég held að fáir menn hafi verið óþarfari íslenskri málþróun en þeir regl- ingsmenn". Síðan virðist þó slá í baksegl um reglinginn, þegar hann telur það þeirra sök, að menn tíni út úr sér „ómál sem er ekki í neinum tengslum við meginreglur íslenskrar tungu." Einhverjum kynni að þykja mál til komið að spyrja, hvort mál- reglur eigi eftir allt saman að teljast þarfar eða af hinu illa; ellegar hverjar og hverjar ekki, og þá hvers vegna og hvers vegna ekki. Sú spurning verður enn brýnni, þegar Magnús ræðir um nauðsyn tökuorða og telur að „eina vitlega aðferðin hafi verið sú að hagnýta alþjóðleg orð sem mest, en fella þau að öllum meginreglum íslensks tungu- taks." Þarna virðist.að vísu mín kenning vera komin á stúfana, að öðru leyti en því, að þetta sé „eina vitlega aðferðin". Ljóst ætti að vera hvert stefndi, ef svo væri. Hitt er alkunna, að sægur ágætra tökuorða hefur prýtt íslenzkt mál allt frá upphafi ritaldar, orð sem engum dytti í hug að kalla annað en rammís- lenzk. í greinarlok víkur Magnús Kjartansson enn að „véringum". Hann segir að ég yirðist ímynda mér, „að forsetar íslands véri sig af málfræðilegum áhuga á fornri fleirtólumynd". Síðan segir hann: „Þetta er fráleitur mis- skilningur." Og enn er það Magnús Kjartansson sjálfur sem misskilur. Ég hef aldrei minnzt á það einu orði, að neinn forseti „véri sig"; enda var það einmitt sú málbeiting, sem ég kallaði rangt mál. Þegar ég minntist á „forseta vorn", var ljóst að ég átti við núverandi forseta íslands; og ég hef aldrei orðið þess var, að hann „véri sig", þó að hann hins vegar noti þessa réttu fleirtölu á réttan íslenzkan hátt. Og að tala um „forna" fleirtölumynd er villandi og þess vegna rangt. Magnús segir, að fyrsti forset- inn hafi verið „látinn véra sig til þess að sanna að hann stæði Kristjáni lOda danakóngi fylli- lega á sporði, en sá kallaði sig „vi" á dönsku." Ég get ekkert um það sagt, hvernig fyrsti forset- inn tók til orða, því ég man það ekki. En fróðlegt þætti mér að sjá staðfestingu þess, að íslenzk- ur forseti hafi sagt „Vér Sveinn Björnsson" til storkunar Dana- konungi. Og hverjir hefðu „látið" hann gera það? Ef til vill reglingsmenn og tökuorðahatar- ar? Kannski ég? Að síðustu klykkir Magnús út með því, að „véringar" biskups- ins yfir íslandi séu einnig „er- lend máláhrif", „útlenskuskotið tungutak". Og þá gengur fram af mér. Ber að skilja svo, að sá mikli málsnillingur, sem nú skipar æðsta embætti þjóðkirkj- unnar, hafi einhverntíma sagt „vér" um sjálfan sig einan? Eða er hitt heldur, að sá maður hafi talað útlenzkuskotið mál, sem sagði: „Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn"? Sú meinloka, að þá farnist þjóðinni bezt, ef allt sé látið reka á reiðanum um þróun tungunn- ar, hefur nú um sinn reynt að ryðja sér til rúms með töluverðri frekju. Um þessi síðustu skrif Magnúsar Kjartanssonar þykir mér það furðulegast, að þar skuli slíkri firru haldið fram af manni, sem sjálfur kann hin beztu tök á íslenzku máli. 9. febrúar 1980.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.